Grein

Guðrún Anna Finnbogadóttir.
Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Guðrún Anna Finnbogadóttir | 25.10.2005 | 09:12Takk fyrir frábæran dag

Kæru konur! Takk fyrir frábæran dag í gær, kvennafrídaginn, sem sýndi sannanlega hversu kröftugar konur eru og hversu sterkar þær geta verið ef þær standa saman. Við erum þó alltaf að glíma við hin ýmsu öfl í umhverfinu sem enn telja að laun séu eitthvað sem konur þurfi lítið af. Þeir sem hafa farið hvað verst út úr þeirri glímu á undanförnum árum eru starfsmenn bæjarins en Ísafjarðarbær hefur rekið hér sérstaklega metnaðarfulla láglaunastefnu.

Fólk með sérfræðimenntun sem hefur kosið að starfa fyrir bæjarfélagið hefur verið skikkað í FOS-Vest á undur lágum launum og neitað um að fara í sitt stéttarfélag þar sem laun þar eru mun hærri. Sumir hafa þó getað varið sig í skjóli mannréttindalaga um félagafrelsi eins og slökkviliðsmenn. Opinberlega eru yfirmenn bæjarins stolltir af því að hafa leikskólakennara í lágmarki því með því móti er hægt að reka mun ódýrari leikskóla auk þess sem grunnskólinn er sá ódýrasti á Íslandi.

Á síðasta ári kom fram að ófaglært fólk á leikskólum Ísafjarðarbæjar hefur lægstu laun á Íslandi. Þegar þessi umræða hefur komið upp hafa ávalt komið samantektargreinar frá forsvarsmönnum bæjarins um það að einhversstaðar á byggðu bóli séu launin aðeins lægri og því ekki ástæða til annars en að kætast yfir sínum hag.

Þegar Ingibjörg María Guðmundsdóttir einn af yfirmönnum helstu láglaunastétta bæjarins flutti síðan stutt erindi frá eigin brjósti eftir að hafa flutt okkur fallega kveðju frá móður sinni hnaut ég sannanlega um það sem hún hafði fram að færa. Það var eitthvað á þessa leið: Konur hafa þau laun sem þær telja sig eiga skilið og það eina sem þær þurfa að gera að biðja um hærri laun. Launastaða kvenna er þeim sjálfum að kenna.

Ég fagna mjög þessari skoðun Ingibjargar Maríu því ég fæ ekki annað séð en að hennar fólk hafi gleymt að koma á hennar fund og óska eftir hærri launum. Ég hvet ykkur allar sem vinnið undir hennar stjórn að fara á hennar fund og ræða ykkar kjör þar sem jarðvegurinn er frjór til umræðu um bætt kjör kvenna. Ef árangurinn verður ekki í samræmi við væntingar ykkar hvet ég Ingibjörgu Maríu til að halda námskeið fyrir ykkur um það hvernig best er að bera sig að við yfirmenn til að fá þá launahækkun sem þið eigið skilið. Síðan getið þið farið aftur á hennar fund með rétt viðhorf og rétta framkomu og árangurinn lætur ekki á sér standa ef að vonum lætur.

Þó svo að reksturinn bæjarins sé þungur tel ég það ekki nægilega ástæðu til að við vermum botnsætið á landsvísu þegar kemur að launum þeirra sem hugsa um börnin okkar og gamla fólkið.

Guðrún Anna Finnbogadóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi