Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

| 20.04.2000 | 10:43Sjáið frábæra sýningu!

Ég fór á leiksýningu fyrir stuttu. Ég vissi ekki hvað ég var að fara að sjá, en í stuttu máli þá varð ég yfir mig hrifin. Þetta er sýning Litla leikklúbbsins á Fuglinum í fjörunni eftir David Wood, í þýðingu Guðjóns Ólafssonar. Ég hef ekki kynnst verkum leikstjórans Elfars Loga fyrr, en þessi sýning sýndi mér að hann er alveg frábær leikstjóri. Sýningin rann leikandi létt og var ekki annað að sjá en að hér væru alvanir leikarar á ferð. Allir stóðu sig frábærlega vel. Það er alveg sama hvar maður ber niður, sýningin stóð pottþétt og falleg allan tímann. Hvergi hökt eða hiksti.
Sumir leikarar voru alvanir eins og Finnur Magnússon, sem var skemmtilegur sem einbúakrabbinn. Aðrir voru að stíga sín fyrstu skref s.s. Júlíana Ernisdóttir (Krossa frænka), sem lék af mikilli röggsemi og styrk og Tinna Gunnarsdóttir sem hrekkjóttur Oddi ígulker. Mávurinn Gísli Samúelsson var skemmtilega fuglslegur, Guðjón Ólafsson var hreint óborganlegur sem Brákin mikla og engu síðri var vinkona hans Drullan sem Linda Pétursdóttir leikur og kræklingurinn var alveg ótrúlega góður í höndum Þrastar Ólafssonar. Þarna voru einnig púkar og sæverur sem skiluðu sínu vel. Og svo voru hafmeyjar sem sungu svo að það minnti á Loreley forðum.

Tinna Ólafsdóttir, Svanhildur Garðarsdóttir og Telma Kristinsdóttir voru yndislegar. Skemmtileg var notkun leikstjórans á tónlist við innkomur Sæfífilsins. Tónlistinn var saminn af Kristni Níelssyni og var hún ágæt og féll vel að leiknum. Hann og ungur Ísfirðingur, Tómas Jónasson, sáu um tónlistina sem setti mikinn og góðan svip á sýninguna. Einnig voru ljósa- og tæknimálin í góðum höndum Sveinbjörns Björnssonar. Þar hélt líka um stjórnvölinn á sýningunni ungur aðstoðarmaður hans, Friðþjófur Þorsteinsson og gerði það skínandi vel. Sminkan Kristjana brást ekki heldur í þetta sinn. Og ég verð að minnast á Þórunni Jónsdóttur sem stendur eins og ,,ballest“ í hverri sýningu og saumar ,klippir, límir, bakar, huggar, hughreystir, og er alltaf til staðar.

Ein nýbreytni var tekin upp í þessu leikriti en það var að fá sérstakan sviðshönnuð. Það verður að segjast eins og er að það setti punktinn yfir i-ið í þessari frábæru sýningu. Leikmynd og búningar undirstrikuðu allt hitt. Þetta mun vera fyrsta leikverk Þorbjargar Sigurðardóttur og hún sýndi svo sannarlega að þar er manneskja á ferð sem kann sitt fag. Það hefur ekki verið auðvelt mál að sýna okkur inn í heim sjávarins og dýrin sem þar lifa, en í hennar höndum varð þetta hreint listaverk, sem eins og ég sagði áðan setti punktinn yfir i-ið.

Þið haldið kannski að ég sé að ýkja þegar ég skrifa svona, en ég get svarið það að þessi sýning er alveg hrein unun. Í lokin þegar allur salurinn, konur, karlar og börn eru farin að taka virkan þátt í leiknum með leikurum af þörf, en ekki kurteisi, sannar mitt mál. Litli leikklúbburinn hefur á að skipa í dag, mörgum góðum mönnum og konum sem kunna vel til verka sem leikarar leikstjórar, í ljósum og tæknikunnáttu, sminkun, búningasaumi og leikmyndagerð. Við eigum greinilega líka ungt fólk sem kemur ferskt inn og það verður spennandi að fylgjast með því í framtíðinni.

Eitt að lokum ágætu Ísfirðingar. Ég hvet ykkur til að fara í Félagsheimilið í Hnífsdal og sjá þetta leikrit. Þið þurfið ekki að fá lánað barn til þess. Þið skulið bara taka með barnið í ykkur sjálfum. Ekki missa af leiknum, og þið farið heim létt í hjarta og sinni. Sýningin gefur manni mikið vegna þess hve frábær hún er og vel unnin að öllu leyti, og að auki er hún næstum því ekta vestfirsk. Litli leikklúbburinn hefur oft sýnt að hann er í fremstu röð leikfélaga hér á landi og þessi sýning segir mér að þar á hann ennþá heima. Þann 24 apríl n.k. verður Litli leikklúbburinn 35 ára. Þetta leikrit er góð afmælisgjöf. Til hamingju með þessa yndislegu sýningu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi