Grein

Örn Pálsson.
Örn Pálsson.

Örn Pálsson | 20.07.2005 | 11:40Vestfirðingar sjá eftir sóknardagakerfinu

Á fréttavefnum bb.is hafa alþingismennirnir Sigurjón Þórðarson og Einar Oddur Kristjánsson tjáð sig um að þriðjungi minni þorskur barst til Vestfjarðarhafna í júní sl. en í sama mánuði í fyrra. Þingmennirnir eru sammála að minni þorskafla megi að mestu rekja til þess að sóknardagakerfi smábáta var afnumið. Undirritaður er því sammála.

Af símtölum frá Vestfjörðum á skrifstofu LS má vel merkja hversu mikil áhrif það hefur haft að sjávarútvegsráðherra ákvað fyrir rúmu ári að leggja fram frumvarp þess efnis að sóknardagakerfi smábáta yrði lagt af. Í samtölunum kemur fram að fólk saknar þess áþreifanlega þegar trillukarlar í sóknardagakerfi komu í hópum vestur á firði. Fylltu hafnirnar og mynduðu biðraðir undir löndunarkrönunum. Mynduðu sitt samfélag í höfninni og krydduðu mannlífið með nærveru sinni. Allt þetta hvarf þegar Alþingi samþykkti frumvarp sjávarútvegsráðherra 28. maí 2004.

Einar Oddur harmar að kerfið hafi verið afnumið og segir það hafa verið gert „vegna þess að Landssamband smábátaeigenda vildi það.“ Einar Oddur! Þú veist betur. Hugur forystu LS stóð alltaf til þess að varðveita sóknardagakerfi smábáta. Áralangar viðræður við sjávarútvegsráðherra gengu alla tíð út á það eitt að varðveita kerfið. Veiðikerfi sem gerði þeim aðilum sem fremstir voru meðal jafningja mögulegt að hasla sér völl innan sjávarútvegsins. Krafa LS var einföld, fellt yrði úr gildi það ákvæði laganna að dögum mundi fækka árlega um 10% samhliða því að afkastaaukning í kerfinu yrði stöðvuð. Þrátt fyrir hóværa kröfu LS komst sjávarútvegsráðherra upp með að hunsa hana, væntanlega í krafti þess að hann hafði tök á sínum mönnum.

LS harmar það enn að sóknardagakerfið yrði aflagt og hafði margsinnis varað við þeim áhrifum sem nú eru Vestfiðingum sérstaklega ljós.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri, Landssambands smábátaeigenda.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi