Grein

Gunnbjörn Óli Jóhannsson.
Gunnbjörn Óli Jóhannsson.

Gunnbjörn Óli Jóhannsson | 15.09.2005 | 16:48Þakka ber það sem vel er gert

Ríkisstjórnin hefur kynnt hvernig hún ætlar að verja söluandvirði Símans. Ákvörðunin er einstaklega góð, bæði hvað öll verkefnin varðar sem og tímasetningu framkvæmda. Við Vestfirðingar fögnum auknu framlagi til vegamála í fjórðungnum. Sem íbúi á þessu svæði fagna ég sérstaklega þeim áfanga að séð verður fyrir að vegurinn um Svínadal verður lagður slitlagi, vegurinn um Arnkötludal milli Reykhólahrepps og Hólmavíkur verður lagður, og það sem mestu máli skiptir að miklu verður varið til bóta á veginum milli Bjarkalundar og Flókalundar. Ekki skortir fjármagnið í vegina núna.

Nú þegar leggja á yfir 1 milljarð kr. til þeirrar framkvæmdar, má væntanlega vera ljóst að valin verður vegtæknilega besta leiðin, þ.e. sú að þvera Þorskafjörð, Djúpafjörð, Gufufjörð og fara um nesin yfir firðina. Það er því bjart framundan í framfaramálum okkar Vestfirðinga og rétt að þakka fyrir það sem vel er gert. Nú er komið tækifæri til stærri sameiningar á þessu svæði og er það í okkar höndum, íbúanna. Það er einnig okkar heimamanna að nýta þau tækifæri sem gefast með bættum samgöngum til eflingar atvinnu- og mannlífi í fjórðungnum.

Kinnarstöðum 13. september,
Gunnbjörn Óli Jóhannsson.

Höfundur er verktaki í Dölum og Barðastrandarsýslum.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi