Grein

Guðmundur Karl Jónsson | 19.10.2005 | 08:26Atkvæðakaup fyrir 16 milljarða

Hrós mitt fær Kristinn H Gunnarsson þingmaður sem einn þorði að berjast fyrir því að ráðist yrði í stutt jarðgöng til að afskrifa dauðagildruna milli Hnífsdals og Bolungarvíkur áður en tími Héðinsfjarðarganga kemur. Ég óska heimamönnum í fjórðungnum til hamingju með þessa ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur nú tekið. Hér kemur ekkert annað til greina en að þessi jarðgöng verði 4 km löng, ekkert minna. Afskrifum allar hugmyndir um styttri göng.

Á næstu árum sjá menn fram á að jarðgangagerð muni aukast í landinu miðað við þá tækniþekkingu sem fyrir hendi er. Virkjunarframkvæmdir á Austfjörðum vekja spurningar um hvort það sé nú tímabært að kanna möguleika á heilborun vegganga til að losna við fjallvegi á snjóþungum þröskuldum í 500 til 600 m.y.s. Hálkan á þessum vegum í 15% til 20% halla þrefaldar slysahættuna. Nógu mikil er hún af sjóflutningunum sem ekki eiga heima á þjóðvegunum. Allar sveitarstjórnirnar á Suðvesturhorninu, fyrir norðan og víðar nema á Siglufirði og Ólafsfirði kalla Héðinsfjarðargöng dýrasta mútumál Íslandssögunnar. Ekki þorir Vegagerðin að gagnrýna þessa ákvörðun Alþingis sem margir landsbyggðarþingmenn sjá nú eftir, á þeim forsendum að þá fari allt í háaloft. Kýs hún frekar að þegja við allri gagnrýni. Og er það lán hennar nema í hljóði til næsta manns. Þeir sem ferðinni ráða snúa öllum rökum á hvolf og færast undan í flæmingi þegar spurt er hvort þetta séu atkvæðakaup fyrir 16 milljarða kr sem vöktu falskar vonir Siglfirðinga og Ólafsfirðinga. Verra er að landleysi háir atvinnuuppbyggingu á Siglufirði. Atvinnutækifæri í þessum litlu sjávarplássum eru engin umfram það sem aðrir staðir hafa. Lítið sem ekkert er hægt að byggja á Siglufirði. Fljótamegin er nóg land.

Með þessari röð framkvæmda sem siðblindir og fáfróðir landsbyggðarþingmenn blekktu Alþingi til að samþykkja á fölskum forsendum er íbúum landsbyggðarinnar í heild storkað. Hér verður um hina óþörfustu hermdargjöf frá Alþingi að ræða. Stigið er stórt skref aftur á bak með því að taka Héðinsfjarðargöng á undan Dýrafjarðargöngum sem frekar eiga heima í fyrsta áfanga með Austfjarðagöngum. Að vel athuguðu máli eru veggöng um Héðinsfjörð ótímabær og vitlaus hönnun sem enn fleiri landsbyggðarþingmenn munu brátt iðrast án þess að hafa kannað áður hvort samgöngubætur hér í fjórðungnum og á hringveginum hefðu átt að ganga fyrir. Þeir fáu Alþingismenn sem þora að svara telja Héðinsfjarðarleiðina mikið dýrari en Fljótaleiðina og eru barðir til hlýðni. Það veit Vegagerðin húsbóndaholl og hrædd.

Um afstöðu til þessara framkvæmda hef ég marga spurt sem snúist hafa gegn þeim, nema örfáir Siglfirðingar og Ólafsfirðingar. Telja þeir það svo mikið verk að styttri göngum liggi meira á. Fyrir vestan eru það Dýrafjarðargöng og önnur tvenn jarðgöng úr Dynjandisvogi og Norðdal í Trostansfirði sem kæmu inn í Geirþjófsfjörð og gætu strax tengt Vesturbyggð við Ísafjarðarsvæðið. Til að stóra Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði geti líka þjónað íbúum Barðastrandar þarf veggöng undir Breiðafell og Tröllaháls. Á veginum í Mjólkárhlíð geta menn ekki útilokað að grjóthrun, snjóflóð og aurskriður eigi líka eftir að skapa vandræði. Eftir það sem skeð hefur á veginum í Óshlíð, á Siglufjarðarvegi vestan Strákaganga og á Suðurfjörðum Austurlands þarf ríkisstjórnin að standa frammi fyrir því vandamáli hvort styttri veggöng hér í fjórðungnum, fyrir norðan og austan verði að ganga fyrir áður en Héðinsfjarðargöng fara í nýtt útboð í janúar n.k.

Allar sveitarstjórnirnar í fjórðungnum og allir þingmenn Vestfirðinga eiga að berjast fyrir því að gerð verði um 1 km löng veggöng undir Meðalnesfjall sem yrðu frekar ódýr. Án þeirra losna menn aldrei við slysahættuna á veginum í Mjólkárhlíð. Öll rök mæla nú með því að þessi veggöng verði að ákveða áður en óhöpp á þessum hættulega vegi kosta alltof mörg mannslíf. Heimamenn í fjórðungnum eiga það inni að sveitarstjórnirnar og allir þingmenn Vestfirðinga fylgi þessu máli eftir í samgöngunefnd Alþingis. Nú verður ríkisstjórnin að grípa inn í og taka þetta mál úr höndum samgönguráðherra líkt og Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra gerði fyrir tæpum þremur árum þegar hann tilkynnti öllum að óvörum þá ákvörðun stjórnvalda að ráðast í önnur jarðgöng á Austurlandi undir Almannaskarð samhliða Fáskrúðsfjarðargöngunum á undan Héðinsfjarðargöngunum.

Óþolandi er að samgöngur á svæðinu milli Vesturbyggðar og Reykhóla skuli vera í miklum ólestri án þess að lögð sé áhersla á stutt jarðgöng úr Skápadal eða undir Kleifaheiði og Klettsháls. Á þessari leið verður líka að stytta vegalengdina milli á milli fjarðanna. Óverjandi er að lögreglan á Patreksfirði sem þjónar Reykhólum fari um svona stórt svæði 400 km báðar leiðir. Á vetrum er þetta útilokað þegar erfitt er að treysta veðurspánum. Þetta vandamál verður ríkisstjórnin að leysa hið fyrsta. Í gildi eru reglur um úthlutun fjármuna til jarðgangagerðar sem verður að breyta þótt samgönguráðherra setji hnefann í borðið. Úthlutunin þarf að vera þannig að hún gagnist öllum. Með því móti yrði hún sanngjarnari heldur en hún er í dag. Eitt dæmi um ranga útdeilingu fjármuna eru fyrirhuguð Héðinsfjarðargöng sem siðblindir og fáfróðir landsbyggðarþingmenn blekktu Alþingi til að ákveða á röngum forsendum.

Í úthlutun fjármuna til samgöngubóta er heimamönnum í fjórðungnum, fyrir norðan og austan í Fjarðarbyggð og á Suðurfjörðum Austurlands mismunað miðað við þá upphæð sem mokað verður í Héðinsfjarðargöng án þess að þau gagnist fjarlægari byggðum. Borin eru á borð þau falsrök að íslenska ríkið geti aldrei fjármagnað jarðgöng fyrir heimamenn í þessum þremur landshlutum með þeim rökum að þeir búi við enn betri heilsárssamgöngur heldur en Siglfirðingar og Ólafsfirðingar. Þessi rökleysa er hnefahögg í andlit heimamanna hér í fjórðungnum, fyrir norðan og austan. Sú aðferðafræði sem notuð er við skiptingu fjármuna til samgöngubóta elur á óþarfa togstreitu milli Siglfirðinga, Ólafsfirðinga og meirihluta Norðlendinga. Hótanir samgönguráðherra um 6 til 10 ára stöðnun samgangna nema við Siglufjörð og Ólafsfjörð, og aðra 50 ára stöðnun vegna Vestfjarða, Mið-Austurlands og Suðurfjarðanna taka nú sinn toll, og síðan hvað? Þessi tóma vitleysa mun hrekja þjóðina til uppreisnar gegn þessum fjáraustri í Héðinsfjarðargöng sem meirihluti Norðlendinga vill afskrifa. Lítilmenni sem fær mikið vald fyllist hroka.

Guðmundur Karl Jónsson farandverkamaður


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi