Grein

Hallgrímur Hróðmarsson | 30.09.2005 | 16:30Trúnaður brotinn – Er það skólamaður sem er svona ósvífinn?

Eftir að frétt birtist í blaðinu Bæjarins besta 28. september s.l. er það deginum ljósara að tilmæli ráðuneytis menntamála hafa ekki verið virt. Fulltrúar ráðuneytisins afhentu Ólínu Þorvarðardóttur ákveðin plögg með þeim tilmælum að skólinn færi með þau sem trúnaðarmál og notaði þau eingöngu í uppbyggilegum og faglegum tilgangi. Þessi tilmæli hafa ekki verið virt og trúnaður því brotinn. Úr plöggunum er lekið mjög svo einhliða ályktun um yfirferð prófa hjá Ingibjörgu Ingadóttur enskukennara við skólann.

Þeir aðilar hér í bæ sem vissu um plaggið þegar frétt BB birtist 28. september s.l. voru eftirtaldir: Ólína Þorvarðardóttir, Guðbjartur Ólason aðstoðarskólameistari, Gísli Halldórsson fjármálastjóri, Guðmundur Þór Gunnarsson áfangastjóri, Hrafnhildur Hafberg formaður kennarafélags MÍ, Ingibjörg Ingadóttir enskukennari, Hermann Níelsson maður hennar svo og fulltrúar í skólanefnd MÍ.

Við hljótum nú að spyrja: Hverjum er svo illa við Ingibjörgu að hann finnur sig knúinn til að brjóta þennan trúnað? Af hverju var einmitt þessari einhliða túlkun lekið út eins og þetta væri meginniðurstaðan af könnuninni á yfirferð prófúrlausnanna?

Ég hef verið kennari í rúm þrjátíu ár og ég hef ekki kynnst svona ljótum og smekklausum vinnubrögðum fyrr. Að mínu mati er það ein setning sem stendur uppúr þegar plöggin eru skoðuð og setningin er þessi: „Prófið gefur ekki til kynna hve góður eða slæmur kennarinn er”. Hún Ingibjörg hefur þurft að þola svo mikið óréttlæti að það hefði verið nær að leka þessari setningu út úr plagginu til þess að setja punkt í þessu máli – klára það. Af hverju er ekki hægt að hætta? Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir að héðan af getur enginn sigrað í málinu. Við töpum öll – bæði Ólína og Ingibjörg tapa – og ekki síst starfsmenn og nemendur Menntaskólans á Ísafirði – allir tapa.

Það voru tveir verktakar úti í bæ (Rvík) sem fóru yfir prófin hennar Ingibjargar, ekki matsnefnd ráðuneytisins. Þeir fundu atriði sem betur máttu fara og þeir fundu atriði sem vert var að hrósa. Þeir fundu einnig atriði sem vafi lék á um – en það skrýtna var – þeir höfðu ekki samband við Ingibjörgu til að athuga hvort hér væri um misskilning að ræða. Þetta eru hvorki fagleg né boðleg vinnubrögð. Þetta mátti hún Ingibjörg einnig þola vegna prófanna á haustönn 2004. Andmælaréttur hennar var að engu hafður þá líka.

Ég leyfi mér að fullyrða þetta af því að ég hef unnið með prófdómara þar sem faglega var staðið að málum. Við sömdum spurningarnar í sameiningu og að prófi loknu fórum við yfir úrlausnir hvor í sínu lagi og því næst hittumst við og ræddum þau atriði sem okkur greindi á um. Ég lærði af þessari samvinnu og hann lærði af þessari samvinnu. Prófin og yfirferð þeirra var nokkuð góð. Þar með er ekki sagt að þriðji aðili – verktaki úti í bæ hefði komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og við. Próf eru nefnilega margbreytileg og það er talsvert háð þeim sem metur þau hver útkoman verður. Þess vegna skiptir miklu að fólk ræði saman um matið og um þau viðmið sem liggja því til grundvallar.

Ef faglega hefði verið staðið að málinu hér við MÍ þá hefði átt að kanna úrlausnir prófa hjá öllum kennurum skólans í ensku eða jafnvel í öllum greinum. Einnig mætti hugsa sér að bera saman yfirferð prófa í ensku í okkar skóla og kannski tveimur öðrum. Það er til vansa að einungis prófin hennar Ingibjargar voru send til aðila úti í bæ án þess að sá aðili hefði nokkurt samband við Ingibjörgu.

Mig langar að spyrja fulltrúa í skólanefnd MÍ: Finnst ykkur allt í lagi að þið liggið undir grun um að hafa brotið trúnað og að hafa lekið þessari mjög svo einhliða ályktun út úr plagginu? Er ekki kominn tími til að þið látið í ykkur heyra – finnst ykkur allt í lagi að sitja þegjandi hjá í þessu máli? Þið hafið málfrelsi – af hverju ekki að nota það til að stoppa þessa vitleysu?

Ég vil að lokum undirstrika að mat á því hvort kennari er góður eða slæmur byggist á miklu, miklu fleiri atriðum en þeim prófum sem hann leggur fyrir. Vissulega eru prófin mikilvæg en það er mikil þröngsýni ef menn leiðast út í að einblína á þau. Ingibjörg hefur komið mjög vel út í könnunum þar sem nemendur hafa tjáð sig um frammistöðu hennar. Og ef við viljum athuga próf þá er ekki úr vegi að minnast þess að nemendur MÍ stóðu sig vel í samræmdu stúdentsprófi í ensku s.l. vor. Ingibjörg kenndi þessum nemendum í áföngunum ENS103, ENS203, ENS303 og ENS403 og það er blindur maður sem ekki sér þann stóra þátt sem hún á í frammistöðu þessara nemenda.

Það má örugglega finna einhverja galla á prófum margra kennara við Menntaskólann á Ísafirði og líka í öðrum framhaldsskólum. Nemendur mínir láta í sér heyra ef þeir eru ekki sáttir við prófin sem ég legg fyrir. Ég met mikils ábendingar þeirra og fer eftir þeim ef þær eru réttmætar og faglegar. Mikið væri gaman ef vinnustaðurinn okkar Menntaskólinn á Ísafirði einkenndist á öllum stigum af faglegum samræðum milli aðila. Hér hefur trúnaður verið brotinn að því er virðist í þeim eina tilgangi að koma höggi á einn af kennurum skólans. Þetta eru hrein og klár skemmdarverk. Sá sem þetta hefur gert á að skammast sín – sérstaklega ef hann telur sig vera skólamann.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi