Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 22.09.2005 | 14:35Er ekkert að óttast?

Elías Jónatansson kemst að því í grein sinni „Á valdi óttans“ að ég og fleiri sem sjá annað en glansmyndina sem haldið er á lofti séum á valdi óttans. Ég fór að kíkja í eigin barm til að kanna hvort eitthvað væri til í þessu hjá honum og niðurstaðan varð sú að ég væri ekki á valdi óttans heldur væri ég óttasleginn eða bæri ugg í brjósti. Ég vil ekki viðurkenna að ég sjái ekki það sem vel er gert og hef tileinkað mér setningar eins og „líttu á björtu hliðarnar“ og „ef við sjáum sólskinsblett í heiði þá setjumst allir þar og gleðjum oss“. Einnig má það koma fram að þegar mér fannst svartsýnin og neikvæð umfjöllun frétta frá Vestfjörðum ganga of langt þá stofnaði ég „Félag bjartsýnismanna á Vestfjörðum.“ Og gerði heiðarlega tilraun til blaðamennsku með því að gefa út.

„Jákvæða fréttablaðið.“ Að vísu kom aldrei út nema eitt tölublað en þetta vakti það mikla athygli að bæði Ríkisútvarpið og Morgunblaðið höfðu viðtal við mig og birtu fréttir um þetta og má lesa um það í Morgunblaðinu frá þeim tíma. Það er því algerlega út í hött að halda því fram að ég loki augunum fyrir því sem vel er gert, þó ég loki ekki augunum fyrir því sem miður fer og er ábótavant eins og sumir kerfiskarlar telja nauðsyn. Ótti minn stafar því ekki af því, að ég þori ekki að ræða það sem jákvætt er og vísa ég þeirri fullyrðingu til föðurhúsanna. En hvað er það þá sem ég óttast?

Ég óttast um hag og framtíð landsbyggðarinnar.
Ég óttast um hag og framtíð Vestfjarða sérstaklega.
Ég óttast um framtíð Bolungarvíkur og fleiri staða.
Ég óttast einræði.
Ég óttast fasisma.
Ég óttast um málfrelsið og skoðanafrelsið.
Flóttafólk frá landsbyggðinni til höfuðborgasvæðisins skiptir mörgum þúsundum s.l. 20 ár.
Flóttafólk frá Vestfjörðum einum skiptir þúsundum á sama tíma.

Bolvíkingar voru 1300 árið 1983 en eru nú 950 þar af eru 120 Pólverjar sem komið hafa í stað burtfluttra Bolvíkinga, guði sé lof fyrir það. Það lætur því nærri að á þessum tíma hafi 470 Bolvíkingar flutts burtu. Er þetta nokkuð til að óttast? Þessi tala er svo lygileg að ég á bágt með að trúa henni sjálfur. Það er sæmileg útihátíð þar sem mæta 500 manns. Þegar skemmtuninni lýkur taka þeir upp tjöldin, hengja tjaldvagnana aftan í bílinn og keyra burt. Svipað hefur gerst í Bolungarvík, bara ekki um eina helgi. Fáir tóku eftir því þar sem þetta gerðist hægt og bítandi, en ekki á einni nóttu. Nú er mér sagt að 60 í viðbót séu í startholunum og bíði færis til að fara. Hvers vegna?

Mér er tíðrætt um Bolungarvík, ekki vegna þess að Elías Jónatansson er frá Bolungavík, heldur vegna þess að mér hefur ávallt þótt mjög vænt um Bolungavík og það fólk sem þar bjó og býr. Nú er íbúatala Bolungarvíkur komin niður fyrir 1.000 sem er lámarkstala til að teljast kaupsstaður. Ef fram vindur sem horfir mun Bolungarvík missa kaupstaðaréttindi sín og þeir munu fá bréf frá félagsmálaráðherra þar sem þeir verða skikkaðir til að sameinast öðru sveitarfélagi, væntanlega Ísafirði eða Súðavík.

Er þetta nokkuð til að óttast? Nei, við skulum bara stara á glansmyndina og gæta þess að ekki komi slettur á hana. Strúturinn stingur höfðinu í sandinn og sumir heyra það sem þeir vilja heyra og sjá það sem þeir vilja sjá. Skítugu börnin hennar Evu voru gerð ósýnileg. Þá vekur það hjá mér ugg hvað íbúðaverð á landsbyggðinni er lágt miðað við höfuðborgarsvæðið þó tölur segi að það hafi mjakast upp. Þeir sem flytja, nauðugir eða viljugir, geta vart keypt sér kjallaraíbúð í Reykjavík fyrir andvirði einbýlishúss. Stóra einbýlishúsið er oft á tíðum lífeyrissjóður gamla fólksins, sem það hefur eignast á langri starfsævi. Þessi lífeyrisjóður er harla lítill á landsbyggðinni. Eignaupptaka af manna völdum vil ég kalla þetta og er örugglega brot á mannréttindum.

Þá setur að mér ugg þegar ég hugsa til þess að meðaltekjur Vestfirðinga eru nú þær lægstu í landinu en voru hér áður fyrr þær hæstu og það ár eftir ár. Nokkrir hafa þó sæmileg laun og hífa upp meðaltalið. Kvótaeign Ísfirðinga er nú sú minnsta á landinu miðað við sjávarpláss af sambærilegri stærð en var sú mesta þegar allt lék í lyndi.

Er þetta svartsýnisraus eða staðreyndir og ef þetta eru staðreyndir er þetta þá allt í lagi, eða er þetta ef til vill eitt af þeim málum sem ekki má ræða? Ef grunninn og neðstu hæðina vantar þá er ekki hægt að byggja aðra og þriðju hæðina. Þetta ætti öllum að vera ljóst en svo virðist ekki vera því ýmsir halda að hægt sé að byggja aðra og þriðju hæðina en sleppa kjallaranum og fyrstu hæðinni. Hvernig var með húsið sem var byggt á sandi?

Spurningar til forsvarsmanna Fjórðungssambands Vestfirðinga:

1. Hvað margar ályktanir hafa verið samþykktar á Fjórðungsþingum s.l. 15 ár sem hafa náð fram að ganga?

2. Ályktaði Fjórðungssambandið þegar Vestfirðir voru aflagðir sem kjördæmi eða var þetta smámál sem ekki þurfti eða mátti ræða?

3. Hefur Fjórðungssambandið ályktað um þá gífulegu blóðtöku sem Bolvíkingar hafa þurft að þola?

4. Hefur Fjórðungssambandið ályktað um þá miklu eignaupptöku sem landsbyggðin hefur þurft að láta yfir sig ganga varðandi húsnæðisverð, ekki síst á Vestfjörðum?

5. Ef tilögur félagsmálaráðherra ná fram að ganga varðandi sameiningu sveitarfélaga flyst einn hreppur (í heilu lagi) úr Strandasýslu norður í Húnavatnssýslu og tveir hreppar úr Barðastrandasýslu (líka í heilu lagi) yfir í Dalasýslu. Hefur Fjórðungssambandið ályktað um það?

6. Mun Fjórðungssambandið veikjast við það ef mörg sveitarfélög verða flutt frá Vestfjörðum yfir í aðra landsfjórðunga?

7. Verður þörf fyrir Fjórðungssambandið þegar og ef allir Vestfirðir verða gerðir að einu sveitarfélagi eins og ýmsa framámenn dreymir um?

8. Hvað kostar margar milljónir á ári rekstur Fjórðungssambandsins?

9. Nú hefur Fjórðungssambandið fengið Háskóla Akureyrar til að gera skoðanakannanir, arðsemisútreikninga o.fl. fyrir sig. Hve háar greiðslur fær Háskólinn fyrir þessa þjónustu.?

10. Sendi nýlokið Fjórðungsþing frá sér þakkarávarp til ríkisstjórnarinnar eins og bæjarstjórn Ísafjarðar gerði vegna væntinga um pening úr Símasölusjóði í veg um Arnkötludal árið 2008 og hefðum við aldrei fengið fjármagn í þann veg ef síminn hefði ekki verið seldur?

12. Telur stjórn Fjórðungssambandsins það ofrausn að leyfa þingmönnum kjördæmissins að tala í 10 mínútur á fjórðungsþingum eins og fram hefur komið og hvað telur hún þá hæfilegan ræðutíma þeirra?

Fleiri verða spurningarnar ekki að sinni og vonast ég eftir greinargóðum svörum en alls ekki neinum útúrsnúningi. Svo vil ég þakka Elíasi fyrir greinina sem varð mér kærkomið tækifæri til að setja á prent ýmiss atriði sem ég óttast og önnur sem mig vantar svör við.

Landsbyggðin lifi

Félagið Landsbyggðin lifi er merkur félagsskapur sem ég hvet sem flesta til að kynna sér. Nú hafa þeir opnað heimasíðu og er netfangið www.landlif.is Þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um félagsskapinn. Ísafjarðardeild var stofnuð í maí s.l. og gerðust 33 aðilar félagar á fyrsta fundinum. Aðildarfélög eru nú orðin 20 og úr öllum landsfjórðungum, meira að segja er félag í Reykjavík en margir Reykvíkingar vilja að landsbyggðin lifi. Þessi félagsskapur er all sérkennilegur og einkar jákvæður með sérstakar áherslur og gæti mottó hans verið: „Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.“

20. september 2005,
Jón Fanndal.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi