Grein

Halla Signý Kristjánsdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir.

Halla Signý Kristjánsdóttir | 16.11.2005 | 10:17Kirkjukórar börn síns tíma?

Vó vó, hvað Magnús Ólafs Hansson er pirraður þessa dagana, var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég renndi yfir grein hans sem birtist á vef BB í gær 15. nóv. Hann fær ekki að syngja í sínu guðshúsi en þarf þess í stað að láta lærðan kirkjukórinn sarga misgóða tóna í eyru sín og guðsorðið nær þar af leiðandi ekki í gegn til þess að hann geti notið þess. Þetta er að sjálfsögu ekki nógu gott og hvað þá heldur að kirkjukórar landsins fari að axla þá ábyrgð að hafa eyðilagt bæði fyrir honum og örðurm landsmönnun blómlegt trúar- og safnarlíf. Ég var ekki uppi fyrir 100 árum síðan og var því ekki frumkvöðull af þessari skemmdarstarfsemi og Magnús ekki heldur (þótt hann sé nær því en ég). En eins og Magnús ætti að vita að þá var félagslíf landans með öðrum hætti en nú er og að mæta í kirkju og var eitt fremur skylda og oft eina samkoman sem fólk hittist og gat hlýtt á tónlist og notið og iðkað sönglistina.

Ekki veit ég heldur hvaða kirkju Magnús sækir þar sem honum er meinað að taka undir í sálmasöngnum, en þær messur sem ég hef sótt er það fremur sem presturinn hefur hvatt hinn almenna kirkjugest að taka undir og hef ég aldrei látið mitt eftir liggja og syng að innlifun og ekki fengið bágt fyrir hingað til. Magnús var við messu á Flateyri í sumar og var þar almennur kirkjugestur. Ég gerðist sek um að syngja með kirkjukórnum en ég tók einmitt eftir því að Magnús steinþagði á kirkjubekknum. Ég hélt í sakleysi mínum að hann væri væri að hlýða með andtakt á fagran söng okkar kórsins við undirleik konu sinnar. En nú veit ég betur að sargið hefur hreinlega verið að bera hann ofurliði. Magnúsi skal bent þó á það að eftir því sem ég best veit er öllum frjálst að iðka trú sína og koma í kirkjur landsins fyrir utan almennan messutíma og jafnvel að halda þar sína tónleika, svona hversdags.

Alveg er ég sammála Magnúsi um að hinn almenni kirkjugestur eigi að taka meiri þátt í hinni almennu guðþjónustu og syngja með rétt eins presturinn hvetur oft til. Til þess liggja sálmabækurnar frammi og messuskrár til þess að allir geti fylgst með. Í barnastarfi kirkjunnar er mikið sungið og þar læra börnin að taka þátt í starfinu og ættu því að vera full fær um að syngja með í hinni almennu messu.

Það er kannski frekar spurning um sálmaval og/eða þá tónlist sem flutt er við messu að það standi í þeim „ólærðu“ að taka þátt í almennum söng. Stundum eru þetta þunglamalegir sálmar og erfið tónhæð sem fólk hreinlega treystir sér ekki til að taka þátt í. Það væri líka ráð að kirkjukórinn myndi dreifa sér um bekki kirkjunnar og haldi í höndina á hinum almenna „niðurlægða“ kirkjugesti eins og Magnúsi og leiddi hann í söngnum. Það er ein hugmynd sem mér hefur oft dottið í hug að mætti iðka meira í hinni almennu messu. Svo er það líka oft hin almenna messuhegðun sem fólk er feimið við vegna þess að það kann það bara almennt ekki, eins og hvenær á að standa eða sitja, þegja eða syngja í messusvörum og fleira í þeim dúr. Þetta ætti þjóðkirkjan að hugsa meiri um og kannski hreinlega að halda námskeið í eða breyta til frjálslegri hátta. Fólk er stundum hrætt við að verða sér til skammar í messum því það man ekki hvort það á að standa eða sitja undir ritningunni eða guðspjallinu.

Já, trúin getur flutt fjöll en það er allt annað en gaman að muna hvernig maður á að iðka hana nú til dags þegar það er hreinlega farið að heyra til undantekningar að fólk komi saman við kirkjulegar athafnir. En líka skal bent á að kirkjukórinn er ekki bara í kirkju til að eyðileggja friðinn fyrir Magnúsi og hinum almenna kirkjugesti heldur eru þau sem syngja í kirkjukórum líka kirkjugestir og eru komnir til að hlusta á hið heilaga orð.

Hvað varðar eyðileggingarstarf kirkjukóra á safnaðarstarfi landsins ætti Magnús að kynna sér eitthvað betur. Ég held að Magnús hafi lesið þá sögu eitthvað öfugt aftanfrá eins og fjandinn þegar hann las biblíuna. Mig grunar helst að þessi pistill hans Magnúsar sé einhver markaðsræða fyrir karlakórinn og hann vilji að hann fari að syngja við allar athafnir en held að þeir geti nú verið leiðigjarnir til lengdar og framlágir ef þeir ættu að fara að sinna öllum kirkjum hér á norðan verðum Vestfjörðum, þótt þeir séu kraftmiklir og ekki myndu þeir syngja fyrir ekki neitt.

Frekar myndi ég ætla að starf kirkjukóra í landi séu til að efla safnaðarstarf og er efins um að það eitt að losna við þá myndi efla hina almennu kirkjusókn eða alla vegna vil ég fá betri rök fyrir því en almennan pirring. Það fólk sem hefur lagt kirkjukórum lið, vinnur mjög óeigingjarnt starf, og sýnir safnaðarstarfi mikla trúfesti alla vegna ríður það varla feitu hrossi fyrir þann pening sem það fær fyrir að syngja. Mesta lagi að presturinn klappi þeim á bakið fyrir ómakið. Ég starfa í kirkjukór Önundarfjarðar og hef verið viðloðandi hann s.l. 20 ár og aldrei hef ég fengið svo mikið sem krónu fyrir þann söng, kannski ekki þess verður. En hitt veit ég að það er nokkur kostnaður hjá sókninni við kirkjukórinn og hann rennur allur til stjórnanda og undileikara. Þar njótum við leiðsagnar lærðar tónlistarmanna sem mér finnst full ástæða til að fái greitt fyrir sína góðu vinnu.

Svo vona ég að næst þegar Magnús stígur framm úr þá fari hann réttu meginn og megi Guð fylgja honum fram á veginn sem hingað til.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Önundarfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi