Grein

Magnús Ólafs Hansson.
Magnús Ólafs Hansson.

Magnús Ólafs Hansson | 15.11.2005 | 13:31Burt með kirkjukórana

Einhvers staðar las ég að uppbygging og starfsemi íslenskra kirkjukóra væri u.þ.b. aldargömul, þ.e. að fjölradda söngur í guðshúsum Þjóðkirkjunnar hafi verið því sem næst óþekktur fyrr en við lok 19. aldar. Ekki veit ég hver átti upptökin að þessum ósköpum, en víst er að þar var stigið alvarlegt feilspor sem alla tíð síðan hefur staðið öllu kristnihaldi hérlendis fyrir þrifum. Og nú er staðan orðin þessi, eins og alþjóð veit, að kirkjukórarnir eru að verða búnir að eyðileggja allt safnaðarstarf á Íslandi. Er þá vægt til orða tekið.

Það hefur lengi verið skoðun mín að kirkjukórar eigi alls ekki að vera til, hvað þá, ef rétt er, að borgað sé fyrir starf þeirra í kirkjunum, heldur eigi að gera söfnuðinn að lifandi þátttakanda í söng messunnar. Annars staðar á Norðurlöndum eru ekki starfandi kirkjukórar í almennum messum. Þar eru forsöngvarar sem syngja með söfnuðinum fyrstu línu í viðkomandi sálmi. Safnaðarstarf er þar mjög víða í miklum blóma, enda fær fólkið að syngja þar í friði, án allrar íhlutunar „hinna lærðu“.

Hinn almenni safnaðarmeðlimur sem kemur í kirkju hér á landi og langar að taka þátt í söngnum þorir það einfaldlega ekki af ótta við að vera niðurlægður, tekinn sem hjáróma rödd. Samt er hann þangað komin til að lofa Guð sinn, og á þann hátt sem víða er boðað í Heilagri ritningu, þ.e. með söng. Að geta ekki notað þann rétt sinn og þörf er óþolandi.

Nú er það svo, að hægt er að bjarga málum fyrir horn ef hendur eru látnar standa fram úr ermum og byrjað strax; það er gerlegt að snúa þessari óheillaþróun við. Og betra er seint en aldrei. Það myndi að vísu taka 10-15 ár að fá söfnuðinn til að taka undir söng í kirkjum landsins á nýjan leik. Skynsamlegt væri að hefja viðsnúninginn þegar í barnastarfi kirkjunnar, að kenna börnum þar að taka virkan þátt í söng í kirkjum. En eins og staðan er í dag mætir kirkjukórinn nánast einn í messur sunnudaganna, ásamt kannski örfáum viðbótarhræðum til að hlusta á guðsorðið. Ekki er nú reisnin mikil yfir þessari fornu háborg.

Ég vil efla kirkjustarf á Íslandi og vil leggja mig fram um að breiða út fagnaðarerindið. En ég hef ekki nokkurn áhuga á að koma til kirkju í almenna messu og hlusta á misgóða kirkjukóra skrækja yfir mér í húsi Drottins. Þeir geta áfram verið til og haldið sína eigin tónleika án þess að halda þá í kirkjum landsins á messutíma. Ef einhver hins vegar óskaði sérstaklega eftir að kórar syngi við ákveðnar athafnir yrði að verða við því.

Nú er það yfirlýst stefna Þjóðkirkjunnar að fara að taka til hendinni í þessum málum. Það er vel, þó að ég hefði viljað að gengið yrði mun lengra og harðar fram og þessi bákn aflögð með öllu.

Ég mæli með því við ykkur, ágætu landsmenn, að þið mætið í kirkjur landsins og takið virkan þátt í safnaðarstarfi. Og syngið fullum hálsi og látið kirkjukórana finna að þeir séu óþarfir.

Magnús Ólafs Hansson, Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi