Grein

Birna Lárusdóttir.
Birna Lárusdóttir.

| 18.10.2001 | 17:19Misskilningur leiðréttur

Um fátt hefur verið meira rætt undanfarna daga en misklíðina sem upp kom nýverið innan nefndarinnar sem ætlað er að sjá um framkvæmd Landsmóts UMFÍ 2004. Ekki ætla ég að tjá mig um átökin innandyra í þeirri ágætu nefnd enda á ég ekki sæti í henni og hef því enga vitneskju um hvernig málum hefur verið háttað þar á bæ. Hitt er annað að ég hef orðið vör við mikinn misskilning meðal íbúa á norðanverðum Vestfjörðum og snýst hann um að aðkomu sveitarfélaganna að væntanlegu landsmótshaldi. Vil ég reyna að leiðrétta þennan misskilning eftir bestu getu og varpa betra ljósi á nokkrar staðreyndir þessa máls.
Undirbúningi Landsmóts er hægt að skipta í tvo meginhluta. Annarsvegar er það framkvæmd mótsins og hinsvegar uppbygging og endurbætur á nauðsynlegum íþróttamannvirkjum til að unnt sé að halda slíkt mót. Hlutverk Landsmótsnefndar er skýrt; hún undirbýr mótshald, sér um framkvæmd mótsins og safnar til þess umtalsverðu fé, einkum frá stórum styrktaraðilum auk þess sem innkoma af mótinu rennur til nefndarinnar.

Á hinn bóginn eru það viðkomandi sveitarfélög sem tryggja að aðstaða til íþróttaiðkunar sé fyrir hendi, þau ábyrgjast uppbyggingu nauðsynlegra íþróttamannvirkja og sjá til þess að tjaldsvæði og bílastæði séu fyrir hendi, svo eitthvað sé nefnt.

Snemma á þessu ári tók stjórn UMFÍ þá ákvörðun að úthluta Landsmótinu 2004 til tveggja héraðasambanda, HSV (sem samanstendur af íþróttafélögum í Ísafjarðarbæ og Súðavík) og HSB (sem samanstendur af íþróttafélögum í Bolungarvík). Þessi ákvörðun UMFÍ átti sér þó mjög langan aðdraganda og hana var ekki hægt að taka nema að minnsta kosti eitt af þeim þremur sveitarfélögum sem héraðssamböndin starfa í væri tilbúið til að ábyrgjast nauðsynlega uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir mótið.

Sveitarstjórnir Súðavíkurhrepps og Bolungarvíkurkaupstaðar sáu sér ekki fært að gefa út slíkar yfirlýsingar um uppbyggingu mannvirkja en skýrt var tekið fram að þau mannvirki sem fyrir væru á hvorum stað yrðu fúslega lánuð undir mótshald.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tók annan pól í hæðina en nágrannasveitarfélögin og samþykkti á bæjarstjórnarfundi 1. febrúar síðastliðinn svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórn samþykkir að taka þátt í landsmóti UMFÍ árið 2004 í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Samþykktin er gerð með þeim fyrirvara að samstarf náist við hið opinbera um nauðsynlega fjármögnun. Einnig er sá fyrirvari gerður að verði samþykkt að halda landsmót innan Ísafjarðarbæjar árið 2004 fari fram úttekt á skuldbindingu Ísafjarðarbæjar skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga nr 45/1998.“

Svo mörg voru þau orð. Á grundvelli þessarar samþykktar bæjarstjórnar ákvað stjórn UMFÍ að úthluta mótinu til Vestfirðinga. Ef þessi samþykkt hefði ekki verið gerð hefði UMFÍ ekki haft heimild til að úthluta mótinu vestur og næstu umsækjendur í röðinni hefðu komið til álita.

Það er því deginum ljósara að sú kostnaðarsama uppbygging, sem þarf að fara fram fyrir mótið, getur einungis orðið í Ísafjarðarbæ því ekkert annað sveitarfélag hefur lýst sig reiðubúið til slíkra framkvæmda. Orð vinkonu minnar, Soffíu Vagnsdóttur, sem birtust hér á vefnum í gær eru því á misskilningi byggð þegar hún segir: „Það er að mínu mati hróplegt óréttlæti að Bolvíkingar missi af gullnu tækifæri til frekari uppbyggingar á íþróttasvæði sínu og jafnvel mannvirkjum, eingöngu vegna þess að misklíð kemur upp í þeim litla hópi sem falið var að hafa yfirumsjón með undirbúningi verksins af beggja sveitarfélaga hálfu.“

Það var aldrei inni í myndinni að byggja frekar upp íþróttamannvirki í Bolungarvík, einfaldlega vegna þess að fjárútlát sveitarfélaganna verða alltaf umtalsverð í svona framkvæmdum, þrátt fyrir aðkomu ríkisins að ákveðnum verkefnum, og Bolungarvíkurkaupstaður hafði með ákvörðun sinni síðastliðinn vetur skorast undan því að taka þátt í slíku.

Það er þó ekki að undra að margir eigi erfitt með að átta sig á misjöfnum hlutverkum Landsmótsnefndar annarsvegar og sveitarfélaganna hinsvegar. Sjálf Landsmótsnefndin, eða einstaklingar innan hennar, áttuðu sig ekki heldur á þessu í upphafi og lögðu í vinnu við að útbúa tillögur um hvar hentugast væri að byggja upp það sem upp á vantar af íþróttamannvirkjum. Ég vona að þeim misskilningi hafi nú verið eytt; nefndin sér um framkvæmd mótsins en Ísafjarðarbær um nauðsynlega uppbyggingu, vonandi í sem mestu og bestu samstarfi við fjárveitingavald ríkisins.

Í mínum huga er ég sannfærð um að fátt geti komið í veg fyrir að Vestfirðingar haldi glæsilegt Landsmót UMFÍ að þremur árum liðnum. Fall er fararheill og við eigum að draga lærdóm af þeim byrjunarörðugl


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi