Grein

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

| 17.10.2001 | 16:05Þvílík vonbrigði

Flestir þeir sem lesið hafa Bæjarins besta og BB-vefinn síðustu vikur hafa fylgst með umræðum um væntanlegt Landsmót UMFÍ árið 2004. Á BB-vefnum síðastliðinn fimmtudag kom fram að lokið væri samstarfi Ísfirðinga og Bolvíkinga um undirbúning væntanlegs landsmóts. Ástæðan er sögð alvarlegur trúnaðarbrestur og óásættanleg vinnubrögð fulltrúa Ísfirðinga í nefndinni.
Vonbrigði.

Enn og aftur er komið vopn í hendur þeirra fyrir sunnan sem efast um ágæti vestfirsks samfélags. Einmitt þegar mest á reynir í samstöðunni og samkenndinni um að leysa af hendi erfitt, sameiginlegt verkefni, þar sem ríður á að allir vinni saman og allir leggi sitt af mörkum, þá bregðumst við sjálf. Heimamennirnir sjálfir.

Mikil vonbrigði.

Hver á að gefa sig þegar ósamlyndi kemur upp?

Hver á að slíðra sverðið fyrst?

Hverjir eiga að reyna að stilla til friðar þegar til ófriðar kemur?

Það veldur vonbrigðum að sá hópur sem falið var hið vandasama verkefni að undirbúa Landsmót UMFÍ á Vestfjörðum árið 2004 skuli hafa sundrast strax á fyrstu lífdögum samstarfsins. Án efa er stór hópur fólks í báðum sveitarfélögum sem tilbúinn er að leggja málinu lið. Tilbúinn að vinna óeigingjarnt sjálfboðastarf til þess að láta svo stóra hluti sem mót af þessu tagi ganga upp. Enda er útilokað að taka slíkt verkefni að sér nema reiða sig á slíkan hóp í löngum undirbúningi, að ekki sé talað um á mótinu sjálfu, komi til þess. Þannig hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir slíku sjálfboðastarfi þegar hugmyndin um að halda landsmót UMFÍ hér fyrir vestan kom upp í fyrstu.

Allur þessi óskilgreindi hópur hefur fylgst með skoðanaskiptum og ágreiningi undirbúningsnefndar á opinberum vettvangi sem hefur nú leitt til þess að tilkynnt hafa verið samstarfsslit Bolvíkinga og Ísfirðinga vegna mótsins.

Þvílík vonbrigði.

Það er að mínu mati hróplegt óréttlæti að Bolvíkingar missi af gullnu tækifæri til frekari uppbyggingar á íþróttasvæði sínu og jafnvel mannvirkjum, eingöngu vegna þess að misklíð kemur upp í þeim litla hópi sem falið var að hafa yfirumsjón með undirbúningi verksins af beggja sveitarfélaga hálfu.

Hefði ekki verið nær að skoða málið yfirvegað og af þroska? Taka tillit til heildarhagsmuna svæðisins áður en ákvörðun af þessu tagi var tekin, fremur en að vera með yfirgang, snúa upp á sig og líta til persónulegra tilfinninga og eiginhagsmuna og hlaupa svo með allt í blöðin?

Þau eru áreiðanlega mörg ágreiningsefnin sem eiga eftir að koma upp fram að þeim tíma sem mótið verður haldið árið 2004. Ekki býð ég í hvernig því lýkur öllu saman ef leikurinn hefst með þessum hætti.

Á hvers ábyrgð er það að ákvörðun af þessu tagi er tekin?

Koma fulltrúar bæjaryfirvalda ekki þar inn í?

Eða er þetta kannski bara enn eitt dæmi þess að allt skal vera á Ísafirði sem gert er á Vestfjörðum?

Ég er svekkt yfir niðurstöðu málsins og óska eftir að fleiri láti skoðun sína í ljós.

Soffía Vagnsdóttir,
Bolungarvík.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi