Grein

Halldór Hermannsson.
Halldór Hermannsson.

| 20.04.2000 | 10:40Viðhorf eftir Vatneyrardóm

Rakarinn minn sagði nú á dögunum að sig hefði hálft í hvoru undrað að ekki skyldu sjást flögg í hálfa stöng á húsum hér á Ísafirði þann 7. apríl sl. eftir að hæstaréttardómur í Vatneyrarmálinu birtist. Mér fannst þessi skoðun hans vel skiljanleg.
Við Katrín fengum okkur göngutúr um bæinn að kvöldlagi fyrir stuttu. Eftir því sem á leið göngutúrinn fór Katrín að hafa orð á því að ég væri óvenju niðurlútur og innti mig eftir hverju þetta sætti. Ég svaraði á þá leið að ekki væri undarlegt þótt svo væri, hér sæist ekkert skip við hafskipabryggjurnar. Er svo flesta daga núorðið. Í smábátahöfninni er talsvert af bátum sem flestir eru ekkert að gera. Stóru fiskiskipin eru flest öll horfin á braut og sjómenn ganga margir atvinnulausir, þeir sem ekki eru þegar farnir.

Rækjuverksmiðjurnar eru hættar störfum og sú eina sem eftir er hefur verið verkefnalaus nokkurn tíma. Frystihúsin tvö, Norðurtanginn og Íshúsfélag Ísfirðinga, sem voru með glæsilegustu fiskverkunarhúsum landsins stara nú tómum gluggum út á götuna. Tilvalið fyrir Hrafn Gunnlaugsson að gera þar kvikmynd sem hann gæti kallað Blóðrautt sólarlag II.

Dauft er yfir veiðarfæraþjónustu og sölu. Vinna og þjónusta vélaverkstæða við skipa- og bátaflotann er orðin sáralítil. Útsvarstekjur bæjarsjóðs hrapa. Ég hafði á orði við Katrínu að kannski færi ég á morgun að fá mér bjartsýnisbað hjá bæjarráði. Ég taldi upp á að þar hefðu þau bjartsýnisþulu á geisladiski fyrir menn að hressa sig á. Það er fátt um fína drætti aðra þar á bæ.

Það er átakanlegt að svona skuli vera komið fyrir þessum annars ágæta bæ. Hér er gott að ala upp börn. Hér er menntun í góðu lagi, bæði fyrir börn, unglinga og ungmenni. Hér er næg afþreying fyrir þá sem það vilja, skíðaíþróttir, golfíþróttin í blóma, góðar sundlaugar víðast hvar, íþróttahús á flestum stöðum nýreist. Tónlistarhús í góðum húsakynnum. Á sumrum er hér fullt af afþreyingarmöguleikum bæði á landi og á sjó.

Í 1. grein laga um stjórn fiskveiða nr. 38 frá 1990 segir m.a.: ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra, og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.? Vert er að undirstrika þetta markmið“ að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.? Við skulum nú skoða á hve afdrifaríkan hátt þetta hefur breyst.

Tökum dæmi um frjálsa framsalið í stóra aflamarkskerfinu. Á Ísafirði eru 2/3 hlutar aflaheimilda horfnar á braut. Það er gjörsamlega horfið á Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Bolungarvík, og að mestu frá Drangsnesi og Hólmavík. Nú vaknar sú spurning hvort ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart þeim stöðum sem veiðiheimildir hafa horfið frá, þar sem áðurnefnt markmið 1. greinar fiskveiðilaga hefur í engu náð tilgangi sínum. Það væri æskilegt að lögfróðir menn skoðuðu þetta dæmi. Hvernig væri að bæjarráð Ísafjarðarbæjar skriði undan feldinum, hristi af sér slenið, skoðaði allar hliðar þessa máls og önnur úrræði jafnframt, þessum bæ til einhverrar bjargar. Við göngum eftir botninum og nú verða einhverjar útgönguleiðir að finnast.

Atvinnulífið á komandi sumri er býsna dökkt. T.d. er námsfólk í framhaldsskólanum hér mjög uggandi um afkomu sína. Einn þeirra hafði á orði við mig að hann sæi ekki annað fyrir sér en verða að fara suður á land að leita sér þar atvinnu og myndi þá væntanlega í framhaldi af því ljúka sínu stúdentsprófi í Reykjavík. Það er ekki að undra að unga fólkið í bænum líti til annarra staða sér til framfærslu.

Í vangaveltum Hæstaréttar í Vatneyrarmáli bendir hann Alþingi á að taka mætti upp veiðileyfagjald. Hafa margir gripið það á lofti sem einhverja útgönguleið til sátta. Enda þótt lagt yrði á auðlindagjald eitt og sér í dag, næði það engan veginn að rétta af þau vandræði sem af núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hafa hlotist. Þær byggðir sem nú eru í þroti myndu ekki rétta af þó svo yrði gert.

70% þjóðarinnar er andsnúin kvótakerfinu. Hvað er nú til ráða? Fljótt sagt virðist eina leiðin vera sú að kjósendur sendi stjórnarflokkunum skýr skilaboð með því að kjósa þá ekki í næstu alþingiskosningum. Þó ekki væri nema eitt kjörtímabil eða svo, til þess að kenna þeim að taka upp lýðræðisleg vinnubrögð.

Föstudaginn 7. apríl eftir


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi