Grein

Steinþór Bragason | 04.10.2005 | 10:15Óshlíðardrauginn burt

Undanfarið hafa samgöngubætur á Óshlíð verið í umræðunni og komið hefur fram tillaga um að gera ein til þrenn jarðgöng á Óshlíðinni. Ég vil benda þeim sem vilja sjá samgöngubætur á þessari hættulegu leið, á að jarðgöng þurfa ekki að fylgja strandlínunni á sama hátt og hefðbundin vegagerð. Ég vil benda fólki á aðra valkosti í sambandi við jarðgangnagerð milli Ísafjarðar og Bolungarvík, og jafnframt vara fólk við þeim vandamálum sem fylgja þeim skammtímareddingum sem röð af smágötum og vegskálum gegnum brimið á Óshlíðinni óhjákvæmilega er. Til þess að halda lífi í Bolungarvík sem vaxandi sjávarþorpi þarf þangað öruggar samgöngur alla leið, ekki einungis hluta af leiðinni. Sú tillaga að gera göng einungis hluta af leiðinni um Óshlíð verður að mínu mati til að veita Bolungarvík náðarhöggið og ég trúi því ekki að Bolvíkingar láti afgreiða sig með svo ómerkilegum hætti.

Tölur um fólksfækkun sýna að frá og með árinu 1983 fækkar Bolvíkingum um u.þ.b. 1,6% á ári. Þetta er mjög alvarlega þróun, því ef atvinnuvegirnir hafa ekki mannskap til að framkvæma atvinnuna þá leggst bæjarfélagið sjálfkrafa af. Eins þarf blómstrandi atvinnulíf til að halda fólki á staðnum. Óshlíðin á ekki að vera í því hlutverki að halda fólki á staðnum innilokuðu. Samkvæmt Bæjarins Besta finna til 35% vegfarenda sem fara um Óshlíð óöryggis. Það er ekki hægt að lokka til nýja íbúa ef þeir eru hræddir við vegina. Brottfluttir Bolvíkingar þurfa líka að sjá hag í því að flytja heim aftur og þá þarf einhver þróun að eiga sér stað.

Ef snúa á við blaðinu þarf að koma heildarlausn og það strax. Það þýðir ekkert að laga hluta vandamálsins. Ef skoðaðar eru vegaframkvæmdir seinustu 10 ára á Vestfjörðum hafa þær hvorki verið miklar né fjárfrekar miðað við framkvæmdir í öðrum landshlutum. Það var búið að skera niður fé til vegaframkvæmda, en öllum að óvörum var eitt af ríkisfyrirtækjunum selt og þá var hægt að deila smá broti af söluverðmæti þess á Vestfirðina, við heppin. Það er hrópandi óréttlæti að dæla fé í aðra landsfjórðunga og ætlast svo til þess að Vestfirðingar láti friða sig með svona molum. Vestfirðingar hafa ekki efni á að bíða í 20-30 ár eftir því að raunveruleg heildarlausn verði að raunveruleika. Þó Bolvíkingar fái núna eitt gat af þremur fyrirhuguðum þá verða of margir fluttir þaðan þegar hin tvö göngin verða gerð eftir óákveðinn tíma.

Ég skil ekki af hverju menn eru alltaf að halda í Óshlíðina. Af hverju má ekki skoða aðrar leiðir? Það kostar margra mánaða vinnu á ári að viðhalda veginum vegna landrofs og grjóthruns og oft skemmast farartæki. Hvað kostar þetta eiginlega? Ég er búinn að leita mikið, en kostnaður eingöngu vegna viðhalds á Óshlíð virðist hvergi liggja fyrir. Kostnaðurinn sem kominn er í Óshlíðina gæti líklega samsvarað tveimur jarðgöngum frá Bolungarvík. Er ekki kominn tími að skoða aðrar lausnir, það gæti verið hagkvæmara á allan hátt.

Til að vera ekki einungis sá sem gagnrýnir heldur einnig sá sem leggur til lausn á vandanum hef ég sett fimm mögulegar leiðir á blað til að opna umræðuna og dæmi nú hver eftir sínu höfði. Möguleikarnir eru: (1)viðhalda Óshlíðinni með þremur göngum. (2-3) Tvenn göng yfir í Hnífsdal, (4) ein göng yfir í Tungudal og (5) tenging með göngum við Suðureyrargöngin. Samkvæmt mínum niðurstöðum er hentugasta lausnin að fara frá Syðridal og suður í Tungudal (leið 4). Það styttir leiðina að flugvellinum og hringveginum um tæpa 3 km, og flytur umferðina frá Óshlíðinni og hættulegum sjóflóðahættusvæðum. Heildarkostnaðurinn er mun lægri en kostnaðurinn við Óshlíðardrauginn. Einnig tengir þessi leið byggðirnar mjög vel saman og jafnvel væri hægt að nýta göngin við flutning á öðru en fólki og farartækjum, t.d. gagnaflutninga.

Þegar litið er á samgönguáætlun fyrir árin 2003 til 2014 kemur fram að markmið stjórnvalda með samgöngum eftirfarandi: „Stefnt skal að auknum flytjanleika í samgöngukerfinu sem taki bæði til fólks og vöru. Þessu markmiði skal ná með bættu aðgengi að samgöngum og aukinni afkastagetu kerfisins þar sem hún er takmörkuð, einnig með því að skapa skilyrði fyrir flesta landsmenn að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu á innan við 3½ klst. ferðatíma”.”Stefnt skal að aukinni hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna. Þetta taki til samgöngumannvirkja, leiðsögukerfa og annarrar öryggisþjónustu svo og samgangna í kerfinu að svo miklu leyti sem ríkið kemur að þeim.“

Samkvæmt greinagerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur skal leggja megináherslu á að viðhalda vegi um Óshlíð með göngum eða ei. En er þetta eina leiðin sem kemur til greina? Samkvæmt frétt Bæjarins Besta 11.05.2005 kemur fram að mesti umferðarþunginn sé frá flugvellinum á Ísafirði til Bolungarvíkur. Um þessa leið fara 700-1000 farartæki að meðaltali á sólarhring. Ef við hins vegar skoðum nánar áðurnefnda skýrslu kemur þar fram að umferðaþunginn dregst mikið saman þegar snjór er kominn í hlíðar og hætta er á skriðuföllum.

Við útreikninga á vegalengdum set ég Bónus á Ísafirði sem viðmið þar sem margir leggja leið sína þangað. Þá skulu skoðaðar leiðirnar sem hægt er að fara frá Bolungarvík að Bónusi.
1. Bolungarvík – Bónus eftir Óshlíð. Heildarlengd gangna 1,2 km (skyndilausn), og 5,0 km heildarlausn (eftir óákveðin tíma). Samtals 16,9 km. (Viðmiðun)
2. Bolungarvík -Skarfasker göng (5,7 km). Lengd að Bónus Ísafirði samtals 16,3 km. (Stytting um 0,6 km)
3. Bolungarvík-Hnífsdalur, göng (2,3 km). Lengd að Bónus Ísafirði 21,1 km. (Lenging um 1,2 km)
4. Bolungarvík-Tungudalur, göng (5,3 km) lengd að Bónus Ísafirði samtals 14,4 km. (Stytting um 2,5 km)
5. Bolungarvík - göng Suðureyri, göng (5,15 km). Lengd að Bónus Ísafjörður 17,6 km. (Lenging um 0,7 km)

Kostir og gallar leiðanna

Leið 1. Göng samkvæmt núverandi tillögu.

Kostir:Kostirnir við þessa leið eru að vegfarendur losna við grjóthrun og sjóflóð þar sem göngin liggja um. Uppfyllingarefni fæst til að bæta landrof (2-3 ár). Ekki þarf að leggjast út í kostnað við vegaframkvæmdir á þessum litla kafla.

Gallar:Þessi leið leysir ekki allan vandann, því það eru ennþá eftir hættuleg svæði vegna snjóflóða, grjótskriða og ágangs sjávar. Það má ekki gleyma því að vegskálarnir og vegurinn um Óshlíð þarfnast mikils viðhalds vegna ágangs sjávar. Má þar t.d nefna svæði fyrir framan/innan krossinn og svæðin fyrir neðan vegskálana.

Svæðin milli gangnanna (þegar hin tvö verða komin) þurfa viðhald. Vegalengdin kemur ekki til með að styttast. Þeir sem óttast Óshlíðina þurfa ennþá að eiga leið um hana (takmarkar fólksflutning og vegumferð). Það verða ennþá sjóflóðahættusvæði á leiðinni út á flugvöll (Heimabær, Eyrarhlíð, Skutulsfjarðarbraut). Umferð liggur um framkvæmdasvæðið, sem eykur líkurnar á slysum og gerir framkvæmdina dýrari.

Kostnaður miðaður við þrjú göng og 6 gangnaskála er áætlaður 4,0 miljarðar, auk þess má áætla 100-200 milljónir á ári um ókomna tíð í að verja veginn ágangi sjávar.

Leið 2. Er að gera göng frá Skarfaskeri og koma út við Fremriós.

Kostir: Ekki þarf að leggja í kostnað við vegaframkvæmdir. Við þessa aðgerð losnar vegfarandinn alveg við Óshlíðina og þá farartálma sem henni fylgja. Vegalengdin styttist um 0,6 km.

Gallar: Það verða ennþá sjóflóðahættusvæði eftir á leiðinni út á flugvöll (Heimabær, Eyrarhlíð, Skutulsfjarðarbraut). Umferð liggur um framkvæmdasvæðið, sem eykur líkurnar á slysum og gerir framkvæmdina dýrari.

Kostnaður miðaður við ein göng og 2 gagnaskála er áætlaður 3,4 miljarðar.

Leið 3. Er að gera göng frá Syðridal til Hnífsdals.

Kostir: Við þessa aðgerð losnar vegfarandinn alveg við Óshlíðina og þá farartálma sem henni fylgja. Framkvæmdin er unnin í alfaraleið. Grjótmulningur úr jarðgöngunum dekkar hluta vegaframkvæmdanna.

Gallar: Það verða ennþá sjóflóðahættusvæði eftir á leiðinni út á flugvöll (Eyrarhlíð, Skutulsfjarðarbraut). Vegalengdin lengist um 1,2 km. Jafnframt er umferðarþunganum beint í gegnum íbúðasvæði í Hnífsdal.

Þarf að leggja nýjan (10,1 km) veg um Hnífsdalsbyggð og Syðridal sem gæti aukið kostnaðinn.

Kostnaður miðaður ein göng og 2 gagnaskála og 10,1 km veg er áætlaður 2,2 miljarðar.

Leið 4. Er að gera göng frá Syðridal yfir í Tungudal.

Kostir:Við þessa aðgerð losnar vegfarandinn alveg við Óshlíðina og þá farartálma sem henni fylgja. Framkvæmdin tengir Bolungarvík, við Ísafjörð, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Vegalengdin frá Bolungarvík um vesturfirðina styttist um 6,6 km (tenging milli svæða). Vegalengdin að Bónusi styttist um 2,5 km.

Grjótmulningur úr jarðgöngunum notast í undirlag vegaframkvæmdanna.

Möguleiki að tengja almenningssamgöngur milli Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Þing-, Flat-, og Suðeyrar með tengipunkti á skíðasvæðinu (byggðaþróunin).

Styttir vegalendina að skíðasvæðinu um 6,6 km.

Sneyðir framhjá snjóflóðahættusvæðum í Hnífsdal, Eyrarhlíð og Skutulsfjarðarbraut (umferðaöryggi).

Gerir kleift að tengja saman Bolungarvík og Ísafjörð sem orkusvæði.

Auðveldar gagnaflutningatengingu milli svæða.

Gallar: Þarf að endurnýja (5,1 km) veg um Syðridal.

Vegalengdin frá Hnífsdal til Bolungarvíkur lengist um 11,9 km.

Kostnaður miðaður við ein göng og 2 gangnaskála og 5,1 km veg er áætlaður 3,2 miljarðar.

Leið 5. Er að gera göng frá Syðridal í göngin til Súgandafjarðar.

Kostir:Við þessa aðgerð losnar vegfarandinn alveg við Óshlíðina og þá farartálma sem henni fylgja. Framkvæmdin tengir Bolungarvík við Ísafjörð, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Vegalengdin frá Bolungarvík til vesturfjarðanna styttist um 3,6 km (tenging milli svæða).

Grjótmulningur úr jarðgöngunum notast sem undirlag í vegaframkvæmdir.

Vegalendin að skíðasvæðinu styttist um 3,6 km.

Sneytt framhjá snjóflóðahættusvæðum í Hnífsdal, Eyrarhlíð og Skutulsfjarðarbraut (umferðaröryggi).

Gallar: Gangnaleggurinn til Súgandafjarðar ber aldrei þessa umferð, og kallar á ný göng til Súgandafjarðar.

Þarf að endurnýja (5,1 km) veg um Syðridal.

Vegalendin frá Hnífsdal til Bolungarvíkur lengist um 14,9 km.

Lengir vegalengdina í Bónus um 0,7 km

Kostnaður miðaður við ein göng og 2 gagnaskála og 5,1 km veg er áætlaður 3,15 miljarðar.

Samantekt

Ef við tökum saman alla möguleikana sem hér eru að ofan og skoðum þá með tilliti til: Arðsemi, byggðaþróunar, tengingu milli svæða, umferðaöryggis ,uppbyggingar Bolungarvíkur og eflingu byggðanna sem eins atvinnusvæðis, þá er kosturinn frá Syðridal og suður í Tungudal hagkvæmasti kosturinn.

Ég skora á menn að sameinast um besta kostinn og salta það sem komið er, því tíminn sem er til stefnu er naumur. Það er ekki til of mikils mælst að fara fram á heildarlausn. Vestfirðingar eiga ekkert minna skilið en t.d. Siglfirðingar. Skattprósentan er ekki lægri fyrir vestan. Heildarlausn er það eina sem kemur til greina ef byggð á að dafna.

Lifið heil,
Steinþór Bragason, Danmörku

Ps. Til gamans má nefna að kostnaðurinn við þessa framkvæmd er u.þ.b ¼ af því sem ráðuneytin fóru fram úr fjárheimildum á seinasta ári. Svo má bera þessa framkvæmd saman við tilfærslu á Hringbrautinni og krúsidúllubrúnum sem yfir hana liggja.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi