Grein

Egill Guðmundsson.
Egill Guðmundsson.

Egill Guðmundsson | 21.11.2005 | 09:24Til varnar kirkjukórum

Í kringum 1840 eignuðumst við Íslendingar okkar fyrsta menntaða söngþjálfara. En þá var ástand söngmála innan kirkjunnar afar bágborið og hafa margir lýst þeim söng á grátbroslegan hátt. Jónas Hallgrímsson lýsir þessu ástandi vel í ljóðinu Þorkell þunni. Ljóðið er mjög myndrænt eins og Jónasi var lagið, en þar segir af kirkjusöng þar sem Þorkell nokkur er forsöngvari. Hann reigir sig og þenur svo að klerkurinn flýr en söfnuðurinn liggur rotaður eftir. Þegar meðhjálparinn raknar úr rotinu reynir hann að lesa bænina sína. En Keli er ekki búinn og spyr hvort hann hafi virkilega ekki frið til að ljúka söngnum.

Að svo mæltu aftur hann byrjar,
upp og niður gengur og kyrjar.
Flýr þá, eins og fæturnir toga,
fólk sem stæði kirkjan í loga.


Söngvarinn sprengir sig í lokin og má vel túlka það svo að Jónas telji þetta form kirkjusöngs úr sér gengið, ófrjótt og dautt. Langt fram yfir aldamótin 1900 stóð íslenskt tónlistar- og söngstarf á brauðfótum, skortur á menntuðu tónlistarfóki og almennur skilningur á tónlist mjög lítill. Ein fyrstu merkin um batnandi tíð í þeim efnum var átak innan kirkjunnar varðandi sögn og raddþjálfun.

Fram eftir 20. öldinni var kirkjusókn yfirleitt fremur góð og fyrstu kynni margra af tónlist og söng var einmitt í kirkjunum. Við flestar kirkjur urðu til kórar sem æfðu vel og lögðu metnað í starfið. Fullyrða má að mörg þúsund íslendingar hafi stigið fyrstu skref sín inn í heim tónlistar ýmist í kirkjukórum eða sem áheyrendur þeirra.

Það er því hafið yfir skynsamlegan vafa að allt kórastarf landsins hefur vaxið í skjóli kórastarfs kirkjunnar, enda má finna söngvant fólk úr kirkjukórunum í flestum öðrum kórum landsins.

Á jólum og öðrum stórhátíðum er gaman að verða vitni að stórbrotnum tónlistarflutningi í kirkjum landsins og hvet ég alla sem hafa gaman að söng að taka þátt í því starfi, annað hvort sem neytendur eða gerendur.

Egill Gðmundsson, kennari.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi