Grein

Jóhann Magnús Elíasson.
Jóhann Magnús Elíasson.

Jóhann Magnús Elíasson | 09.08.2005 | 13:34Væl, vol og ósannindi

Enn einu sinni kom Ásbjörn Björgvinsson „vælandi“ í útvarpið og sagði að hvalveiðar Íslendinga sköðuðu ferðaþjónustuna. Í þetta sinn voru það ekki eingöngu hvalaskoðanir sem sköðuðust heldur ferðaþjónustan í heild sinni. Ekki frekar en áður rökstuddi hann þessa fullyrðingu sína á nokkurn hátt, heldur sló hann þessum rakalausa þvættingi fram, hann virðist halda að við sem hlustum látum bara „mata“ okkur á hvaða þvælu sem er og „gleypum“ við öllu sem sagt er án umhugsunar.

Hann virðist hafa gleymt skýrslu Ferðamálaráðs. Niðurstaða hennar var sú að hvalveiðar hefðu engin áhrif á ferðaþjónustuna. Honum til upplýsingar eru þeir þættir sem helst hafa áhrif á ferðaþjónustuna; gengismál, veðurfar, markaðssetning á vörum og þjónustu, almennt verðlag, afþreyingarmöguleikar og ferðamöguleikar til og frá landinu. Þá er það skondinn hlutur, en hvalaskoðunarmenn hafa verið mikið í því að segja að ekki sé neinn markaður fyrir hrefnukjöt innanlands, en nú bregður svo við að ekki er hægt að anna eftirspurn eftir þessari vöru og ef svo heldur fram sem horfir eru allar líkur á að það þurfi að fjölga þeim dýrum sem má veiða.

Almenningur er búinn að átta sig á því hversu gott hráefni er þarna um að ræða og einnig ódýrt. En það er ekki úr vegi að ræða þá gríðarlegu fjölgun hvala sem orðið hefur við strendur landsins þau ár sem hvalveiðar hafa verið bannaðar. Greinilegt er að náttúran ber ekki þessa gríðarlegu fjölgun og sést það best á því að æti er ekki til staðar fyrir allan þennan fjölda. Hrefnuveiðimenn hafa kvartað yfir því að hrefnan sé stygg og því erfitt að nálgast hana, sem kemur til af því að hún sé í litlu æti og dýrin séu horuð og magainnihald þeirra dýra sem hafa veiðst sé lítið. Því er nauðsynlegt að auka við þann fjölda dýra sem leyfilegt er að veiða og stórauka svo kvótann á næsta ári. Ekki kæmi mér á óvart að hvalaskoðunarmenn vildu láta banna loðnuveiðar, síldveiðar og þorskveiðar til þess að nægt æti yrði fyrir hvalina, en þeir hugsa ekki fyrir því að við þurfum að lifa hér á þessu landi, ekki getum við lifað á hvalaskoðunum því ekki er afkoman í greininni neitt til þess að hrópa húrra yrir og ekki hef ég trú á að afkoman batni. Þessu til staðfestingar skulum við skoða tölur frá árinu 2004:

Samkvæmt tölum frá Ferðamálaráði og frá Hvalaskoðunarsamtökum Íslands voru tekjur af hvalaskoðunum 1.900.000.000. Enginn ágreiningur er um þessa tölu (ekki svo mér sé kunnugt um) en hins vegar segja heimildir Ferðamálaráðs að farþegar í hvalaskoðunarferðir hafi verið 72.200 en Hvalaskoðunarsamtök Íslands segja fjölda farþega hafa verið rúmlega 81.000 (hvernig á þessum mismuni stendur veit ég ekki). Samkvæmt tölunum frá Ferðamálaráði hefur hver farþegi í hvalaskoðunum skilið eftir tekjur til þjóðfélagsins sem nema 26.316 Íkr., en samkvæmt Hvalaskoðunarsamtökum Íslands hafa tekjurnar af hverjum farþega verið 23.457 Íkr. Til þess að taka af allan vafa þá er þarna um heildartekjur að ræða þ.e.a.s eftir er að taka þarna af fargjald til hvalaskoðunarbátanna,sem var, árið 2004 að meðaltali, 3.700 Íkr. fyrir fullorðna og 1.600 Íkr. fyrir börn. Þá er að reikna út heildartekjur hvalaskoðunarfyrirtækjanna og verður byrjað á því að styðjast við fjölda farþega skv. Ferðamálaráði, einnig verð ég að gefa mér forsendur, en mér þykir ekki fjarri lagi að áætla að 60% farþega hafi greitt fullorðinsgjald og þá 40% þeirra hafi greitt barnagjald. Miðað við 72.200 farþega voru tekjurnar sem hér segir:

160.284.000 fyrir fullorðinsgjaldið
46.208.000 fyrir barnagjaldið
206.492.000 Var þá heildarveltan skv. Ferðamálaráði.

En miðað við 81.000 farþega voru tekjurnar:

179.820.000 fyrir fullorðinsgjaldið
51.840.000 fyrir barnagjaldið
231.660.000

Var þá heildarveltan skv. Hvalaskoðunarsamtökum Íslands. Svo getur fólk velt því fyrir sér hvort líklegt sé að þessar tekjur geti staðið undir öllum þeim kostnaði sem til féll, hvor talan sem tekin er gild. Í það minnsta þykir mér ekki fara mikið fyrir þessum „blómlega“ atvinnuvegi, sem hvalaskoðunarmenn eru alltaf að tala um. Ef þessar tölur eru skoðaðar læðist að manni það að hvalaskoðunarmenn ættu að snúa sér að einhverju öðru sem gæti kannski skilað einhverjum arði, kannski ættu þeir að leggja stund á hvalveiðar, þegar þær verða leyfðar?

Jóhann Elíasson, fyrrverandi stýrimaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi