Grein

Elías Jónatansson.
Elías Jónatansson.

Elías Jónatansson | 21.09.2005 | 09:50Samgöngubætur á Óshlíð

Samgöngur um Óshlíð eru á allra vörum þessa dagana. Ástæðan er einföld, móðir náttúra hefur minnt á sig enn og aftur með skriðuföllum og grjóthruni. Meira hruni og með skemmra millibili en oft áður. Vegurinn hefur verið þyrnir í augum margra vegna snjóflóðahættu og grjóthruns. Hefur það valdið því að umferð um veginn takmarkast oft á tíðum við þá sem þurfa að fara veginn vegna starfs eða skóla. Enginn vafi er á því að aukið öryggi á veginum mun auka umferð til muna.

Árið 2001 var skipaður vinnuhópur, af vegamálastjóra að ósk samgönguráðherra, um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Í hópnum var einn fulltrúi Bolungarvíkurkaupstaðar, einn fulltrúi Súðavíkurhrepps og tveir fulltrúar frá Vegagerðinni. Nefndin skilaði skýrslu sem kynnt var í bæjarstjórn Bolungarvíkur þann 14. ágúst 2002 og síðan gefin út í Nóvember 2002. Um er að ræða all viðamikla skýrslu þar sem teknir eru fyrir 8 valkostir í aukningu umferðaröryggis um Óshlíð. Í bókun bæjarstjórnar, sem samþykkt var í einu hljóði á fundinum segir m.a.: „Bæjarstjórn fellst í megin dráttum á tillögur vinnuhópsins en bendir á að ekki liggur fyrir hönnun einstakra kosta t.d. jarðganga: Hrafnaklettar- Einbúi, sem talin er vera besta leiðin til aukningar umferðaröryggis á Óshlíð.“

Í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar frá árinu 2000 er talið líklegt að gerð yrðu þrenn göng samtals um 4 km á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Óshlíð væri þá úr sögunni sem farartálmi. Kostnaðaráætlun frá þeim tíma er 2-2,5 milljarðar.

Tímasett áætlun um framkvæmdir

Það gæti verið lykillinn að lausn öryggismála á Óshlíð að hægt er að áfangaskipta verkinu. Öllum má vera ljóst að brýnt er að bregðast hratt við þeirri hættu sem nú virðist hafa aukist og er lang mest á „Skriðum“ yst á Óshlíð. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að setja einnig fram tímasetta áætlun um hvernig eigi að „afgreiða“ Óshlíðina í eitt skipti fyrir öll.

Bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur á þessu kjörtímabili nýtt öll tækifæri sem hún hefur haft til að kynna fyrir stjórnmálamönnum, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, ástand samgöngumála við Bolungarvík. Nú síðast í ágúst mánuði, þegar málið var kynnt af undirrituðum á fundi með þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem þá var í heimsókn í Bolungarvík. Þann fund sátu m.a. ráðherrar samgöngu-, fjármála-, dómsmála-, sjávartútvegs-, og menntamála. Þá var einnig farið yfir málið á fundi með vegamálastjóra og svæðisstjóra NV-svæðis vegagerðarinnar í lok ágúst.

Sveitarstjórnir Bolungarvíkur Ísafjarðar og Súðavíkur ályktuðu í þá veru að tryggja þurfi öruggar samgöngur frá Bolungarvík um Ísafjörð til Súðavíkur nú síðast í mars, á sameiginlegum fundi sveitarstjórnanna, sem haldinn var í Bolungarvík. Fjórðungssamband Vestfirðinga er samstíga í sinni ályktun um samgöngumál, sem samþykkt var samhljóða á nýafstöðnu fjórðungsþingi á Patreksfirði í byrjun september.

Áhættan óásættanleg

Það er í mínum huga alveg ljóst að sú áhætta sem talin hefur verið ásættanleg til skemmri tíma á Óshlíð, er það engan veginn lengur. Ástæðan er ekki sú að menn hafi skellt skollaeyrum við yfirvofandi hættu, heldur miklu fremur sú að áhættan virðist hafa aukist til muna vegna tíðni og stærðargráðu grjóthruns eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Nú er því öllum orðið ljóst að aðgerða er þörf hið bráðasta.

Jákvæðar undirtektir hjá ráðamönnum

Rétt er að geta þess að málið hefur allstaðar mætt skilningi og hlotið afar jákvæðar viðtökur hjá ráðamönnum. Greinilegt er að þar á bæ er farið yfir málið af fullri alvöru. Ég tel að fullur vilji sé til þess að leysa vandann, þótt lausnin sé ekki á borðinu enn. Takandi mið af þessum jákvæðu viðbrögðum sem við höfum fengið, þá leyfi ég mér að vera bjartýnn á að sett verði fram áætlun um lausn vandans innan skamms.

Elías Jónatansson, forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi