Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 22.12.2005 | 17:27Gjaldskrá leikskóla, góðar breytingar

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar ásamt gjaldskrám fyrir árið 2006 var samþykkt við síðari umræðu þann 15. desember sl. Gjaldskrá leikskólanna er breytt töluvert mikið. Breytingarnar koma sér vel fyrir fjölskyldur barna í leikskóla, hjá dagmóður eða í dægradvöl. Ákveðið var að hækka ekki grunngjaldið og hefur það verið óbreytt frá 1. febrúar 2005. Áður tók gjaldskráin vísitölubreytingum á þriggja mánaða fresti en fallið hefur verið frá því fyrirkomulagi.

Fallið er frá tekjutengingu á niðurgreiðslu leikskólagjalda og í staðinn tekin upp forgangsgjaldskrá fyrir einstæða foreldra og námsmenn ef báðir foreldrar eru í námi. Forgangsgjaldskrá er 35% lægri en almenn gjaldskrá. Niðurgreiðsla á kostnaði vegna dvalar barna hjá dagmóður er hækkuð um 30%. Systkinaafsláttur verður 30% með öðru barni í stað 25% áður og ekkert greitt fyrir þriðja barn en áður var sá afsláttur 50%. Systkinaafsláttur gildir á milli leikskóla, dagmóður og dægradvalar (heilsdagsskóla).

Tekin er upp greiðsla vegna leikskólabarna með lögheimili í Ísafjarðarbæ sem eru í leikskólum í öðrum sveitarfélögum t.d. vegna námsdvalar foreldra. Þessar breytingar munu koma sér vel fyrir fjölskyldur með börn sem nýta sér þjónustu leikskóla, dagmæðra eða heilsdagsskóla. Tekjutenging kom illa út fyrir þá sem fengu lækkun leikskólagjalda vegna þess að um leið og farið var yfir ákveðin lágmarkslaun féll lækkunin niður. Tekjutenging var í því tilfelli óréttlát og þess vegna mikilvægt að falla frá henni.

Ný gjaldskrá tekur gildi 1. janúar 2006.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi