Grein

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinsson | 13.07.2005 | 16:26Sjálfskipaður riddari sannleikans og loforðin hans

Hjálmar Árnason alþingismaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins fer hamförum í hverjum pistlinum á fætur öðrum á heimasíðu sinni. Þar reynir hann í augljósri örvæntingu að hvítþvo Framsókn af spillingarstimplinum sem loðir við flokkinn. Einkum beitir þingflokksformaðurinn spjótum sínum af Samfylkingunni og þingmönnum hennar. Nú ætla ég ekki að fara að skjóta skildi fyrir Samfylkinguna. Hún getur varið sig sjálf. Skrif Hjálmars, innblásin af ást á góðum gildum eins og sannleika og heiðarleika, hafa hins vegar orðið mér innblástur til að stinga niður penna.

Hræðsluáróður og loforðaflaumur

Þegar baráttan fyrir alþingiskosningarnar fyrir réttum tveim árum síðan stóð sem hæst, þá skrifaði Hjálmar grein sem bar titilinn „Sjávarútvegur án kollsteypu“. Þessi grein var eins konar samantekt á málflutningi Framsóknarmanna um sjávarútvegsmál í kosningabaráttunni. Í henni fann þingmaðurinn tillögum Samfylkingar og Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum allt til foráttu og fór síðan skilmerkilega yfir þá „ábyrgu“ stefnu sem Framsóknarflokkurinn ætlaði að framfylgja til að forða sjávarbyggðum þessa lands frá kollsteypum og hörmungum stjórnarandstöðunnar.

Hjálmar Árnason skrifaði meðal annars: „Framsóknarflokkurinn vill bæta núverandi kerfi. Við viljum breytingar án kollsteypu. Hvað viljum við gera?

- Hækka veiðiskyldu upp í 85%. Þeir veiða sem fá úthlutað.
- Taka upp línuívilnun með landbeitingu.
- Setja gólf fyrir dagabáta í krókakerfinu.
- Skoða kosti og galla færeyska kerfisins (tillaga mín um það var samþykkt á Alþingi í vor). Eftir úttektina getum við svo tekið afstöðu til þess hvort skynsamlegt sé að taka upp kerfið.
- Banna flottroll á loðnuveiðum vegna hlutverks loðnu í fæðuöflun.
- Endurskoða fiskveiðiráðgjöfina með aðild fleiri en Hafró.

Þá finnst mér vel skoðandi að við næstu endurúthlutun verði úthlutað til þeirra sem veiddu aflann – þ.e. svokallaðir leiguliðar fá úthlutað á grundvelli veiðireynslu en ekki þeir sem leigja frá sér.Með þessu viljum við bæta kerfið án þess að valda kollsteypu og öngþveiti í sjávarplássum. Hafa ber einnig í huga að nú virðist þorskstofninn vera að rétta úr kútnum. Bjartari tímar kunna að vera framundan með vaxandi afla og um leið meiri möguleikum í sjávarútvegi. Notum það tækifæri með á jákvæðan hátt en hleypum ekki öllu í öngþveiti“.

Hverjar eru efndirnar?

Ef litið er á loforðalistann er ljóst að fátt hefur verið efnt. Ekkert hefur verið hreyft við veiðiskyldu. Línuívilnunin var efnd með miklum endemum þannig að allir voru hundónægðir. Ekkert gólf var sett í fjölda veiðidaga fyrir svokallaða dagabáta. Hins vegar voru settir kvótar á þessa báta fyrir réttu ári, með þeim afleiðingum að atvinnu- og mannlíf í minnstu sjávarbyggðunum hefur orðið fyrir þungu höggi sem komið hefur fram af þunga í sumar. Kosningaloforð Framsóknarflokksins um að verja dagatrillurnar var því svikið. Sem nefndarmaður í sjávarútvegsnefnd og formaður þingflokks var Hjálmar Árnason einn af þeim sem stóðu fremstir í flokki fyrir því að koma trillunum í kvóta. Þar útvegaði hann tengdasyni sínum sem var einn þeirra trillukarla sem þrýstu á kvótasetningu, í leiðinni kvóta fyrir um 40 milljónir króna. Ég ætla ekki að fullyrða að Hjálmar Árnason hafi verið vanhæfur í þessari lagasetningu, frekar en formaður Framsóknarflokksins í aðkomu hans að því að hirða Búnaðarbankann fyrir smá pening og koma honum meðal annars í hendur sínar og eigin skyldmenna.

Hjálmar Árnason gerði mikið úr því að hann hefði fengið Alþingi til að samþykkja tillögu um að gera úttekt á kostum og göllum færeyska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Þarna laug Hjálmar að kjósendum og komst upp með það. Þessi tillaga var nefnilega aldrei endanlega samþykkt af Alþingi. Hún fór í gegnum eina umræðu og meðferð sjávarútvegsnefndar og síðan ekki söguna meir. Í dag standa mál þannig að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt þessa tillögu fram ásamt Jóni Gunnarssyni þingmanni Samfylkingar. Það gerðum við í vetur leið, og munum endurtaka næsta vetur.

Hvað varðar bann við flottrollsveiðum á loðnu, endurskoðun fiskveiðiráðgjafar og það að bæta ömurlega stöðu leiguliða í kvótakerfinu; - þá er ekkert um efndir. Enda hefur Framsóknarflokkurinn ekki minnsta áhuga á að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Forysta flokksins veit hverra hagsmuna hún er að gæta.

Allt á verri veg

Hjálmar talaði um að Framsókn vildi bæta kvótakerfið án þess að „valda kollsteypu og öngþveiti í sjávarplássum“. Fólkið sem býr í þessum plássum veit hvað hefur gerst frá síðustu Alþingiskosningum. Stöðugt sígur á ógæfuhliðina, meðal annars vegna þess að Framsóknarflokkurinn svíkur kosningaloforðin. Fjölmargir staðir hafa lent í vandræðum. Raufarhöfn, Siglufjörður, Bíldudalur, Stöðvarfjörður; - bara svo nokkur dæmi séu nefnd. Hjálmar og fleiri ríkisstjórnarliðar töluðu meira að segja um að þorskurinn væri að rétta úr kútnum vorið 2003. Við vitum hvernig það fór. Stofninn og veiðar í sögulegu lágmarki og engar horfur á bata í fyrirsjáanlegri framtíð.

Já, svona fer þegar of margir taka mark á Framsóknarmönnum. Ætlar fólk að láta ljúga að sér, eina ferðina enn?

Magnús Þór Hafsteinsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi