Grein

Björn Davíðsson.
Björn Davíðsson.
Fjarskiptaleiðir á Vestfjörðum. Gular línur eru ljósleiðarar Símans, gráar eru helstu örbylgjuleiðir. Rauða línan er tillaga að nýjum ljósleiðara milli Ísafjarðar og Bifrastar.
Fjarskiptaleiðir á Vestfjörðum. Gular línur eru ljósleiðarar Símans, gráar eru helstu örbylgjuleiðir. Rauða línan er tillaga að nýjum ljósleiðara milli Ísafjarðar og Bifrastar.

Björn Davíðsson | 16.12.2005 | 13:35Fjarskipti á Vestfjörðum

Hjálmar Árnason ritar grein í Morgunblaðið þann 6. desember sl sem ber nafnið Netbyltingin. Þar fjallar hann um fjarskiptasjóð og netsamband. Hjálmar talar um ótrúlegar framfarir Íslendinga í fjarskiptamálum á allra síðustu árum eins og að uppfylla lagaskyldu um alþjónustu með ISDN fyrir árið 2002 sem er nú reyndar ekki alveg lokið. Hjálmar heldur síðan áfram að ræða um öfluga samkeppni á þessu sviði og að fólk eigi að geta ,,tengst” hvar sem er á landinu. Því miður vantar þar enn ansi mikið á í hinum dreifðari byggðum jafnvel þó fyrirtæki eins og Snerpa hafi víða sett niður lágmarksþjónustu þar sem Símanum finnst ekki taka því. Stofnun fjarskiptasjóðs fyrir lítinn hluta símapeningana, peningana ,,okkar” – þjóðarinnar er því mikilvægt skref til að bæta hér úr.

Þegar fyrirhuguð var sala á Landssímanum með grunnnetinu voru margir sem lýstu áhyggjum af því að sem einkafyrirtæki myndi Síminn ekki þjónusta landsbyggðina á sama hátt og höfuðborgarsvæðið. Ekki eru liðnir nema fáeinar vikur síðan fyrirtækið skipti um eigendur þegar Síminn hefur hagræðinguna á því að segja upp tugum starfsmanna á landsbyggðinni, t.d. á Blönduósi, Hvolsvelli og á Ísafirði.

Starfsemi Símans

Eva Magnúsdóttir ritar grein á BB-vefinn í síðustu viku og hrósar þar umfangsmikilli starfsemi Símans á Vestfjörðum. Hér séu 12 manns í vinnu af um 1200 á landinu öllu (1%) og tveir GSM-sendar hafi nýlega verið gangsettir. Þá segir Eva Símann vera eina fjarskiptafyrirtækið sem haldi uppi talsverðri starfsemi á Vestfjörðum. Af þessu tilefni vil ég benda á að Snerpa á Ísafirði er eina fjarskiptafyrirtækið sem býður netnotendum sítengingar í öllum þéttbýliskjörnum á Vestfjörðum.

Eva ræðir líka í grein sinni að Bolvíkingar hafi fyrstir fengið tengt sjónvarp yfir ADSL. Um leið þarf að minnast þess að Síminn tók þar að sér skuldbindingar Íslenska sjónvarpsfélagsins sem hafði veitt loforð fyrir útsendingum á dagskrá Skjás Eins og enska boltanum endurgjaldslaust í Bolungarvík ef heimamenn slægju saman fyrir sendi sem þeir og gerðu. Boltinn var þó ekki endurgjaldslaus lengi. Sett var upp ný símstöð fyrir Holtahverfið á Ísafirði enda algerlega óviðunandi fyrir íbúa þar að geta ekki notað auglýsta þjónustu Símans vegna þess að trassað hafði verið í áraraðir að ráðast þar í nauðsynlega fjárfestingu.

Þá minntist Eva á stækkun gagnasambanda á svæðinu. 45 Mbps varasambandið fyrir gagnaflutning var bráðnauðsynlegt en er of lítið. Bilun í ljósleiðara mun hafa veruleg áhrif á síma- og gagnaflutning, mun meiri t.d. en slit á samböndum um Farice-sæstrenginn sem Síminn telur óviðunandi og ekkert sjónvarp mun nást á meðan á slíkri bilun stendur. Vonandi verðum við þó ekki sambandslaus við umheiminn klukkustundum saman við slíka bilun eins og gerðist ítrekað áður en þetta varasamband var sett upp. Gagnasambandið um ljósleiðarann vestur er einnig orðið of lítið.

Í ljósleiðaranum eru 8 þræðir (4 pör) nær alla leiðina frá Búðardal til Ísafjarðar en einungis 6 þræðir þar sem minnst er. NATO hefur óskipt afnot af þremur þráðum þannig að einungis er hægt að nýta eitt par alla leiðina og einn þráð til vara. Um þetta par eru nú flutt bandvídd upp á 622 Mbps, þar af 310 Mbps vegna gagnaflutninga og má segja að þetta samband sé nú fullbókað ef ekki yfirbókað. Um nokkuð langan tíma hefur verið þörf á að stækka sambandið a.m.k í 2500 Mbps en það hefur verið látið bíða, væntanlega vegna þess að fyrirsjáanleg var sala á fyrirtækinu og því sparað í fjárfestingum. Vegna þessa getur Síminn ekki boðið sama fjölda sjónvarpsrása yfir ADSL hér fyrir vestan og er í boði á SV-horninu og reyndar ekki einu sinni þær rásir sem sjálfsagt er að dreifa um allt land eins og t.d. Fasteignasjónvarpið, RÚV+, Skjá Einn+ og Alþingisrásina.

Bergþór Halldórsson framkvæmdastjóri fjarskiptanets og Orri Hauksson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans hafa sagt að ADSL-sjónvarp væri drífandi þáttur í uppbyggingu fjarskiptanetsins og að til stæði að sjónvarpa öllum rásunum um allt land um leið og burðargeta fjarskiptanetsins yrði nægjanleg. Hlutverk fyrir aukna flutningsgetu á Vestfirði er því vissulega fyrir hendi.

Við þetta er svo því að bæta að fyrir rúmum mánuði óskaði Snerpa eftir tilboði frá Símanum í stækkun fyrir 100 Mbps gagnasamband á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur þar sem til stendur að auka við núverandi gagnasamband. Í þessarri viku barst svo svar um að slíkt samband væri ekki fáanlegt og ekki væri fyrirhugað að stækka þau sambönd sem fyrir eru. Sl. vor var einnig hafnað beiðni um stækkun frá Ísafirði til Hólmavíkur. Ég hef reyndar um það vilyrði frá þjónustustjóra Símans á Ísafirði að þetta verði athugað frekar en að svo komnu máli er engin svör að hafa.

Nýr ljósleiðari

Besta lausnin er að leggja nýjan ljósleiðara frá Brú í Hrútafirði um Hólmavík til Súðavíkur. Þá verður komin varanleg lausn sem er ljósleiðarahringur um Vestfirði og eykst þá verulega rekstraröryggi og bandvídd frá því sem nú er. Síminn hefur um árabil átt til teikningar af þessu og má áætla kostnaðinn við verkið um 150 milljónir króna sem er einungis brot af þeim fjármunum sem munu leggjast til í fjarskiptasjóð af kaupverðinu fyrir Símann. Auðvitað þarf einnig að auka afköst núverandi ljósleiðara enda tekur töluverðan tíma að leggja nýjan og sá sem fyrir er þarf að geta þjónað áfram.

Þarna getur fjarskiptasjóður gegnt mikilvægu hlutverki. Ég get ekki séð að sé til of mikils mælst að fjarskiptasjóður leggi til þessar 150 milljónir af 2500 milljóna stofnfé sínu til að leggja ljósleiðara um Strandir og Djúp. Best væri reyndar að leggja hann alla leið frá Ísafirði í Borgarfjörð til að koma honum inn í hið öfluga samkeppnisumhverfi sem Hjálmar minnist á. Með því að leggja t.d. 8-12 para streng væri hægt að leigja hann fjarskiptafyrirtækjum par fyrir par. Um leið skapast heilbrigð samkeppni í gagnaflutningi á milli landshluta. Síminn gæti t.d. verið að leigja nokkur pör og notað eitt þeirra til að veita fullkomna GSM-þjónustu á þjóðvegi 61 þar sem ekkert samband er núna og aðilar eins og t.d. NATO, Flugmálastjórn, OgVodafone, Snerpa, fjölmiðlar og fleiri hefðu áreiðanlega líka áhuga á að leigja hver sitt par til gagnaflutninga.

Það er því ábending mín til þeirra sem ákvarðanir taka í þessum efnum að Vestfirðinga vantar aukna gagnaflutningsgetu – núna - bæði í formi stækkunar á núverandi ljósleiðara og einnig í framhaldinu með aðkomu fjarskiptasjóðs að lagningu nýs ljósleiðara og fá þannig aukið rekstraröryggi með hringtengingu.

Björn Davíðsson, þróunarstjóri hjá Snerpu.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi