Grein

Sigríður Ragnarsdóttir.
Sigríður Ragnarsdóttir.

Sigríður Ragnarsdóttir | 07.11.2005 | 14:44Tónlistarbæinn vantar nýjan tónleikaflygil!

Rúm sex ár eru liðin síðan tónleikasalurinn Hamrar á Ísafirði var vígður og hefur hann frá fyrsta degi hlotið mikið lof fyrir einstaklega góðan hljómburð. Barokkperlur, háklassík, nútímatónlist, djass, popp, rokk, kórsöngur, kammermúsík, nemendatónleikar, tónlistarnámskeið – allt hljómar þetta listilega í Hamrasalnum góða. Listamenn sækjast því eftir að koma vestur til tónleikahalds og Ísfirðingar eru iðnir að sækja tónleika sem og aðra menningarviðburði í salnum. Það er því kominn tími til að hinir tónelsku Vestfirðingar fái nýjan flygil í hið glæsilega mennngarhús. Gamli Bösendorfer-flygillinn sem nú stendur í Hömrum hefur dyggilega þjónað hlutverki sínu sem tónleikaflygill Ísfirðinga í rúm 40 ár, en nú er hann farinn að láta verulega á sjá, bæði hvað varðar útlit og hljóm. Ljóst er að hann er ekki lengur fær um að uppfylla þær gæðakröfur sem nútímaáheyrendur og –listamenn gera til slíkra hljóðfæra.

Tónlistarlíf á Ísafirði hefur löngum staðið með miklum blóma og í augum landsmanna hefur tónlistin, ásamt fiskinum, verið eitt aðalauðkenni bæjarfélagsins. Tónlistarfélag Ísafjarðar hefur starfað óslitið frá stofnun þess árið 1948 að eflingu tónlistarlífs á Ísafirði, fyrst og fremst með uppbyggingu tónlistarmenntunar í bænum en einnig og ekki síður með öflugu og metnaðarfullu tónleikahaldi. Meginviðfangsefni félagsins síðustu tvo áratugina hefur þó verið að afla húsnæðis fyrir tónlistarkennslu og tónleikahald í bænum. Það er í rauninni kraftaverki líkast að svo fámennt félag hafi lyft því grettistaki sem bygging tónleikasalarins Hamra og endurnýjun skólahúss Tónlistarskóla Ísafjarðar er, þótt vissulega hafi félagið notið öflugs stuðnings til þeirra afreka frá Styrktarsjóði skólans, Ísafjarðarbæ og bæjarbúum sjálfum.

Uppbygging tónlistarhússins við Austurveg er raunar langt frá því að vera að fullu lokið. Á neðstu hæð skólahússins er mikilla viðgerða þörf, en það rými er nú í tímabundnu láni hjá grunnskólanum, ytra byrði hússins þarfnast algjörrar endurnýjunar, lóðin umhverfis húsið er ófrágengin auk þess sem hljómfagur og vandaður konsertflygill hlýtur að teljast nauðsynlegur búnaður sérhvers tónlistarhúss.

Það voru mikil tímamót í menningarsögu Ísafjarðar þann 30. september 1964 þegar nýr Bösendorfer-flygill var vígður í Alþýðuhúsinu með tónleikum Árna Kristjánssonar, sem þá var fremsti píanóleikari landsins. Á þeim rúmlega fjórum áratugum sem síðan eru liðnir hafa allir helstu píanóleikarar Íslands auk fjölmargra erlendra snillinga komið til Ísafjarðar, sumir þeirra margsinnis og leikið á þetta gamla og virðulega hljóðfæri, sem einu sinni var eitt hið besta í landinu.

Nú hefur Tónlistarfélag Ísafjarðar ákveðið að ráðast í kaup á nýjum flygli fyrir Hamra. Stefnt er á að kaupa flygil frá Steinway-verksmiðjunum í Hamborg, en þær hafa starfað í um 150 ár og getið sér orð fyrir hljóðfæri í hæsta gæðaflokki. Hver flygill tekur um ár í framleiðslu og er dekrað við smáatriðin enda mun gott handverk vera aðall framleiðslunnar. Steinway-flyglar eru þekktir fyrir safaríkan og blæbrigðaríkan en jafnframt afar skýran tón, svörun við áslætti þykir sérlega góð, og hvert hljóðfæri er einstakt. Stundum er vísað til Steinway-flygla sem “Rolls Royce” hljóðfæranna, enda taka flestir frægustu píanóleikarar heims þá fram yfir önnur hljóðfæri. Íslandsvinurinn Vladimir Ashkenazy hefur t.d. sagt að Steinway sé eina píanóið sem láti drauma píanistans rætast!

Tónlistarfélag Ísafjarðar stofnaði sérstakan flygilsjóð fyrir nokkrum árum og hafa sjóðnum síðan borist ýmsar stórar peningagjafir svo að nú mun vera í honum talsvert á aðra milljón króna. Verð á Steinway-flygli fyrir Hamra er á bilinu 6,5-8,5 milljónir króna eftir því hversu stór flygill verður fyrir valinu, en verð á flyglum hefur þó lækkað verulega á síðustu misserum vegna hás gengis íslensku krónunnar.

Nú hefur Sunnukórinn á Ísafirði átt frumkvæði að sérstöku fjáröflunarátaki fyrir flygilsjóðinn og þannig gengið til liðs við Tónlistarfélagið og Tónlistarskólann. Rótarýklúbbur Ísafjarðar er einnig virkur aðili í fjáröfluninni, en það voru einmitt félagar í klúbbnum sem söfnuðu mestu af því fé sem þurfti til að kaupa gamla flygilinn á sínum tíma. Styrktarsjóður Tónlistarskólans mun sem fyrr leggja sitt af mörkum og rennur t.d. allur ágóði af jólakortum félagsins í ár í flygilsjóðinn.

Fjáröflunarátakið hefst með sérstökum styrktartónleikum í Ísafjarðarkirkju nk. sunnudag, 13. nóvember kl. 16:00. Tónleikarnir eru hápunktur menningarhátíðarinnar Veturnátta sem nú stendur yfir í Ísafjarðarbæ og er dagskráin fjölbreytt og glæsileg. Leitað hefur verið til fjölmargra aðila um tónlistar- og skemmtiatriði á tónleikana og styrktarlínur í efnisskrá og hefur hvarvetna verið tekið afar ljúfmannlega í stuðning við þetta verðuga verkefni. Meðal atriða á efnisskrá tónleikanna verður fjölbreyttur kórsöngur, lúðrablástur, píanóleikur, djass, einsöngur og gamanmál en dagskráin er enn ekki fullfrágengin.

Nýr og glæsilegur flygill í Hömrum verður án efa mikil lyftistöng fyrir vestfirskt tónlistar- og menningarlíf. Það verður gífurleg hvatning fyrir vestfirska tónlistarmenn, vestfirska tónlistarkennara og –nemendur, að fá slíkt hljóðfæri til afnota og með tilkomu þess verður enn eftirsóknarverðara en áður fyrir íslenska og erlenda listamenn að halda hér tónleika, tónlistarnámskeið og gera upptökur.

Á síðustu árum hefur verulega aukist skilningur á hlutverki menningar í íslensku atvinnulífi og mikilvægi skapandi atvinnugreina í hagkerfinu, Hér fyrir vestan eigum við ýmis vannýtt sóknarfæri í þessum geira atvinnulífsins og með auknum stuðningi við menningarlífið gæti Ísafjarðarbær hæglega skapað sér ákveðna sérstöðu sem forystubær á sviði nútímamenningar. Slíkt myndi bæta mjög ímynd Vestfjarða og laða hingað skapandi einstaklinga og fjárfestingar af ýmsu tagi. Eins og dæmin sanna skapa listir og menning oft auð þar sem menn eiga þess síst von.

Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að nýr og vandaður flygill mun ekki aðeins hleypa nýju lífi í vestfirskt tónlistarlíf heldur og hafa jákvæð áhrif á allt atvinnu- og efnahagsumhverfi á svæðinu.

Ég leyfi mér því að skora á alla Vestfirðinga að mæta á tónleikana í Ísafjarðarkirkju á sunnudaginn og styrkja þar með málefni sem snertir hagsmuni allra íbúanna á svæðinu um leið og þeir fá notið margs hins besta sem vestfirskt menningarlíf hefur upp á að bjóða.

Sigríður Ragnarsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi