Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 19.07.2005 | 13:33Draumastaðurinn Reykjanes

Við hjónin fengum í afmælisgjöf í fyrra, helgarferð í Reykjanes. Ég varð afskaplega glöð með þessa frábæru gjöf, og hlakkaði mikið til að notfæra mér það góða boð. Við fórum svo í vor, og það verður að segjast alveg eins og er, að við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Það var virkilega dekrað við mann á þessum, frá náttúrunnar hendi frábæra stað. Laugin hefur náttúrulega stærsta aðdráttaraflið, en þar sem þetta var einmitt sömu helgi og söngvakeppni sjónvarpsstöðva, og ég er forfallinn, þá var ekki verra að þarna var sjónvarp og allar græjur. Við fengum meira að segja snakk og salat upp í svítuna.

Ég er ekki viss um að allir Ísfirðingar og nágrannar geri sér grein fyrir því, að við eigum þessa perlu í næsta nágrenni við okkur. Ég hef farið þarna að vetri til, og ekki minnkar aðdráttarafl laugarinnar þá, að sitja í notalega heitu vatninu og horfa upp í stjörnubjartan himininn, nú eða finna myrkrið umlykja mann og snjódrífuna í andlitið. Eina sem þarf að takast á við, er að hlaupa til og frá sturtuklefanum, en það er bara áskorun.

Þarna er líka tilvalið að fara í helgarferð að sumri til, með börnin, eða barnabörnin, stutt að fara, og láta starfsfólk dekra við sig í mat og drykk, eða bara fara með tjaldið, og hafa með sér nesti. Láta þreytuna líða úr kroppnum, stressið hverfa, og vera tilbúin að takast á við nýja viku. Nýtum okkur það sem er í næsta nágrenni. Ef svo ber undir, förum ekki yfir lækin til að sækja vatnið.

Ég vil þakka kærlega fyrir mig. Þarna er gott og elskulegt starfsfólk, friður og ró. Og svo auðvitað sundlaugin.

Með sumarkveðjum, Ásthildur Cesil.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi