Grein

Einar Guðmundsson.
Einar Guðmundsson.

Einar Guðmundsson | 24.08.2005 | 14:35„Eitt er vorhugi og annað vetrar“

Það er mikil blessun fyrir fámenna þjóð í stóru landi að eiga sér góðar nefndir manna. Sem velta fyrir sér vandamálum nútíma og framtíðar og kynna sér hvar skóginn kreppir að, svo allt megi að lokum fara á besta veg. Um þetta vitna mýmörg dæmi víðsvegar í þjóðfélaginu, ef vel er að gáð. Hitt er öllu verra að oftar enn ekki meiga þessar nefndir búa við aðfinnslur og sleggjudóma sjálfskipaðra mótmælenda sem þykjast vita allt betur. Svo fórnfús störf góðra manna eru hártoguð á ýmsa vegu og þeir annað hvort álitnir handbendi annarlegra sjónarmiða eða blátt áfram algjörir bjánar.

Nú er það svo að á úthallandi verslunarmannahelgi þegar að vanda, -maður vaknar upp við þann vonda draum að næturnar björtu þegar sólroðinn ský sigla hægan byr yfir bláum fjöllum, eru að baki eina ferðina enn og angurvær tilfining fer hárfína rispu gegnum sálina. Þá koma fram myndir af vetri með snjó og ófærð og 36 tommu snjóhjólbörðum drifnum öllum hjólum og dugar ekki til. Myndir af kuldagölluðum mönnum sem brjótast til byggða og vaða snjóinn í klyftir með grenjandi hríðina í fangið. – Til byggða! Já, og þar stendur nú stundum hnífurinn í kúnni. - Hvaða byggða? Skiptir það ef til vill einhverju máli að einhver byggð sé nærri? Ætti fólk ekki bara að sitja heima í þannig veðri? Það er einfaldast, þá er best að sitja bara við gluggan og bíða eftir betri tíð. En það er nú einu sinni svo að veður breytast oft fljótt. Sjálfur lenti ég í því þá landpóstur að fagna ljósi í glugga, uppgefinn eftir erfiða ferð í vondu veðri.

Og nú, því miður, sé ég mig tilneyddan að gerast einn af þessum sjálskipuðu dómurum og gera vinsamlega athugasemd við nefndarstörf, og geng nú beint framan að Hrafnseyrarnefnd og spyr. Af hverju settuð þið ekki sem skilyrði að sá sem ráðinn yrði í starf umsjónamanns Hrafnseyrar sæi um að þar væri búseta allt árið. Gerið þið ykkur ekki ljóst hvað mikla þýðingu það hefur fyrir samgöngur milli norður og suðursvæða Vestfjarða að þarna verði hægt að fá einhverja fyrir greiðslu fyrir þá sem leggja leið sína að vetri til yfir Hrafnseyrarheiði.

Kynntuð þið ykkur það hvort einhver af þessum umsækjendum sem sóttu um stöðuna væri bæði fær um að líta eftir safninu og öðrum mannvirkjum og sjá um að staðurinn yrði setinn allt árið, fyrir þá greiðslu sem nefndin var tilbúinn að greiða manni í fullu starfi langt í burtu og enginn tök hefur á að líta eftir staðnum þegar, en ekki ef, - harðir vetur koma? Finnst ykkur ekki að þessi merkis staður Hrafnseyri, hefði meiri reisn ef þar væri búseta árið um kring? Eru ekki eyðibýlin orðin nógu mörg á Íslandi?

Með vinsemd og virðingu,
Einar Guðmundsson, Seftjörn.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi