Grein

Einar Pétursson.
Einar Pétursson.

Einar Pétursson | 11.08.2005 | 17:02Bolvíkingum refsað fyrir dugnað og kjark

Sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði nýverið 4.010 þorskígildistonna byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2005/2006 sem er töluverð aukning frá fyrra ári þegar úthlutað var 3.200 þorskígildistonna byggðakvóta. Það er skoðun mín að sú aðferð sem viðhöfð er, að úthluta til byggðarlaga og gefa sveitarstjórnum kost á að gera tillögur til ráðuneytisins um skiptingu milli einstakra skipa, sé slæm og aðeins til þess fallin að skapa óeiningu í sveitarfélögunum. Ég hef reyndar ekki trú á að það finnist leið til þess að úthluta byggðakvóta milli byggðarlaga og skipa af nokkurri sanngirni þannig að flestir verði sáttir við niðurstöðuna. En þó tel ég að gera megi betur þegar ákveðnar eru forsendur fyrir skiptingu byggðakvóta á milli sveitarfélaga.

Í fréttum undanfarna daga hefur komið fram að í tveimur sveitarfélögum, af þremur, á norðanverðum Vestfjörðum hefur kvóti verið leigður í stórum stíl frá sveitarfélögunum en í því þriðja (Bolungarvík) hefur verið leigður mikill kvóti til sveitarfélagsins. Bolungarvík er eitt fárra sveitarfélaga á landinu og eina sveitarfélagið á Vestfjörðum sem verður fyrir skerðingu á þessum byggðakvóta milli ára. Því læðist að mér sá grunur að mönnum sé refsað fyrir dugnað og kjark þegar kemur að úthlutun byggðakvóta til sveitarfélaga.

Á fréttavef bb.is hafa verið settar fram tölur um kvótaleigu útgerða í sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum á yfirstandandi fiskveiðiári. Ef bornar eru saman tölur um þorskkvóta í sveitarfélögum, sést eftirfarandi. Útgerðaraðilar í Súðavík hafa leigt frá sér 234 tonn af 631 tonna þorskkvóta eða um 37% kvótans. Súðavík fær úthlutað 210 tonna byggðakvóta í ár sem er aukning um 60 tonn frá fyrra ári. Útgerðir á Ísafirði og í Hnífsdal hafa leigt frá sér 1.652 tonn af 6.111 tonna þorskkvóta eða um 27% kvótans. Ísafjarðarbær fær úthlutað 409 tonna byggðakvóta í ár sem er aukning um 199 tonn frá fyrra ári.

Í Bolungarvík hafa útgerðaraðilar hins vegar leigt til sín 2.159 tonn til viðbótar þeim 2.958 tonnum sem úthlutað var til þeirra í upphafi. Bolvískir útgerðaraðilar hafa þannig aukið þorskkvóta sinn um 73% á yfirstandandi fiskveiðiári með því að leigja til sín aflaheimildir en er svo refsað með tveggja tonna skerðingu milli ára. Bolungarvík fær úthlutað 98 tonna byggðakvóta næsta fiskveiðiár en fékk 100 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Bolvískum útgerðum er þannig refsað fyrir dugnað og kjark við að afla sér veiðiheimilda. Þess ber að geta að hér er um að ræða kvótaleigu allra útgerða í hverju sveitarfélagi en ekki tekið á kvótaleigu einstakra fyrirtækja.

Það hefur einnig verið umtalað hvað bolvískir útgerðaraðilar hafa sýnt mikinn dug undanfarin ár með því að kaupa mikinn kvóta og fyrirsagnir í blöðum hafa verið á þann veg að Bolvíkingar hafi endurheimt kvótann. Er þar vísað til þess að þorskkvóti Bolvíkinga fór lægst niður í 900 tonn árið 2000 en er nú að nálgast 4.000 tonn.

Til hamingju Bolvíkingar.

Einar Pétursson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi