Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson | 23.08.2005 | 14:12Tvær einfaldar leiðir til að sameina sveitarfélög

Það er fyrirhugað átak við sameiningu sveitarfélaga nú í haust. Það er svo sem allt í lagi. En ekki er þess að vænta að mikill árangur náist. Sameining sveitarfélaga gerist ekki undir slíkum formerkjum. Reynslan mun kenna okkur enn einu sinni að slík aðferð er ekki líkleg til árangurs. Í haust verður kosið um sameiningu margra sveitarfélaga. Valdið er með öðrum orðum í höndum almennings. Það ræðst af vilja almennings hvort af sameiningu sveitarfélaga verður. Og reynslan sýnir að telji almenningur sameiningu sveitarfélaga skynsamlega þá er það samþykkt í kosningum; ella ekki. Úrslitin munu með öðrum orðum ráðast af því hvort fólk telji hagsmunum sínum betur borgið með eða án sameiningar. Svo einfalt er það mál.

Gríðarleg fækkun sveitarfélaga

Einu mega menn ekki gleyma. Sveitarfélögum á Íslandi hefur fækkað gríðarlega á örfáum síðustu árum. Flest voru þau árið 1950, eða 229. Síðan hefur þeim smá fækkað. Býsna lítil breyting varð á skipan sveitarfélaga fyrstu fjörutíu árin og fækkun sveitarfélaga var ekki mikil. En frá og með 1990 hefur fækkunin orðið gríðarleg. Sveitarfélögin voru 204 árið 1990, en verða að hámarki ekki nema um 90 við næstu sveitarstjórnarkosningar. Þeim hefur með öðrum orðum fækkað um ríflega helming á fjórum kjörtímabilum. Fækkunin er misjöfn ef tímabilið er skoðað í heild. Fróðlegt er að skoða kjörtímabilin á þessu tímabili, með tilliti til þróunar sveitarfélaga Hér fer á eftir listi yfir fækkun þeirra:

1990 – 94: 33
1994 – 98: 47
1998 – 02: 19
2002 – 06 ?

Af þessu má ráða þróunina. Ljóst er að fækkun verður á þessu kjörtímabili. Það sem þegar liggur fyrir bendir til að sveitarfélögin verði ekki fleiri en um 90 við næstu kosningar. Átakið í haust mun skera úr um hver talan verður endanlega.

Þetta gengur ágætlega og eðlilega

Þetta sýnir að þróunin er tvímælalaust í átt til færri sveitarfélaga. Fólkið sjálft ræður ferðinni og mótar hana með hliðsjón af hagsmunum sínum. Þannig á þetta að vera. Menn eiga ekki að reyna að reka tryppin hraðar. Þetta gengur ágætlega og eðlilega. Við eigum ekki að þröngva íbúunum til einhvers í þessum efnum sem þeir ekki vilja. Þvinguð sameining er óskaplegur vandræðagripur, sem engu skilar nema úlfúð og vandræðum.

Hitt er ljóst að sameining sveitarfélaga og stækkun þeirra getur verið forsenda fyrir meiri verkefnum þeim til handa. Það er því eðlilegt að ríkið reyni að greiða fyrir því með almennum aðgerðum. Það er í anda skynsamlegrar og lýðræðislegrar aðferðar að auka vægi sveitarfélaga. Það er valddreifing og liður í því að færa ákvarðanir nær fólkinu í landinu. Þess vegna er það eðlilegt pólitískt markmið í sjálfu sér. Og þá vaknar spurningin. Hvernig getur ríkisvaldið stuðlað að slíku? Svarið er: Með tvennu, að mínu mati.

Átak í samgöngumálum á tilteknum svæðum

1. Sums staðar eru ekki landfræðilegar og samgöngulegar forsendur til sameiningar. Slíkt leiðir til þess að íbúar sem búa lengst frá eðlilegri stjórnsýslulegri þungamiðju hafi eðlilegar áhyggjur af stöðu sinni. Óttist að fá lakari þjónustu og að einangrast frá veigamiklum ákvörðunum. Það eru eðlilegar áhyggjur. Menn óttast að hagur þeirra verði því verri við sameiningu en án hennar. Þetta sjónarmið eiga menn að virða og viðurkenna. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að ríkisvaldið auki áherslur sínar á samgöngubætur. Reyni að hraða þeim. Þannig er rutt úr vegi þröskuldi gegn sameiningu.

Flytjum opinber störf út á land

2. Hitt atriðið er ennþá þægilegra og kostnaðarminna við að eiga, en skiptir ekki síður máli. Það liggur fyrir að sameining sveitarfélaga mun sums staðar beinlínis leiða til fækkunar starfa. Það er grafalvarlegt mál. Sveitarfélög á landsbyggðinni eru alla daga að berjast fyrir tilveru sinni með því að stuðla að nýjum og fjölbreytilegri störfum. Opinber störf eru hluti af því mynstri. Opinber störf auka fjölbreytni og skapa stöðugleika. Gallinn er sá að þeim er ójafnt dreift um landið. Ríkisvaldið hefur lagt áherslu á þá atvinnulegu uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu; byggðastefna með öfugum formerkjum, eins og það er kallað. Þegar það bætist við að sameining sveitarfélaga leiðir beinlínis til að hlutur tiltekinna svæða í opinberri atvinnusköpun minnkar, er eðlilegt að sveitarstjórnarmenn og íbúarnir hiki. Það væri í raun ábyrgðarhlutur gæslumanna hagsmuna í héraði, eins og sveitarstjórnarmenn eru, að leggja til sameiningu sveitarfélaga sinna ef það leiddi til þess að störfum fækkaði á svæðinu. Þarna getur ríkisvaldið unnið með. Það getur fært opinber störf til slíkra svæða. Flutt þau til og greitt þannig fyrir sameiningu sveitarfélaga, án þess að það kosti neitt sem nokkru nemi.

Einfalt mál

Sé það vilji manna að stækka sveitarfélög, efla þau og gera móttækilegri fyrir auknum verkefnum, þá eru til einfaldar leiðir - og ekki kostnaðarsamar – til þess. Leiðin er ekki átak að ofan, heldur almennari stefnumótun, í anda þess sem hér hefur verið lagt til. Þetta væri áhrifarík og óþvinguð leið og mjög í anda þeirrar stjórnarstefnu sem núverandi stjórnarflokkar hafa fylgt.

Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi