Grein

Ólafur B. Halldórsson.
Ólafur B. Halldórsson.

Ólafur B. Halldórsson | 04.11.2005 | 09:54Bréf til ráðskonu Bakkabræðra

Kæra Sigríður Margrét: Ég á eilítið erindi við þig. Mig langar til að spyrja þig nokkurra spurninga og kannski fræða þig ofurlítið í leiðinni. Þar sem ég er ekki með heimilisfangið bað ég héraðsfréttablaðið okkar að koma þessu bréfkorni til skila. Það eru engin trúnarmál í bréfinu og því treysti ég að þú takir því ekki illa þó einhver gægist í það í leiðinni.

Ég merkti að þú ert titluð framkvæmdastjóri fyrirtækisins Já sem er býsna gott nafn á fyrirtæki. Það ber í sér yfirbragð og ímynd jákvæðni. Ég leyfi mér í fyrirsögn að titla þig ráðskonu sem ekki felst í nein neikvæðni heldur aðeins það að ég veit ekki enn hvort erindi þitt hingað til Ísafjarðar var að framfylgja ákvörðun sem þú mótaðir sjálf af eigin frumkvæði eða hvort þú þurftir að leita ofar í valdastigann eins og ráðskonur af gamla skólanum þurftu stundum að gera. Gaman væri að þú segðir mér það af hreinskilni. Það gæti varpað ljósi á sljóan skilning minn á ákvörðun sem þú tilkynntir hér á dögunum.

Því var gaukað að mér að þú værir viðskiptalærð úr góðum háskóla. Gott ef satt er, því aldrei er nóg af blessaðri menntuninni og lítið að marka orð karlsins hans Stephans G. að lærdómshrókar séu andleg ígulker ótal skólabóka. Ég hélt þó í fáfræði minni að það væri eitt af grunnstefjum háskólanáms að undirbyggja málflutning sinn með rökum. Ég átti því von á að sú ákvörðun að svipta fimm konur á Ísafirði afkomu sinni væri studd sterkari rökum en með orðinu hagræðing. Ég skal segja þér að þó þetta sé ekki nýyrði þá hefur það á seinni árum fengið nýja merkingu eins og oft gerist í þróun málsins. Í hugum fólks merkir orðið í dag að losa sig við láglaunafólk öfugt við að losa sig við óæskilegt hálaunafólk. Þá er oftast beitt nýyrðinu starfslokasamningur. Þar sem orðið hagræðing er í hugum fólks orðin heldur morkin klisja úr munni miljarðadrengja þyrftir þú að beita þinni menntun til að rökstyðja gerðir þínar betur. Það mætti til dæmis gera með tilvísun í ársreikninga Símans og dótturfyrirtækja hans þar sem afkoman sýndi berlega að reksturinn þyldi ekki að halda úti dýru húsnæði á Ísafirði hvað þá að greiða þessum fimm konum laun. Þegar þú hefur lagt þetta fyrir gæti verið að einhver skilningur færi að vakna hjá okkur viðskiptamönnum þessa fyrrverandi þjóðarfyrirtækis.

Ég er ekki alls óvanur því að standa frammi fyrir fólki og þurfa að bera þeim tíðindi sem vekur með þeim ugg. Ég fæst nefnilega við að reka rækjuverksmiðju á litlum stað norðanlands. Slíkum fyrirbærum fer nú ört fækkandi á Íslandi enda finnast þær ekki lengur í kauphöllum né á hlutabréfamörkuðum og því nánast hlægilegt að nefna þær í sömu andrá og símafyrirtæki. Á tæplega sjö árum hef ég tvívegis þurft að tilkynna fólki um tímabundnar lokanir. Í bæði skiptin var haldinn með þeim fundur, ástæður lokunar útskýrð og sagt hversu löng hún yrði í versta falli. Fólkið hélt óskertum daglaunum meðan á lokun stóð, sem síðan reyndist skemmri en áætlað var. Fólkið kunni betur að meta þetta en hagræðinguna ykkar. Þú gætir þér til fróðleiks skyggnst í opinber gögn og borið saman afkomutölur rækjuverksmiðja og símafyrirtækja.

Hér er komið að kjarna máls, en þú leiðréttir mig ef þér þykir ranghugmyndir stjórna orðum mínum. Mér virðist nefnilega sem starfsemi kauphallar og hlutabréfaviðskipti síðustu ára hafi haft fáeinar óæskilegar hliðarverkanir. Meðal annars þær að gamalt íslenskt gildi eins og orðheldni hafi vikið fyrir hugtakinu arðsemi. Er þetta til dæmis ekki að birtast í orðum sem fyrirtækið Já sagði við starfsmenn sína í ágúst og síðan í október?. Hvað skyldi hafa breytst svo skyndilega á þessum stutta tíma? Þú mættir að skaðlausu útskýra það betur. Með því að segja að þér finnist þetta ofsalega leiðinlegt hljómar þú frekar eins og unglingur á gelgjuskeiði en ábyrg ráðskona. Heldur er það létt í vasa fyrir þá sem þið eruð að svipta einu af því mikilvægasta sem líf flestra einstaklinga byggir á.

Það gæti því svo farið að við hinir sem fylgjumst með gerðum ykkar úr fjarlægð tökum okkar ákvarðanir hver og einn um að leiðir okkar eigi ekki saman. Verði sú raunin er hætt við að þessi óútskýrða ávörðun skili fyrirtækum ykkar viðlíka árangri og bræðra þeirra sem forðum báru birtuna í höfuðfötum sínum inn í gluggalaus híbýli. Þið gerðuð því rétt í að lesa vandlega nýlega forystugrein Fréttablaðsins og hlíta þeim ráðum sem ykkur eru þar af heilindum gefin.

Með vinsamlegum kveðjum,
Ólafur Bjarni Halldórsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi