Grein

Halldór Jónsson | 06.10.2005 | 16:54Af meintum heimildarmönnum

Frétt sem undirritaður skrifaði á bb.is þann 28. september um niðurstöður á endurmati menntamálaráðuneytisins á enskuprófum við Menntaskólann á Ísafirði hefur vakið nokkur viðbrögð, eins og eðlilegt má telja. Umræðan sem skapast hefur er að vísu ekki, nema að hluta til, um niðurstöður endurmatsins heldur þær heimildir er undirritaður hafði fyrir fréttinni. Hallgrímur Hróðmarsson kennari við Menntaskólann á Ísafirði ritar grein á bb.is sem síðar birtist í BB. Þar kýs hann að draga fram nöfn nokkurra þeirra er hann segir að hafi haft undir höndum niðurstöður endurmatsins. Það er umhugsunarefni hvers vegna Hallgrímur kýs að nafngreina aðeins örfáa þegar honum var ljóst, sem og mörgum öðrum, að nokkrum tugum manna var í upphafi treyst fyrir þessum upplýsingum um niðurstöður endurmatsins. Má þar nefna meðal annarra alla stjórn Félags framhaldsskólakennara, einn varastjórnarmann þess félags, starfsmenn menntamálaráðuneytisins, þá verktaka sem unnu að endurmatinu auk Hallgríms sjálfs ef marka má grein hans. Þar sem Hallgrímur kýs að nafngreina aðeins örfáa úr þeim stóra hópi, sem höfðu þessar upplýsingar undir höndum, tel ég mig knúinn til þess að upplýsa það hér og nú að enginn þeirra er Hallgrímur nefnir á nafn voru heimildarmenn mínir að fréttinni. Af hverju nú er reynt að gera hugsanlega heimildarmenn fréttar að aðalmáli, er umhugsunarefni, sér í lagi vegna þess að þetta er fráleitt í fyrsta skipti sem trúnaðarupplýsingar í þessu máli hafa borist til fjölmiðla. Það vakti hins vegar umhugsun undirritaðs, af hverju niðurstöður umrædds endurmats, sem að mínu mati voru orðnar á almanna vitorði, komust ekki fyrr til þeirra fjölmiðla er flutt hafa nákvæmar fréttir af málinu í gegnum tíðina.

Ásökunum Félags framhaldsskólakennara um að undirritaður hafi við ritun fréttarinnar gerst sekur um „ófagleg og óábyrg vinnubrögð“ er hér með vísað til föðurhúsanna enda hefur ekkert komið fram sem hrakið hefur efnisatriði fréttarinnar.

Halldór Jónsson


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi