Grein

Matthildur Helgadóttir.
Matthildur Helgadóttir.

Matthildur Helgadóttir | 21.10.2005 | 16:2424 ástæður fyrir því að ég ætla að ganga út kl. 14:08 þann 24

Mánudaginn 24. október n.k. eru liðin 30 ár frá því að íslenskar konur fengu sig fullsaddar á misréttinu og gengu út. Vissulega hefur margt áunnist síðan þá en staðreyndirnar tala sínum máli. Enn sitja konur ekki við sama borð og karlmenn, hvort sem litið er á völd eða peninga. Sú staðreynd að konur hér á landi þéna einungis 64,15% af tekjum karlmanna er nöturleg. Það er móðgun við allar konur að halda því fram að þessi munur skýrist af mismunandi störfum og vinnutíma. Ég spyr á móti, er það lögmál að konur vinna styttri vinnutíma, að kvennastörf eru lægra metin og konur fá ekki sama frama í stjórnmálum. Þetta er þjóðfélgasmein sem okkur öllum ber að uppræta. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á því að sniðganga konur. Ég hvet allar konur til að ganga út klukkan 14:08 á mánudaginn til að sýna karlmönnum og hver annari að okkur er alvara, við bíðum ekki lengur.

1. Konur á Íslandi hafa einungis 64,15% af tekjum karla.
2. Einungis þriðjungur alþingismanna er konur.
3. Örfáar konur eru í stjórnum fjármálafyrirtækja á Íslandi.
4. Mæður bera almennt meiri ábyrgð á börnum og heimilishaldi en feður.
5. Konur fá síður stjórnunarstöður en karlar.
6. Ég geng út fyrir hönd þeirra kvenna sem ekki þora eða geta barist fyrir rétti sínum.
7. Það að konur fá oftast forræði yfir börnunum við skilnað sendir körlum röng skilaboð.
8. Umgengnisréttur feðra er ekki alltaf virtur á Íslandi í dag og sumir feður virða hann ekki.
9. Heimilisofbeldi viðgengst enn í dag.
10. Ef kona stjórnar af röggsemi er hún sögð frek.
11. Ef karl stjórnar af röggsemi er hann sagður ákveðinn
12. Vændi, sem aukavinna, er löglegt á Íslandi í dag.
13. Örfáar konur eru forstjórar stórfyrirtækum á Íslandi í dag.
14. Krafa samfélagsins um að konur skuli vera sætar og mjóar getur valdið lífshættulegri átröskun.
15. Umönnunar- og kennslustörf eru illa metin til fjár.
16. Konur fá verri starfslokasamninga en karlar
17. Margar fyrirmyndir barna okkar úr sjónvarpi vinna gegn jafnrétti.
18. Íslenska þjóðkirkjan fræðir okkur um Guð sem karl en ekki sem konu.
19. Konur í dag virðast sumar ekki meta sig til eins hárra launa og karlmenn.
20. Sumir halda að slagsíðan verði ekki leiðrétt án þess að beita karlmenn misrétti.
21. Kona hefur aldrei verðið forsætisráðherra á Íslandi.
22. Konur af erlendum uppruna verða fyrir misrétti á Íslandi í dag.
23. Sumir halda að misréttið sé alfarið konum sjálfum að kenna.
24. Ég treysti mér ekki til að bíða eftir því að þetta lagist af sjálfu sér.

Áfram stelpur! Mömmur, ömmur, dætur, frænkur og vinkonur. Sjáumst á mánudaginn!

Matthildur Helgadóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi