Grein

Kristín Hálfdánsdóttir.
Kristín Hálfdánsdóttir.

Kristín Hálfdánsdóttir | 14.10.2005 | 14:27Athugasemd við fréttaflutning bb.is

Þegar ákveðið var að halda styrktartónleika fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon 27.ágúst s.l.var farið þess á leit við mig að taka að mér að verða fjárhaldsmaður tónleikanna. Þetta var mér bæði ljúft og skylt og gerði ég það með glöðum huga. Í dag brá mér heldur betur í brún þegar ég sá í blaðagrein í Bæjarins Besta með yfirskriftinni „styrktarfé vegna góðgerðartónleika ekki enn verið reitt af hendi“. Ég hringdi alveg miður mín strax í ábyrgðarmann blaðsins og lýsti furðu minni á þessari frétt og spurði hvað þeim gengi til, en hafði ekki erindi sem erfiði og eftir stendur fréttin full af dylgjum og gæti fólk sem ekki þekkir til haldið að ég hafi eitthvað misjafnt í pokahorninu.

Til að upplýsa þetta mál þá stofnaði ég bók í Íslandsbanka þegar tónleikarnir voru ákveðnir og ástæðan fyrir því að ekki er búið að afhenda innistæðuna er sú, að ég bíð eftir að fá einn reikning í hendurnar til að geta greitt hann og einn styrkur hefur enn ekki skilað sér en gerir það vafalaust á næstu dögum. Fólk hlýtur að geta séð það að ómögulegt er að afhenda Sigurvon afraksturinn fyrr en öll kurl eru komin til grafar.

Það að birta svona grein og ekki sé talað um að búið var að upplýsa ritstjórann um málið er í hæsta máta furðulegt og er sannarlega ekki gert af góðum huga. Eitt er víst að þeim sem komu að þessum greinarskrifum er ekki annt um sannleikann og hljóta að liggja annarlegar kenndir að baki.

Formaður Sigurvonar hringdi í mig alveg forviða yfir þessum skrifum og tók þau jafn nærri sér og ég, enda vitnað í hann og höfð eftir honum orð sem hann aldrei sagði.

Það sem þessi grein hefur líka áorkað er að sá tortryggni hjá styrktaraðilum tónleikanna, ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja þá til að hafa samband við mig og get ég útskýrt þetta mál á allan hátt,þarf ekki nema að senda þeim afrit af bankabókinni í Íslandsbanka máli mínu til staðfestingar.

Eftir stendur, hverjum er verið að skemmta með svona skrifum? Ég hélt satt að segja að BB væri á hærra plani en þetta, það setur sannarlega niður.

Virðingarfyllst,
Kristín Hálfdánsdóttir.Svar ritstjóra bb.is

Í skrifum Kristínar Hálfdánsdóttur hér að ofan koma fram alvarlegar ásakanir á hendur blaðamönnum og ritstjóra bb.is sem ekki er hægt að láta ósvarað.

Hvergi í fréttinni er að finna dylgjur af nokkru tagi og er hvergi gefið í skyn að það ágæta fólk sem stóð að tónleikahaldinu hafi eitthvað misjafnt í pokahorninu. Allt það sem í fréttinni stendur er satt og rétt.

Undirritaður er eflaust ekki einn um það að þykja styrktartónleikarnir lofsvert framtak. Aftur á móti hefur það vakið mikla athygli hversu langan tíma hefur tekið að afhenda styrktarféð. Án efa eru eðlilegar ástæður að baki, en þær ástæður fengust ekki uppgefnar.

Það var ekki búið að ræða við ritstjóra bb.is um ástæður þess að féð hafði ekki borist áður en fréttin birtist. Þvert á móti hafði blaðamaður ítrekað reynt að komast að því hvers vegna féð hafði ekki verið afhent, en ekki haft árangur sem erfiði. Kristín hafði samband við undirritaðan í gær, stuttu eftir að fréttin birtist, en fór ekki fram á það að hún yrði tekin út. Farið var fram á að útlistun á samskiptum blaðamanns og tónleikahaldara yrði fjarlægð og var orðið við þeirri beiðni.

Öllum þeim sem standa að útgáfu bb.is og Bæjarins besta er annt um sannleikann. Engar annarlegar kenndir lágu að baki þessum skrifum eins og Kristin segir í bréfi sínu.

Í fréttinni er rætt við Sigurð Ólafsson, formann Sigurvonar, og haft eftir honum að féð hefði ekki borist félaginu. Þetta sagði Sigurður við blaðamann á miðvikudag, að vísu ekki þann sama og skrifaði greinina. Það er fullkomlega eðilegt að fleiri en einn blaðamaður vinni að sömu frétt.

Ef fréttin hefur vakið tortryggni hjá styrktaraðilum er það miður, en varla er við blaðið að sakast þar sem ítrekað var reynt að komast að hinu rétta í málinu. Hvaða plani sem bb.is og Bæjarins besta eru á, hefur miðlana ekki sett niður við þessi skrif.

Virðingafyllst,
Sigurjón J. Sigurðsson.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi