Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

Birna Lárusdóttir | 06.09.2005 | 13:05Hættum að berja í brestina!

Fyrstu helgina í september komu sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum saman á Fjórðungsþingi Vestfirðinga og var það í fimmtugasta skipti sem slíkt þing er haldið í fjórðungnum. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan Fjórðungssamband Vestfirðinga var stofnað árið 1949, verkefni sveitarfélaga hafa breyst gríðarlega og allt umhverfi þeirra er annað en var um miðja síðustu öld. Kjörnum sveitarstjórnarmönnum hefur einnig fækkað vegna sameininga sveitarfélaga og áttu nú 63 fulltrúar fastan rétt til setu á þinginu, þ.e. allir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum. Um nokkurt skeið hafa menn rætt þörfina á því að endurskoða starfsemi Fjórðungssambandsins í ljósi breyttra tíma og hefur undirrituð verið fylgjandi því þótt það sé ekki efni þessarar greinar.

Ýmsir kallaðir til þings

Hin árlegu Fjórðungsþing eru fyrst og síðast samstarfsvettvangur sveitarstjórnarmanna en sú hefð hefur skapast að til þinganna hefur ýmsum verið boðið, sem láta sig hag fjórðungsins varða. Þingmenn kjördæmisins, sýslumenn og forstöðumenn stofnana á fjórðungsvísu eru meðal þeirra sem árlega er boðið að sitja Fjórðungsþing. Einnig eru ýmsir fyrirlesarar fengnir til liðs við þingið allt eftir því hvaða efni er til umfjöllunar hverju sinni. Mikilvægt er að allir þeir sem vinna að framgangi Vestfjarða ráði ráðum sínum reglulega og hafa Fjórðungsþing lengst af reynst góður vettvangur til þess. Jafn brýnt er að íbúar svæðisins fái heilsteyptar fréttir af því sem fram fer á slíkum þingum.

Ólundarlegur vinkill

Nú kveður hinsvegar við nýjan tón í umræðunni um þingið og birtist hann m.a. í grein hér á BB vefnum um liðna helgi. Þar sér greinarhöfundur, sem jafnframt er þingmaður Norðvesturkjördæmis, ástæðu til að barma sér undan þeirri umræðu sem fram fór fyrri dag þingsins. Hann dregur fram pólitískar áherslur sínar og virðist helst sem hann sé ósáttur við að hafa ekki fengið nægt svigrúm til að viðra þær á þinginu. Agnúast er út í ræðu iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem var boðinn sérstaklega til að fylgja úr hlaði áherslum sínum í byggðamálum.

Hvergi í greininni er gerð minnsta tilraun til varpa jákvæðu ljósi á störf þingsins. Ekkert er minnst á fjörlegar og nýstárlegar umræður sem fram fóru á laugardagsmorgun undir yfirskriftinni ,,Framtíð ungs fólks á Vestfjörðum”. Ályktanir og áherslur þingsins eru hvergi nefndar á nafn, að frátallinni lítilli tillögu um fundarsköp, og má í reynd segja að greinin sé öll hin ólundarlegasta.

Fjórðungsþing – ekki Alþingi

Í stað þess að greina frá því sem var meginefni þingsins fer greinarhöfundur mörgum orðum um ræðu undirritaðrar þar sem hún gagnrýndi þingmenn allra flokka fyrir að misnota þann vettvang sem Fjórðungsþingin eru. Það er nefnilega þannig að undangengin ár hefur það færst í vöxt á Fjórðungsþingi að þingmenn kjördæmisins fari mikinn í ræðuhöldum og hefur stundum vart mátt á milli sjá hvort menn eru staddir á hinu háa Alþingi eða á þessum samráðsvettvangi sveitarstjórnarmanna. Umræðan hefur í reynd snúist upp í karp milli ríkisstjórnarliða og stjórnarandstöðu, flestum sveitarstjórnarmönnum til mikillar armæðu, enda hefur þá minni tími gefist kjörnum fulltrúum til að láta sín sjónarmið í ljósi. Þessi þróun mála varð kveikjan að tillögu um að fela stjórn Fjórðungssambandsins að endurskoða fundarsköp þingsins. Er skemmst frá því að segja að sú tillaga var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Einblínum á styrkleika Vestfjarða

Engum dylst að erfiðleikar hafa steðjað að vestfirskum byggðum mörg undangengin ár. Hátt gengi krónunnar og flutningskostnaður reynir mjög á atvinnulífið um þessar mundir, tekjur sveitarfélaganna duga illa fyrir rekstri og samgöngukerfi fjórðungsins er hvergi nærri í takti við nútímann, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru erfið viðfangsefni sem vestfirskir stjórnmálamenn þurfa að sameinast um að leysa. En á sama tíma má ekki missa sjónar af þeim tækifærum sem blasa við Vestfjörðum ef rétt er á málum haldið. Hægt er að nefna fjölmörg verkefni s.s. á sviði ferðaþjónustu, háskólasetur, kalkþörungaverksmiðju og þorskeldi. Sum verkefni eru á hugmyndastigi, önnur lengra komin, en öll eiga þau það sammerkt að vera liðir í því að efla byggð á Vestfjörðum. Brýnt er að ríkisvaldið komi hratt og myndarlega að fjármögnun þeirra verkefna sem að því snýr.

Það er vissulega virðingar- og þakkarvert þegar þingmenn kjördæmisins, og aðrir gestir, sjá sér fært að sitja Fjórðungssþing en því fylgir einnig sú ábyrgð að stuðla að uppbyggilegri umræðu um málefni fjórðungsins – umræðu sem skilar okkur fram á veginn í stað þess að hjakka í gömlu fari fortíðar. Eða eins og það var orðað svo ágætlega í pallborðsumræðum þingsins: ,,Hættum að berja í brestina og einblínum þess í stað á styrkleika Vestfjarða!”

Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi