Grein

Ásthildur Þórðardóttir.
Ásthildur Þórðardóttir.

Ásthildur Þórðardóttir | 20.09.2005 | 13:15Heill þér sextugum Hörður Torfason

Brátt á góður vinur okkar hjónanna Hörður Torfason, afmæli, verður sextugur. Mér þykir við hæfi að heiðra aðeins þann mæta mann. Hörður á langa og merkilega sögu sem listamaður og baráttumaður fyrir mannréttindum hér á landi. Ég man fyrst eftir honum, ungum manni sem kom fram í sjónvarpinu, með gítar og söng fyrir okkur. Ég man að mér fannst hann virkilega sætur strákur. Var strax í uppáhaldi hjá mér.

Síðan kynntist ég honum persónulega, þegar hann kom vestur og setti upp leiksýningu hjá Litla leikklúbbnum. Það var leikritið Lína langsokkur, þá sá ég fagmanninn í reynd. Hörður gerir ekkert til hálfs, allt sem hann tekur sér fyrir hendur gerir hann af heilindum. Hann ferðaðist um þetta land í áratugi og vann með leiklistaráhugafólki og mér telst til að uppsetningar hans séu tæplega 90 talsins og hann leikstýriði ekki eingöngu því hann gerði leiktjöld, handrit, lýsing og allt sem til þurfti. Á meðan hann dvaldi hér á Ísafirði kom hann títt í heimsókn á heimili okkar, og börnin mín muna ennþá eftir manninum, sem söng oft fyrir þau á kvöldin.

Hörður hefur í mörg herrans ár farið kringum landið á hverju ári, og sungið fyrir fólk, á hverju krummaskuði. Hörður er maður fólksins, og nýtur þess að vera á návígi við áheyrendur sína. Enda er hann frábær skemmtikraftur. Þar nýtist honum vel leiklistinn, sem hann lærði ungur maður. Ég hef oft dáðst að honum á tónleikum. Hvernig hann nær manni alveg með, og hann leikur og túlkar þær persónur sem hann er að syngja um. Sérlega gaman hef ég af persónunum sem hann hefur skapað frá eyjunni Æ. Ég þori að fullyrða að engin komist í hálfkvist hér á landi, við Hörð í túlkun og framkomu á tónleikum. Enda hrífur hann alla með sér. Hann hefur líka árlega stórtónleika í Reykjavík, sem alltaf er uppselt á. Sem sýnir að hann er ekki bara maður pöpulsins úti á landi, heldur er einnig gjaldgengur í henni Reykjavík.

Hörður er maður hugsjóna og framkvæmda og lætur ekki deigan síga þó á móti blási eins og allt starf hans ber vitni um. Það þurfti mikið hugrekki til að ganga fram fyrir skjöldu og hefja baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra árið 1975 og enn meira hugrekki til að ferðast einn um landið til að fylgja þeirri baráttu eftir í áratugi. Hann gerði sig sýnilegan sem samkynhneigður einstaklingur og um leið sem listamaður og vann smám saman bug á fordómum og þekkingarleysi samlanda sinna í gegnum list sína. Og hann sýndi einnig innsæi og klókindi að koma saman Samtökunum ´78. Samkynhneigðir íslendingar og fjöldskyldur þeirra eiga Herði mikið að þakka og samkynhneigðt fólk má spyrja sig þeirrar spurningar í dag hver réttindi þeirra væru ef Hörður hefði ekki hafið baráttuna og sett saman Samtökin ´78.

Ég veit að hann hefur átt stundum erfiða daga, hann kom út úr skápnum á sínum tíma, eins og frægt er. Hann hefur aldrei skyrrst við að vera hann sjálfur. Og mátti sæta ofsóknum af hendi óprúttina manna. Varð að hann að flýja land á tímabili. En sem betur fer hafa tímarnir breyst, og menn orðnir umburðarlyndari gagnvart þeim, sem ekki eru eins og aðrir. Þetta þýddi samt, að í mörg ár misstum við af listsköpun hans, nema einu sinni á ári, þegar hann kom heim, til að halda tónleika.

Herði hefur ekki verið hampað mikið gegnum tíðina. Hann hefur ekki verið eins mikið í sviðsljósinu eins og hann gæti hafa verið. Hörður hefur aldrei verið til sölu, hann hefur alltaf verið einlægur, og lagt alúð í það sem hann hefur verið að gera. Ef til vill finnst mönnum erfitt að sætta sig við það. En aðrir bera því meiri virðingu fyrir honum einmitt þess vegna.

Hörður hefur fengið nokkrar viðurkenningar fyrir störf sín eins og lesa má á heimasíðu hans www.hordurtorfa.com. En í sumar, hlaut þessi frumkvöðull mikla viðurkenning, þegar hann fékk verðlaun frá norrænum tónlistamönnum frá NPU. NPU eru samtök tónskálda og textahöfunda á Norðurlöndunum. (The Nordic Popular Author's Union / Nordisk Poplærautorunion ). Og ég veit að honum þykir vænna um slíka viðurkenningu en margt annað þar sem hún kemur beint og milliliðalaust frá kollegum hans.

Hörður er í dag lukkunnar pamfíll, nýkvæntur maðurinn, hamingjusamur með sínum elskulega Massimo.

Hörður minn, þú ert haustbarn eins og ég. Ég óska þér innilega til hamingju með öll 60 árin, og megi þau sem á eftir koma vera jafn gefandi og þau sem liðin eru. Þú skilur svo sannarlega eftir þig margt fallegt sem mun ylja, löngu eftir að þú sjálfur hverfur héðan. Hver meira getur maður óskað sér.

Heill þér sextugum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi