Grein

Jóhann Elíasson | 11.10.2005 | 08:41Sýnum nú staðfestu og leyfum hvalveiðar

Nú eru nýlega afstaðnar hrókeringar í ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins, í tilefni þess að Davíð Oddsson er „hættur“ afskiptum af pólitík, ekki dugði minna en að tveir menn væru settir í ný ráðuneyti og sá þriðji kom nýr inn í ríkisstjórnina. Ekki er við annað komið en að óska Vestfirðingum til hamingju með hinn nýja sjávarútvegsráðherra og víst er að ég og margir aðrir binda miklar vonir við störf hans. Einar Kristinn Guðfinnsson er þekktur fyrir það að berjast vel fyrir sitt kjördæmi og þykir hann staðfastur og ekki fer hann af stað með mál sem hann hefur ekki kynnt sér til hlítar, bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar þess, þar af leiðandi hefur skipan hans sem sjávarútvegsráðherra mikinn stuðning og held ég að ég geti fullyrt að sá stuðningur nær langt útfyrir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.

Margir hafa komið að máli við mig og sagt að „loksins“ sé kominn maður í sjávarútvegsráðuneytið sem hafi „kjark“ til að leyfa hvalveiðar á ný og geti fært fyrir þeirri ákvörðun sinni rök sem ganga bæði fyrir svokallaða náttúruverndarsinna og fyrir aðra sem hafa barist á móti hvalveiðum án þess að bera fyrir sig nokkur rök, sem halda að neinu gagni.

Það er eins og að spila gamla plötu að gera það eina ferðina enn að fara að tala um hvað hvalaskoðanir eru að skila okkur fáránlega litlu í þjóðarbúið og það gríðarlega mikla fjármagn sem þjóðin er búin að tapa á þessu hvalveiðibanni, sem nú er búið að standa í rétt um 20 ár. Þessu til staðfestingar skulum við skoða tölur frá árinu 2004: Samkvæmt tölum frá Ferðamálaráði og frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands voru tekjur af hvalaskoðunum 1.900.000.000. Enginn ágreiningur er um þessa tölu (ekki svo mér sé kunnugt um) en hins vegar segja heimildir Ferðamálaráðs að farþegar í hvalaskoðunarferðir hafi verið 72.200 en Hvalaskoðunarsamtök Íslands segja fjölda farþega hafa verið rúmlega 81.000 (hvernig á þessum mismuni stendur veit ég ekki). Samkvæmt tölunum frá Ferðamálaráði hefur hver farþegi í hvalaskoðunum skilið eftir tekjur til þjóðfélagsins sem nema 26.316 Íkr., en samkvæmt Hvalaskoðunarsamtökum Íslands hafa tekjurnar af hverjum farþega verið 23.457 Íkr. Til þess að taka af allan vafa þá er þarna um heildartekjur að ræða þ.e.a.s eftir er að taka þarna af fargjald til hvalaskoðunarbátanna, sem var, árið 2004 að meðaltali, 3.700 Íkr. fyrir fullorðna og 1.600 Íkr. fyrir börn. Þá er að reikna út heildartekjur hvalaskoðunarfyrirtækjanna og verður byrjað á því að styðjast við fjölda farþega skv. Ferðamálaráði, einnig verð ég að gefa mér forsendur, en mér þykir ekki fjarri lagi að áætla að 60% farþega hafi greitt fullorðinsgjald og þá 40% þeirra hafi greitt barnagjald.

Miðað við 72.200 farþega voru tekjurnar sem hér segir:

160.284.000 fyrir fullorðinsgjaldið
46.208.000 fyrir barnagjaldið
206.492.000 Var þá heildarveltan skv. Ferðamálaráði.

En miðað við 81.000 farþega voru tekjurnar sem Hvalaskoðunarsamtök Íslands gefa upp:
179.820.000 fyrir fullorðinsgjaldið
51.840.000 fyrir barnagjaldið
231.660.000 Var þá heildarveltan skv. Hvalaskoðunarsamtökum Íslands.

Svo getur fólk velt því fyrir sér hvort líklegt sé að þessar tekjur geti staðið undir öllum þeim kostnaði sem til féll, hvor talan sem tekin er gild. Í það minnsta þykir mér ekki fara mikið fyrir þessum “blómlega” atvinnuvegi , sem hvalaskoðunarmenn eru alltaf að tala um. Og til þess að bæta gráu ofan á svart héldu hvalaskoðunarmenn því fram að gjald sem höfnin í Reykjavík ætlað að leggja á, myndi ríða þessari atvinnugrein að fullu en gjaldið nam 100 ÍKR á hvern farþega, ekki er hægt að sjá að þessi atvinnugrein standi vel ef tekið er mið af þessu, en hætt var við þessa gjaldtöku til þess að koma atvinnugreininni til bjargar. Ef þessar tölur eru skoðaðar læðist að manni það að hvalaskoðunarmenn ættu að snúa sér að einhverju öðru sem gæti kannski skilað einhverjum arði, kannski ættu þeir að leggja stund á hvalveiðar, þegar þær verða leyfðar?

Ég get ekki annað en vonað að nýr sjávarútvegsráðherra standi nú undir væntingum og leyfi hvalveiðar á ný þrátt fyrir að við Íslendingar skyldum sýna þann ótrúlega undirlægjuhátt að mótmæla ekki hvalveiðibanninu á sínum tíma.

Jóhann Elíasson fyrrverandi stýrimaður


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi