Grein

Marinó Hákonarson.
Marinó Hákonarson.

Marinó Hákonarson | 16.09.2005 | 10:37Ja, nú eru menn gamansamir!

Mér var litið á vefsíðu BB í gærkvöldi og sá þá haft eftir vini mínum og skólabróður, Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, að byggingarnefnd grunnskólans á Ísafirði hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri vert að leggja loftræstingu í nýtt verkmenntahús grunnskólans sem fyrirhugað er að byggja, sökum kostnaðar og vandræða sem ef því hlýst. Ég er víst einn um að reka fyrirtæki sem selur slíkar vörur hér á Vestfjörðum svo eflaust er þetta dulbúin auglýsing fyrir mitt fyrirtæki, sem byggingarnefnd og bæjaryfirvöld eru að koma þarna á framfæri. En hvað með það. Samkvæmt þeirri þekkingu sem ég hef aflað mér á þessu sviði, á loftræsting hvergi betur við í skólahúsnæði en einmitt við þessar aðstæður sem og í tölvuverum og efnafræðistofum, þó svo að góð loftræsting eigi alltaf við.

Það er fjarri mér að slá þessu upp í eitthvert grín þar sem jafn virðulegur skólaveggur kemur til með að standa nærri byggingunni og raun ber vitni. Þó skil ég vel að draga verði úr kostnaði eins og kostur er. Sé ég fyrir mér að notast megi við rússneskar perur til lýsingar og takmarka fjölda tengla í hverri skólastofu, því alltaf má nálgast framlengingarsnúru einhvers staðar. Magn innkaup má gera á hvítri málningu og lakka pússuð gólf! Nei, ágæta byggingarnefnd framtíðarhúsnæðis GÍ. Hafið velferð þeirra barna sem koma til með að nema við skólann á komandi árum að leiðarljósi þegar þið takið ákvarðanir um innra form skólans, þá skilið þið okkur góðu verki.

Með vinsemd,
Marinó Hákonarson, framkvæmdastjóri Ísblikks ehf., á Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi