Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 13.09.2005 | 14:07Að berja í brestina

Að afloknu fjórðungsþingi ritar Birna Lárusdóttir grein á BB vefnum undir yfirskriftinni: „Hættum að berja í brestina.“ Ástæða þessarar nafngiftar er að hennar sögn sú, að í pallborðsumræðum á þinginu sagði einn af þáttakendunum: „Hættum að berja í brestina og einblínum þess í stað að styrkleika Vestfjarða.“ Ég hrökk óneitanlega við þegar ég sá þessa fyrirsögn þar sem ég þóttist vita hvað það þýddi að berja í brestina og það ætti ekki rétt á sér að hætta að berja í brestin a.m.k. ekki í þessu samhengi.

Ég fletti því upp í orðasöfnum um íslenskt mál og þar bar allt að sama brunni, merkingin er umbætur, úrbætur, viðgerð og að afsaka eða breiða yfir galla. Þessa er getið í Njálu en þar segir: „Þar skalt þú láta falt smíðit og hafa þat uppi af er verst er og beja í brestina.” Það þýðir að gera við það sem gallað er. Að hætta að berja í brestina er því t.d að gera ekki við það sem aflaga fer eða að hætta að breiða yfir gallana og væri það af hinu góða ef t.d. bæjarstjórnin gerði það, en þá kæmi ef til vill kusk á hvítflibbann og slettur á glansmyndina. Það er því út í hött og úr öllu samhengi að hætta að berja í brestina og einblína þess í stað á styrkleika Vestfjarða. Ég er manna fúsastur til að einblína á styrkleika Vestfjarða og vinna þeim brautargengis en eigum við að hætta að berja í brestina? Það verður þá eitthvað annað og betra að koma í staðinn.

Merking þessa orðatiltækis er þannig tilkomin, að frá fornu fari hefur ríkt ákveðin hefð í gull og silvursmíði. Menn smíðuðu hringa, festar, víravirki á kvenfatnað og fleira af miklum hagleik. Stundum kom brestur í málminn, einkum á samskeytum. Smiðir létu oft duga að berja í brestina til að gera við gallana eða að breiða yfir þá. Það þótti að vísu ekki vönduð vinnubrögð en viðgerð þó.

Framtíð Fjórðungssambands Vestfjarða

Fjórðungssamband Vestfjarða var stofnað 1949 og hafa verkefni þess breyst mikið frá þeim tíma eins og réttilega kemur fram í grein Birnu. Fjórðungssambandið er arftaki Kollabúðafundanna. Að ég best veit var fyrsti Kollabúðafundurinn haldinn 18. júní árið 1849 að frumkvæði Jóns Sigurðssonar þingmanns Ísfirðinga. Það eru því slétt eitt hundrað ár frá fyrsta Kollabúðafundinum, „en þar komu saman forustumenn Vestfirðinga til að ræða ýmiss framfaramál héraðsins og landsins alls“ eins og segir í fréttum frá þeim tíma, þar til Fjórðungssambandið er stofnað.

Fjórðungssambandið átti vissulega fullan rétt á sér og frá því komu margar góðar ályktanir sem stjórnvöld tóku mark á. Það var mjög sterkt að geta vísað í ályktanir Fjórðungssambandsins þegar verið var að koma einhverjum framfaramálum í kring. En hin síðari ár hefur stöðugt verið að fjara undan sambandinu og er nú svo komið að það er komið á þurrt og hlutverki þess lokið enda tekur enginn lengur mark á því sem frá þinginu kemur og síst þeir sem ráða ferðinni í landsmálum. Ástæður þess að svo er komið er fyrst og fremst fækkun sveitarfélaganna, breytt umhverfi og aukin miðstýring.

Allt frá því að sveitarfélögin sem nú mynda Ísafjarðarbæ voru sameinuð hafa ýmsir forustumenn í meirihluta bæjarstjórnar átt þá ósk heitasta að sameina öll sveitarfélög á Vestfjörðum í eitt sveitarfélag. Ég er minnugur þess að eftir kosningarnar um sameininguna, kom einn af frammámönnum bæjarstjórnarinnar fram í sjónvarpi og lýsti því yfir að næsta skref væri að sameina öll sveitarfélög á Vestfjörðum í eitt og nú tekur núverandi bæjarstjóri í sama streng. Hvers vegna að sameina öll sveitarfélögin í eitt, hver er ávinningurinn? Er ávinningur í því, að málefnum íbúa á Drangsnesi, Hólmavík, í Reykhólahreppi og í Vesturbyggð svo að dæmi séu nefnd, sé stjórnað af kansellíinu við Hafnarstræti á Ísafirði?

Ég tel það víst að ekkert af þessum byggðalögum sem ég nefndi, myndu taka það í mál að leggja sín málefni í hendur bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og vera miðstýrt þaðan og er ég þá ekki að gera lítið úr þeim mönnum sem þar sitja. Við ættum því að eyða orkunni í eitthvað þarflegra en svona bollaleggingar. Ég var hlynntur núverandi sameiningu og sé ekki eftir því að hafa greitt henni atkvæði en sorglegt er til þess að hugsa hve illa sameiningin var undirbúin og hvað ríkisvaldið slapp billega út úr því dæmi. Þeir sem undirbjuggu sameininguna voru svo æstir í að sameina, að þeir máttu ekki vera að því að reikna dæmið til enda og fá mýkri lendingu og erum við enn að súpa seyðið af því.

Nú er að fara í gang á vegum Félagsmálaráðuneytisins ein sameiningarhrinan enn. Í pottinum eru 2,6 miljarðar sem ráðuneytið ætlar að deila út til þeirra sem samþykkja sameiningu. Þetta eru ekki mútur segir félagsmálaráðherra, heldur hugsað til að mæta auknum útgjöldum sveitarfélaganna, vegna sameiningarinnar. Hvað var mikið í pottinum þegar við sameinuðumst hér í Ísafjarðarbæ og hvað fengum við mikið úr honum vegna sameiningarinnar eða var kannski enginn pottur þá? Hvað háa upphæð fáum við í mútur ef allir Vestfirðir sameinast í eitt sveitarfélag?

Málfrelsi og tillöguréttur

Á nýloknu Fjórðungsþingi var samþykkt tillaga um að fela stjórninni að endurskoða fundarsköp þingsins væntanleg til þess að skerða málfrelsi þingmanna og ef til vill annarra sem tala ekki eftir ákveðinni forskrift, forskrift sem stjórnin mun koma sér saman um við endurskoðunina, þar kemur væntanlega í ljós um hvað má tala og um hvað má ekki tala, hvern má styggja og hvern má ekki styggja. Ég held að Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri, fyrrverandi þingmaður Ísfirðinga, bylti sér í gröfinni. Hann sem lagði það á sig fyrir 150 árum að koma frá Danmörku til að sitja Kollabúðafundi og fá að tala

Þegar kjördæmið okkar,Vestfjarðakjördæmi, var lagt af, taldi ég að aukin þörf væri fyrir Fjórðungssambandið til að halda utan um og minna á þau áhersluatriði sem sérstaklega snertu okkur hér á Vestfjarðakjálkanum, væri nokkurs konar íbúasamtök innan þess stóra kjördæmis, sem spannar allt frá Skagafirði í Hvalfjarðarbotn. Sú hefur ekki orðið raunin á heldur þvert á móti og er þetta fyrrum merka þing að leysast upp í marklausa kjaftasamkomu. Allt hefur sinn tíma sagði Páll postuli og getið er um í helgri bók. Fjórðungssambandið er barn síns tíma. Þess tími er liðinn. Leggjum það niður með virðingu og þökk og spörum fátækum sveitarfélögum umtalsverðar upphæðir.

Að lokum

Þegar stjórnarskráin var eitt sinn fyrir Halldóri Ásgrímssyni varðandi kvótalögin sagði hann: „Þá bara breytum við stjórnarskránni.“ Þegar Þjóðhagsstofnun spáði ekki eins og Davíð Oddssyni líkaði þá lagði hann hana niður. Í Grikklandi hinu forna voru sendiboðar illra tíðinda drepnir. Ef fulltrúar eða gestir á Fjórðungsþingi Vestfirðinga tala ekki eins og Birnu og Guðna líkar þá breyta þau bara fundarsköpum. Mér finnst sami ylmurinn af þessu öllu. Það angar allt af einræði.

Hnífsdal 13. september 2005,
Jón Fanndal Þórðarson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi