Grein

Ólína Þorvarðardóttir | 07.10.2005 | 15:41„Margur heldur mig sig“ – Yfirlýsingu Félags framhalsskólakennara svarað

Á vefsíðu bb.is, sem og heimasíðu KÍ hefur verið birt yfirlýsing frá stjórn Félags framhaldsskólakennara um málefni Ingibjargar Ingadóttur, kennara við Menntaskólann á Ísafirði. Yfirlýsingin, sem undirrituð er af Aðalheiði Steingrímsdóttur formanni FF, er í reynd ákæruskjal gegn undirritaðri, í átta liðum. Ákæruskjalið sem fullyrt er að feli í sér „hið rétta“ í málinu er ein samfelld ærumeiðing gegn opinberum embættismanni þar sem staðreyndum er snúið á hvolf og áróðursbrögðum, hálfsannleika og hreinum ósannindum er blygðunarlaust beitt – í þeim eina tilgangi, að því er virðist, að meiða og hafa æruna af skólameistara Menntaskólans á Ísafirði – þeim hinum sama og hér heldur á penna. Svo mjög er þar hallað réttu máli, að ekki verður lengur orða bundist.

Átylla þeirra svívirðinga sem nú eru settar fram í nafni félagsins, enn eina ferðina, er frétt sem birtist á fréttavefnum bb.is þann 28. september. Um tilurð og heimildir fyrir þeirri umfjöllun vísa ég til yfirlýsingar blaðamannsins sjálfs sem birtist á sama vettvangi 6. október undir fyrirsögninni Af meintum heimildarmönnum.

Mannfórnin

Undanfarna níu mánuði hefur Félag framhaldsskólakennara með formann sinn í broddi fylkingar staðið fyrir „ofstopafullum atlögum“ að undirritaðri, svo notast sé við orðbragð sem formaður FF hefur sjálfur viðhaft í málflutningi sínum. Framganga Aðalheiðar Steingrímsdóttur hefur verið víðsfjarri „meðalhófi“ því sem lagt er til í stjórnsýslulögum og síendurteknar ásakanir hennar og lögmanns félagsins um „einelti“ og „ofsóknir“ skólameistara á hendur umræddum kennara hafa glumið um eyru og skorið í augu þeirra sem séð hafa og heyrt þá makalausu aðför.

Málstaðurinn virðist löngu gleymdur, fagleg sjónarmið og málefnaleg rök eru víðsfjarri. Kennari við skólann, sem ekki þoldi að gerðar væru athugasemdir við störf hans, er nú nafnþekktur um allt land fyrir eigið tilstilli og Félags framhaldsskólakennara. Ef marka má nýlegar blaðafregnir um heilsufar kennarans er hann líklega þrotinn að kröftum eftir að hafa verið borinn á spjótsoddum eigin stéttarfélags, í einkennilegri hagsmunabaráttu sem virðist snúast um eitthvað allt annað en faglegt skólastarf eða markmið framhaldsskólalaga. Í þeim ófriði hefur undirrituð verið tjörguð á torgum úti sem óvinurinn og um leið vítið sem félagið stillir upp öðrum skólameisturum til viðvörunar. Kennaranum, skjólstæðingi félagsins, hefur hinsvegar verið fórnað, enda vandséð að hann muni bera sitt barr eftir það sem á undan er gengið.

Ragnfærsluflóð

Átakanlegt er að sjá þá metnaðarlausu sýn sem forysta Félags framhaldsskólakennara virðist hafa á hinn faglega þátt málsins og birtist í 6. grein yfirlýsingarinnar með svofelldum orðum: „Félagið bendir á að prófagerð og prófayfirferð er ekki alfullkomin fremur en önnur mannanna verk.“ Ég vil að minnsta kosti halda því fram að við Menntaskólann á Ísafirði sé stefnt að háleitari markmiðum en þarna koma fram. Sömuleiðis mótmæli ég þeim orðum yfirlýsingarinnar að „könnun á yfirferð prófa í öðrum kennslugreinum við MÍ hefði að öllum líkindum gefið keimlíkar niðurstöður“ og hér eru til umræðu. Segi þó ekki meira um það mál að sinni.

Sný ég mér þá að ellefu rangfærslum sem koma fram í ákæruatriðunum átta sem sett hafa verið fram á heimasíðu KÍ.

1. Rangfærsla: „Engar efasemdir“ um upphaflega yfirferð

Því er haldið fram í yfirlýsingu FF að undirrituð hafi tekið yfirferð Ingibjargar á enskuprófum til endurskoðunar í desember 2004 „án þess að nokkur ágreiningur eða efasemdir um hana hefðu borist skólameistara“. Þetta er rangt og stjórn FF á að vita betur. Tilefni umræddrar endurskoðunar var að ritari skólans tók eftir óeðlilegri einkunnadreifingu þegar verið var að færa einkunnir inn í tölvukerfi skólans. Enginn nemandi var með einkunn undir 8,0 en allflestir með einkunnina 9,0. Ritari vakti athygli námsráðgjafa á einkunnadreifingunni og niðurstaða þeirra var sú að vekja athygli skólameistara á þessu.

2. Rangfærsla: „Meintir ágallar“ tilefni áminningar

Gefið er í skyn að umræddir ágallar á yfirferð prófanna hafi samstundis orðið tilefni áminningar. Þetta er rangt og stjórn FF á að vita betur. Prófin voru send óháðum umsagnaraðila sem staðfesti þær athugasemdir sem skólastjórnendur höfðu gert við vinnubrögð kennarans áður en kom til áminningar. Áminningin sjálf átti sér langan aðdraganda samskipta þar sem allt var gert til þess að leiða kennarann út úr þeim ógöngum sem hann – að undirlagi síns eigin stéttarfélags að því er virðist – var kominn í. Reynt var að ræða vinsamlega og persónulega við kennarann um málið, en án árangurs. Kennarinn neitaði að ræða málið við stjórnendur og knúði sjálfur fram hinn formlega farveg málsins. Andmælaréttur kennarans var á öllum stigum málsins virtur, sömuleiðis rannsóknarregla stjórnsýslulaga og meðalhófs gætt.

3. Rangfærsla: Sáttatillagan og túlkun hennar

Því er haldið fram að sáttatillaga sú sem samþykkt var í Héraðsdómi Vestfjarða í byrjun maí hafi falið í sér að Ingibjörg ítrekaði þau orð sín „að ef henni hafi að einhverju leyti orðið á í starfi bæðist hún afsökunar á því“. Þetta er rangt og stjórn FF veit betur. Það orðalag sem vitnað er til kemur hvergi fram í dómsáttinni. Þar segir orðrétt:

„Stefnandi, Ingibjörg Ingadóttir ítrekar afsökunarbeiðni sína sem fram kom á fundi um miðjan desember 2004. Stefndi ... samþykkir því að fella úr gildi áminningu 11. janúar 2005 að fenginni þessari yfirlýsingu stefnanda.“

Vert er að taka fram að Ingibjörgu hafði þrívegis verið boðið að leysa málið friðsamlega og sættast áður en kom til málshöfðunar, en að áeggjan eigin stéttarfélags hélt hún málsókn sinni til streitu. Fram kom við réttarhaldið að skólameistari teldi það grundvallaratriði að kennarinn gerði sér ljóst að vinnubrögðin væru ekki ásættanleg. Dómsáttin byggði því á sáttavilja skólameistara og fyrirheiti starfsmannsins um yfirbót, en ekki því að skort hafi tilefni áminningar. Það, að Ingibjörg hafi „aldrei viðurkennt neitt brot í starfi og aldrei beðist afsökunar á slíku broti“, eins og nú er haldið fram, eru ný og alvarleg tíðindi sem stangast fullkomlega á við forsendur dómsáttarinnar.

4. Rangfærsla: Tilgangur áminningar

Formaður FF heldur því fram að hafi opinber starfsmaður raunverulega unnið til áminningar vegna frammistöðu í starfi sé augljóst að hann geti ekki afstýrt áminningu með því að biðjast afsökunar. Hér er vert að minna formanninn á ákvæði stjórnsýslulaga um tilefni og tilgang áminningar.

Í 21. gr. laganna segir um tilefnið: „Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi ... skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.“

Í 44. gr. er forstöðumönnum ríkisstofnana ennfremur lögð sú skyld á herðar að veita starfsmanni áminningu hafi hann brotið gegn ákvæðum 21. gr. , en fyrst skal þó „gefa honum færi á að bæta ráð sitt...“

5. Rangfærsla: Að skólameistari hafi gerst prófdómari

Því er haldið fram að s.l. vor hafi verið gerð „atlaga“ að Ingibjörgu Ingadóttur þegar „skólameistari ákvað aftur að gerast prófdómari og endurmeta yfirferð Ingibjargar á prófúrlausnum í enskuáföngum hennar“ eins og það er orðað. Þetta er rangt og formaður FF veit betur.

Í júní s.l. var Ingibjörgu gerð grein fyrir því að við reglubundna athugun á prófskilum og yfirferð prófa hefðu komið í ljós hnökrar á vinnubrögðum sem gæfu tilefni til þess að prófin yrðu send til óháðs umsagnaraðila. Málalyktir urðu þær að prófin voru send mats- og eftirlitsdeild menntamálaráðuneytisins, niðurstaðan liggur nú fyrir eins og frægt er orðið og hefur þegar orðið FF tilefni mikils málflutnings á opinberum vettvangi.

6. Rangfærsla: Að málið sé óupplýst

Í beinu framhaldi af ofansögðu er rétt að benda á, að það var Félag framhaldsskólakennara, með formann sinn og lögfræðing í fararbroddi, sem brást ókvæða við þeirri fyrirætlan skólameistara að láta óháðan umsagnaraðila yfirfara enskuprófin s.l. vor. Upphóf FF nú mikið áróðursstríð til þess að hindra það að málið yrði „upplýst með fullnægjandi hætti“ þannig að prófin yrðu send hlutlausum prófdómara. Og nú voru ekki spöruð stóru orðin. Hrópað var á torgum um „ofstopafullar atlögur“ og „bolabrögð“ skólameistarans gegn kennurum skólans, „ágenga og ógnandi framkomu skólameistara“, rokið var til og safnað undirskriftum og starfsmenn hvattir til þess að skrifa ráðuneytinu „persónuleg bréf“ um öll þau ósköp sem á gengu. Þar með tók Félag framhaldsskólakennara Menntaskólann á Ísafirði í gíslingu, og í þeirri prísund er skólinn enn.

Það er því ankannalegt að sjá í yfirlýsingu félagsins tyftunarorð þess efnis að undirrituð hafi vanvirt ákvæði stjórnsýslulaga um að upplýsa mál til fulls áður en ákvörðun sé tekin. Það er svo sannarlega ekki ég sem hef staðið í vegi sannleikans í þessum málum með villandi upplýsingum, dylgjum, hálfsannleika, rangtúlkunum eða hreinum ósannindum. Nei. Formaður FF ætti að líta sér nær og minnast spakmælis frelsarans um þá sem sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin.

7. Rangfærsla: Ekkert reglulegt eftirlit með prófavinnu

Enn er seilst til alhæfinga þegar því er haldið fram að „hvorki Ingibjörg né aðrir kennarar skólans kannist við“ þá framkvæmd sem viðhöfð hefur verið á eftirliti með prófskilum og prófavinnu kennara við MÍ. Þetta er rangt. Ingibjörgu sjálfri er fullkunnugt um að sambærilegar athugasemdir hafa verið gerðar þegar einkunnadreifing hefur gefið tilefni til og/eða þegar prófum er ekki skilað inn til varðveislu. Margir kennarar skólans vita mætavel að próf hafa verið tekin til umræðu og skoðunar af stjórnendum skólans. Formaður FF fer þarna með fleipur sem verður helst skýrt með því að hann sé ekki í sambandi við nema afmarkaðan hóp kennara. Aðalheiður Steingrímsdóttir er þess ekki umkomin að fullyrða neitt um „ástandið“ í Menntaskólanum á Ísafirði yfirleitt – hún er ekki í sambandi við meirihluta kennarahópsins og kennarar innan skólans treysta henni ekki lengur fyrir upplýsingum.

8. Rangfærsla: Tilefni úttektarinnar

Því er ranglega haldið fram að undirrituð hafi ekki átt frumkvæði að þeirri úttekt sem menntamálaráðuneytið hefur falið Félagsvísindastofnun HÍ að gera á skólanum (ranglega nefnd stjórnsýsluúttekt í yfirlýsingu FF). Aðalheiði Steingrímsdóttur virðist mjög í nöp við þá staðreynd að ég skuli sjálf hafa óskað eftir úttektinni. Þannig er það nú samt.

Ósk mín um þessa úttekt kom vissulega í kjölfar þess sem stjórn FF kallar „fjölmargar stjórnsýslukvartanir“ en ég myndi frekar nefna órökstuddar dylgjur. Beiðnina bar ég fram við ráðuneytisstjóra til þess að einhver botn fengist í það hvað væri raunverulega á seyði, ekki síst varðandi afskipti Félags framhaldsskólakennara af málefnum skólans. Inngrip félagsins voru að mínu mati orðin bæði óeðlileg og bagaleg fyrir starfsfriðinn í skólanum og líðan starfsmanna, og því brýnt að skoða nánar þann þátt málsins ekki síður en ýmislegt annað sem draga megi lærdóm af.

Umrædd úttekt er liður í því að upplýsa ýmsa þætti málsins sem teknir hafa verið úr samhengi og fleygt með óábyrgum hætti inn í opinbera umræðu án þess að jafnræðis hafi verið gætt varðandi þau sjónarmið sem til álita koma. Í því írafári hef ég sem skólameistari átt mjög undir högg að sækja þar sem ég af trúnaðarástæðum hef hvorki getað né viljað tjá mig til fulls um ýmis efnisatriði málsins. Félag framhaldsskólakennara hefur því miður notfært sér þessa stöðu, vitandi sem er að skólameistari rýfur ekki trúnað við starfsmann sinn.

Hitt er svo annað mál að með ákvörðun um þessa úttekt var gert heiðursmannasamkomulag milli ráðuneytisins, skólameistara og forystu FF um að setja ágreiningsefni til hliðar og veita úttektaraðilanum svigrúm og frið til þess að vinna starf sitt. Félag framhaldsskólakennara hefur nú ítrekað rofið þau grið með því að finna sér síendurtekin fréttatilefni um málefni skólans – nú síðast undir yfirskyni vandlætingar vegna frétta af endurmati títtnefndra enskuprófa. Af margliða yfirlýsingu félagsins á heimasíðu KÍ er þó greinilegt að það tilefni er fyrirsláttur, tylliástæða til þess að geta haldið áfram áróðursstríði sínu.

9. Rangfærsla: Trúnaðarbresturinn

Þrátt fyrir það sem nú er sagt, er ekki hikað við að láta í það skína að undirrituð hafi rofið trúnað við starfsmanninn með því að miðla upplýsingum úr álitsgerð mats- og eftirlitsdeildar menntamálaráðuneytisins um enskupróf Ingibjargar frá því í vor. Það eru alvarlegar ávirðingar og ómaklegar. Þeim hefur þegar verið svarað af Halldóri Jónssyni blaðamanni á bb.is þann 6. október þar sem hann hreinsar þá sem nafngreindir hafa verið sem grunsamlegir „heimildarmenn“, mig þar á meðal. Blaðamaðurinn segir það hinsvegar umhugsunarefni „af hverju nú er reynt að gera hugsanlega heimildarmenn fréttar að aðalmáli ... sér í lagi vegna þess að þetta er fráleitt í fyrsta skipti sem trúnaðarupplýsingar í þessu máli hafa borist til fjölmiðla“ eins og hann bendir réttilega á.

Það gæti þó verið fróðlegt fyrir stjórn FF að vita að það var að minni ábendingu til ráðuneytisins sem trúnaðarskylda máls þessa var áréttuð við hlutaðeigandi þegar matsgerðin var kynnt málsaðilum. Matsgerðina átti einungis að nota í faglegum tilgangi innan skólans, og án þess að niðurstöður hennar yrðu oftúlkaðar. Það er því vægast sagt óviðeigandi þegar stjórn FF og „velunnarar“ kennarans eru að vitna í þessi viðkvæmu trúnaðarskjöl á opinberum vettvangi með ónákvæmum og hlutdrægum hætti, eins og gerst hefur.

10. Rangfærsla: Aðgerðirnar „gegn“ Ingibjörgu

Því er blygðunarlaust haldið fram að „aðgerðir skólameistarans gegn Ingibjörgu Ingadóttur“ hafi þann „tilgang einan að sýna öðrum starfsmönnum við hverju þeir megi búast ef þeir standa ekki og sitja eins og hann ætlast til“ eins og segir í yfirlýsingunni. Þessi órökstudda ávirðing ber vott um málefnafæð og er sett fram af hugaræsingi sem er illskiljanlegur hjá forystumönnum stéttarfélags sem að óreyndu mætti ætla að væri ábyrgur aðili. Ummælin eru varla svaraverð enda sýna þau glögglega það sem löngum hefur verið haft á orði að „margur heldur mig sig“.

11. Rangfærsla: „Eineltið“

Forysta Félags framhaldsskólakennara hefur ítrekað haldið því fram að Ingibjörg Ingadóttir hafi verið lögð í einelti innan skólans. Í yfirlýsingu félagsins er minnt á reglugerð sem Félagsmálaráðuneytið setti í desember 2004 um varnir gegn einelti á vinnustöðum. Athyglisvert er þó að ekki skuli vitnað beint í reglugerðina sjálfa, en þar segir m.a.

„Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna ...“

Hvers vegna stjórn FF kýs að líta framhjá þeirri skilgreiningu sem sett er fram í reglugerðinni um það hvað ekki getur talist einelti skal látið liggja milli hluta að sinni. En sé tekið mið af þeirri skilgreiningu sem 3. greinin setur fram á fyrirbærinu einelti, þá er það:

„Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.“

Hver er að ofsækja hvern?

Það er ekki lítil ásökun í því fólgin að væna opinberan embættismann um einelti í skilningi umræddrar reglugerðar. Engin haldbær rök hafa verið lögð fram þessu til stuðnings – enda eru engin slík rök til. Ég spyr hinsvegar, og vísa þá til þess sem ég hef rakið hér framar: Hver er það sem hefur aftur og aftur með ótilhlýðilegum hætti og á opinberum vettvangi ráðist á nafngreindan einstakling með orðbragði og ásökunum sem lítilsvirða, móðga, særa, mismuna, ógna og valda vanlíðan?

Ég skora á þá sem vilja komast til botns í þessu máli að fara nú eina ferð á netið, líta þar yfir gífuryrða- og ásakanaflauminn sem streymt hefur frá fulltrúum FF á síðum blaða og vefmiðla, skoða orðbragð, málflutning, rökstuðning (eða skort á honum) og aðra framgöngu þeirra sem hafa tjáð sig um málið og dæma svo: Hvorumegin er ofstopinn? Hvar liggur eineltið? Hver er að ofsækja hvern?


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi