Grein

Jóna Benediktsdóttir.
Jóna Benediktsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir | 29.11.2005 | 13:32Hugsað upphátt

Undanfarið, eins og raunar oft áður, hef ég velt talsvert fyrir mér unglingamenningunni hér á Ísafirði. Um nokkurt árabil höfum við verið þeirrar gæfu aðnjótandi að unglingarnir okkar hafa verið að mestu lausir við notkun tóbaks og annarra fíkniefna. Krakkarnir hafa verið skapandi og tekið virkan þátt í að hafa áhrif á umhverfi sitt. Þeir hafa verið sjálfum sér og okkur hinum til sóma og námsárangur hefur verið góður. En er þetta að breytast? Og ef svo er, hvað er þá til ráða? Ég er að minnsta kosti hrædd um að nú séu blikur á lofti.

Nú er staðan þannig að í 9. og 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði reykja þó nokkrir krakkar og enn fleiri nota annars konar tóbak og ég veit að unglingar niður í 9. bekk hér í skólanum hjá okkur hafa reykt hass. Þetta finnst mér og okkur sem störfum í skólanum ekki ásættanleg staða. Ég er ekki viss um að foreldrar allra unglinga geri sér grein fyrir hvernig ástandið er, hversu auðvelt er fyrir börnin þeirra að nálgast bæði lögleg og ólögleg fíkniefni. Þegar ég horfði á heimildarmyndina ,,Skuggabörn“ sem sýnd var í sjónvarpinu á dögunum fór um mig hrollur, þetta voru bara venjulegir krakkar frá venjulegum heimilum sem höfðu á einhverjum tímapunkti ákveðið að prófa neyslu og eru svo fastir í neti margskonar vandræða. Þeir sem eru að selja spyrja ekki um aldur, þeir vilja bara selja.

Mér varð hugsað til krakkanna okkar sem eru að fikta við þetta, þeir standa á þröskuldi í lífi sínu og það er okkar að taka í taumana. Við höfum sýnt það hér á Ísafirði að við getum með samstilltu átaki breytt viðhorfi og menningu unglinga. Fyrir nokkrum árum var ástandið slæmt hjá okkur. Þá fór af stað mikil vakning meðal foreldra og allra þeirra sem starfa að málefnum barna og unglinga, vakning sem snerist um að hjálpa börnunum að velja sér heilbrigt lífsviðhorf og láta neyslu tóbaks og vímuefna bíða. Nú eru þessi viðhorf því miður á nokkru undanhaldi. Oft er það svo að við áttum okkur ekki á hver staða barnsins er í raun og veru fyrr en í óefni er komið.

Við erum gjarnan grunlaus og tökum skýringar barnanna á reykingalykt, breyttum venjum og nýjum vinum góðar og gildar því auðvitað viljum við öll trúa og treysta börnunum okkar, en við þurfum að hafa vara á okkur. Ég tel að við getum vel komið í veg fyrir að þau viðhorf sem ráða því að börn í grunnskóla ákveði nota tóbak eða önnur vímuefni breiðist út meðal barnanna okkar. Skólinn getur séð fyrir fræðslu og haft jákvæð áhrif á viðhorf en hann er máttlaus ef foreldrar eru ekki samferða honum. Ekkert kemur í staðinn fyrir jákvæða samveru foreldra og barna, þar eru tækifærin til að styðja unglinginn við að mynda sér skoðanir á hvernig lífi hann vill lifa.

Stöndum saman og pössum börnin okkar, kynnumst vinum þeirra og fylgjumst með því sem þau gera. Látum ekki unglinga bera ábyrgð sem þeir ráða ekki við. Það er mikil vinna að vera foreldri lítilla barna en það er ekki síður mikil vinna að vera foreldri unglinga, bara öðruvísi.

Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi