Grein

Dr. Ívar Jónsson.
Dr. Ívar Jónsson.

Dr. Ívar Jónsson | 28.06.2005 | 09:46Frá háskólasetri til háskóla – framtíðarsýn

Vestfirðingar náðu mikilvægum árangri með stofnun háskólaseturs á Ísafirði. Ef í framhaldinu tekst að stofna Háskóla Vestfjarða verður hann einn mikilvægasti þátturinn í að þróa hefðbundið frumframleiðslu hagkerfi á svæðinu áfram og skapa forsendur fyrir öflugu þekkingarhagkerfi á Vestfjörðum. Þetta markmið verður ekki að veruleika að sjálfu sér. Menn þurfa að hafa skýra framtíðarsýn og beita stjórnvöld öflugum þrýstingi með öllum ráðum. Sú hætta er ávallt til staðar að annars vegar verði háskólasetrið ekki annað en þekkingarsetur eins og menntamálaráðherra ætlaði sér í upphafi og hins vegar að staðarnám þróist ekki sem skyldi þannig að setrið verði fyrst og fremst umboðsaðili fyrir fjarnámsstarfsemi háskólanna í landinu. Öflugt staðarnám á Vestfjörðum er mikilvæg forsend þess að þekking eflist og haldist á svæðinu og rannsóknasamfélag þróist þar. Í þessari grein verður gerð framtíðarsýn og aðgerðum sem gætu reynst gagnleg í baráttunni fyrir ha´skóla á Vestfjörðum.

I. Almenn framtíðarsýn

Háskólasetur Vestfjarða (HSV) er vettvangur kennslu og rannsókna á háskólastigi. Allt frá upphafi starfsemi HSV verður markmiðið að vera háskóli verði stofnaður innan þriggja ára. Markmiðið verður að vera nám og rannsóknir sem að gæðum eru eins og best gerist í háskólum nágrannalanda Íslands. Setrið byggir á sérstakri staðbundinni þekkingu og sérstöðu atvinnulífs Vestfjarða, en leggur jafnframt áherslu á fræðasvið og rannsóknir sem efla samfélag og mannlíf á Vestfjörðum.

Afar mikilvægt er að gæðakröfur séu miklar hvað varðar kennslu og rannsóknir við HSV. Setrið hefur ekki þann orðstýr sem háskólastofnun sem aðrar háskólastofnanir hér á landi hafa áunnið sér. Góður orðstýr er ein af grunnforsendum aukinnar eftirspurnar eftir námi við Háskóla Vestfjarða í framtíðinni.

Út frá byggðapólitískum markmiðum og með tilliti til þekkingarlegra og efnahagslegra margföldunaráhrifa er mjög mikilvægt að staðarnám við setrið byggist hratt upp. Í því sambandi er mikilvægt að náið samstarf verði við þær rannsóknarstofnanir og þróunarsetur sem til staðar er á Ísafirði.

II. Eftirspurn - nemendafjöldi

Nemendur HSV í framtíðinni má flokka í sex megin hópa: 1) Þeir sem sækja sér simenntun, 2) þeir sem stunda aðfaranám/frumgreinanám til að öðlast réttindi til háskólanáms við HSV, 3) þeir sem koma beint úr framhaldsskólum með stúdentspróf og hefja háskólanám við HSV, 4) Þeir sem hefja háskólanám við HSV og koma úr Frumgreinadeild HSV, 5) þeir sem stunda fjarnám við aðra háskóla og 6) þeir sem koma frá svæðum utan Vestfjarða og munu ýmist sækja staðarnám eða dreifnám við HSV.

1) Fræðslumiðstöð Vestfjarða heldur yfir 40 símenntunarnámskeið á ári sem skipulögð eru í yfir 80 námshópum. Þátttakendum fjölgar stöðugt milli ára og má varlega áætla að þeir verði yfir 800-1000 á ári í framtíðinni.

2) Þörf er á skipulögðu aðfaranámi eða frumgreinanámi sem veitir rétt til náms á háskólastigi við HSV og síðar Háskóla Vestfjarða. Slíkt nám ætti að vista í Fræðslumiðstöð Vestfjarða, en deildarstjóri símenntunar myndi hafa yfirumsjón með frumgreinanáminu í nánu samstarfi við deildarstjóra háskólamenntunar. Eins og kemur fram hér að neðan gætu meira en 60 einstaklingar sótt um slíkt nám á ári sem yrðu skipulagt sem staðar- og dreifnám.

3-4) Stefna ber að því að formlegu háskólanámi við HSV og að nemar útskrifist frá setrinu með háskólagráðu HSV. Í fyrstu atrennu yrði gráðan 60 eininga diplóma eða ‘grunnnámsgráða’. Síðan bætist BA/BS-gráða ofan á og loks meistaragráða.

Nemendum sem myndu útskrifast með formlega háskólagráðu má skipta upp í tvo hópa, þ.e. þá sem koma beint úr framhaldsskólum og þá sem hefja nám eftir námshlé .

a) Innstreymi úr framhaldsskólum
Menntaskólinn á Ísafirði (MÍ) útskrifar nú yfir 70 stúdenta á ári. Með sveigjanlegu grunnnámi á HSV og síðar Háskóli Vestfjarða möguleika á að u.þ.b. 50 stúdentar frá MÍ hefji árlega staðarnám við setrið. Til viðbótar gætu 10-30 stúdentar annars staðar af landinu stundað dreifnám við setrið. Hópur nýstúdenta gæti því orðið a.m.k. um 65 manns á ári.

b) Háskólanám eftir námshlé
b.i. Um 1250 einstaklingar á Vestfjörðum hafa lokið 1) styttra framhaldsnámi án stúdentsprófs, 2) námi sem ekki er lokið með háskólagráðu eða 3) iðnnámi eða hluta af framhalds¬skólanámi. Af þessum hópi eru um 400 á sunnanverðum Vestfjörðum. Háskólastofnun á Vestfjörðum á möguleika á að bjóða þessum hópi eins árs frumgreinanám sem veitir rétt til náms á háskólastigi við HSV. Námið má skipuleggja sem staðarnám og dreifnám sem hentar vel þeim sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum. Varlega áætlað á setrið möguleika á að fá 5-10% á ári næstu árin af þessum einstaklingum í nám eða 60-120 manns. Frumgreinastúdentar eru afar mikilvægir því þeir tryggja vel stöðuga eftirspurn eftir námi setursins á háskólastigi. Ef 60 stúdentar útskrifast á ári úr Frumgreinadeild myndu a.m.k. 40 þeirra hafa nógu há einkunn til að halda áfram í grunnnám við HSV

b.ii. Auk þeirra sem að ofan eru nefndir eru tæplega 220 einstaklingar með stúdentspróf á Vestfjörðum án þess að hafa lokið háskólagráðu. Dreifnám myndi frekar henta þessum einstaklingum en staðarnám því væntanlega eru flestir þeirra í fullri vinnu. E.t.v. gætu 5-10% þeirra viljað hefja háskólanám á ári hverju, þ.e. a.m.k 11 manns.

Miðað við nemendafjölda sem gert er ráð fyrir hér að ofan munu u.þ.b.116 innskrifast á fyrsta námsár háskólanáms á ári hverju. Af þessum 116 gætu 100 haldið áfram á BA/BS-stig og 80 á meistarastig. Á þessum þremur námsstigum gætu yfir 400 háskólastúdentar stundað nám (sjá Framkvæmdaáætlun í lok þessarar greianr). Þessir stúdentar myndu sækja námskeið á vegum HSV og síðar Haskóla Vestfjarða, jafnframt því sem þeir myndu sækja námskeið í fjarnámi við aðra háskóla.

5) Um þessar mundir eru um 160 einstaklingar á Vestfjörðum í fjarnámi við háskóla á Íslandi og e.t.v. víðar. Þessi fjöldi mun minnka, e.t.v. um helming eftir því sem sjálfstæð starfsemi Háskóla Vestfjarða eflist og nemendur skrá sig í formlegt nám við stofnunina.

6) Loks má nefna hóp stúdenta sem koma frá svæðum utan Vestfjarða og munu ýmist sækja staðarnám eða dreifnám. Fjöldi þessara stúdenta getur verið mjög sveiflukenndur og erfitt að áætla hann, en 50 stúdentar gætu verið nærri lagi þegar nýstúdentar eru meðtaldir.

Miðað við áætlunina hér að ofan um fjölda stúdenta á háskólastigi á Vestfjörðum gætu þeir orðið 400-500, en þar að auki bætast við frumgreinanemar og símenntunarnemar.

III. Námsframboð og kennslufræði

Námsframboð HSV og síðar Háskóla Vestfjarða ætti að taka mið af sérstakri staðbundinni þekkingu og sérstöðu atvinnulífs Vestfjarða. Jafnframt ætti áherslan að vera á fræðasvið og rannsóknir sem efla samfélag og mannlíf á Vestfjörðum. Ef takast á að stofna háskóla á Vestfjörðum á grunni HSV innan 3 ára þarf skipulag námsins og námsframboð að vera sveigjanlegt. Sveigjanlegt nám í smárri háskólastofnun í örum vexti er hægt að skipuleggja með vel skilgreindum klasa af kjarnafögum og mismunandi brautum sem bjóða upp á sveigjanleika. Til að byrja með má bjóða upp á 60 eininga diplómanám í þremur deildum, þ.e. Félags- og hagvísindadeild, Hugvísinda- og menningardeild og Tæknifræðideild. Kenna má ýmis kjarnafög í hverri deild sameiginlega eins og lýst er hér að neðan.

Mikilvægt er að kennslufræði námsins sé ígrunduð í samhengi við námsskipulag og markhópa. Þörf er á að ná til stúdenta sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum ekki síður en á norðanverðum Vestfjöðrum. Heppilegt er strax í upphafi að tekin sé ákvörðun um að fyrirlestrar og verkefni séu bæði kennd í staðarnámi og dreifnámi og að viðeigandi tækni sé notuð þannig að vinna kennara nýtist sem best. Námsskjárkerfi það sem notað er á Bifröst og í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri byggir á því að verkefnum, endurgjöf kennara og einkunnum er skilað á námsskjá. Í námskeiðum fjarnáms eru fyrirlestrar með hljóðupptökum auk þess settir á námsskjá og stúdentar geta sótt fyrirlestrana þegar þeim hentar. Þetta fyrirkomulag er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda nám með vinnu. Kennslufræðilega er æskilegt að fjarnám sé skipulagt sem dreifnám þannig að stúdentar hittist á Ísafirði (eða annars staðar eftir aðstæðum) tvisvar á önn yfir vinnuhelgi og fái þannig tækifæri til að mynda félagsleg tengsl sín á milli og með kennurum. Samræður og fyrirspurnir eru stúdentum mikilvægar, en samveran á vinnuhelgi er ekki síður mikilvæg til að draga úr þeim einmanaleik sem oft fylgir fjarnámi.

Hefðbundin kennsla í formi fyrirlestra og einstaklingsverkefna er að mörgu leiti úrelt í ljósi nútíma atvinnulífs. Félagsleg færni er mikilvæg, enda er lögð stöðugt meiri áhersla á teymisvinnu og góðan liðsanda í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Til að efla félagslega færni nemenda er mikilvægt að skipuleggja verkefnavinnu nemenda í formi hópverkefna ekki síður en einstaklingsverkefni. Við Háskólann í Hróarskeldu í Danmörku (Roskilde Universitets Center), hefur verið þróuð kennslufræði sem m.a. byggir á stóru hópverkefni stúdenta í hverju námskeiði sem þeir verja sem hópur. Verkefnið er skipulagt sem rannsóknaverkefni undir handleiðslu kennara. Byggja mætti á þessari kennslufræði, enda er ávinningurinn ekki aðeins aukin félagsleg færni stúdenta heldur einnig reynsla af þátttöku í rannsóknarverkefnum. Verkefnin hafa auk þess oft hagnýtt gildi fyrir atvinnulíf og nærsamfélag. Þetta kennslufyrirkomulag myndi styrkja samkeppnishæfni HSV og síðar Háskóla Vestfjarða gagnvart öðrum skólum.

IV. Deildir:

Með tilliti til hugmynda sem koma fram í Viðskiptaáætlun - Háskólasetur Vestfjarða 5 ára áætlun um vísindagreinar sem kenna á við HSV er æskilegt að gengið sé út frá skýru skipuriti og að starfsemin sé deildaskipt. Skipulagið sést í skipuritinu hér að neðan.Deildarstjóri símenntunar hefur yfirumsjón með Símenntunardeild og Frumgreinadeild, en síðarnefnda deildin er ætluð þeim nemendum sem ekki fullnægja inntökuskilyrðum um stúdentspróf og öðrum þeim sem vilja styrkja umsókn sína um nám á háskólastigi við HSVog síðar Háskóla Vestfjarða með eins árs undirbúningi í grunnfögum. Námsefni Frumgreinadeildar þarf að sérsníða þannig að það nýtist nemendum sem halda áfram í námi við deildir háskólaladeildirnar þrjár.

Deildarstjóri háskólamenntunar hefur yfirumsjón með Félags- og hagvísindadeild, Hugvísinda- og menningardeild, Tæknifræðideild og Fjarnámsdeild. Sameiginleg kjarnafög fyrir allar deildirnar yrðu forspjallsvísindi/vísindaheimspeki, aðferðafræði og tölfræði. Þessi grunnur yrði 15 einingar.

Í Viðskiptaáætlun - Háskóli Vestfjarða 5 ára áætlun (sjá hér að ofan) kemur fram að 32,8% Vestfirðinga kjósa raungreinar, verkfræði og iðngreinar sem fyrsta námsvalkost. Jafnframt kemur fram að 28,8% velja félags- og viðskiptagreinar. 16,7% velja heimspeki- og listgreinar.

Þær þrjár deildir sem gert er ráð fyrir í skipuritinu hér að ofan (Félags- og hagvísindadeild, Hugvísinda- og menningardeild og Tæknifræðideild) henta þessum hópum og svara til yfir 75% af fyrsta námsvalkosti Vestfirðinga. 60 eininga grunnnám við þessar deildir má skipuleggja þannig að ofan á sameiginleg 15 eininga kjarnafög fyrir allar deildirnar, bætast 45 einingar í námskeiðum sem eru á sérhæfðu sviði hverrar deildar, en geta að miklu leiti verið sameiginleg námskeið fyrir ólíkar brautir hverrar deildar: Í Félags- og hagvísindadeild: i. Rekstrarfræðigreinar (45 einingar); ii. Félagsfræði, stjórnmálafræði, hagfræði (45 einingar); iii. Fjölmenningarfræði (45 einingar) Í Hugvísinda- og menningardeild: Hugmynda- og menningarsaga (45 einingar). Í Tæknifræðideild: i. Almenn tæknifræði (45 einingar); ii. Rekstrartæknifræði (45 einingar).

Diplómanámið þarf að skipuleggja frá upphafi sem undanfara BA eða BS-náms sem er þriðja námsár á háskólastigi. Stúdentar myndu ljúka 7,5 eininga lokaverkefni og 22,5 einingum á sérhæfðu sviði viðkomandi deildar. Möguleiki er á að námið yrði á sviðum eins og: Í Félags- og hagvísindadeild: Viðskiptfræðum, Nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, Samfélagsfræðum, Fjölmenningarfræðum, Félags- og viðskiptafræði frístundastarfsemi; Í Hugvísinda- og menningardeild: Hugmynda- og menningarsaga og Rekstur menningarstofnana (námskeið í rekstrarfræðum); Í Tæknifræðideild: Sjávarútvegstæknifræði, Ergonomi (vinnustaðatæknifræði) og
Náttúrufræði (sjávarlíffræði).

Í byrjun yrði kennsla í mörgum námskeiðum að vera í formi handleiðslu, en eftir því sem stúdentum fjölgar taka fyrirlestrar við af handleiðslunni.

Í Viðskiptaáætlun - Háskóli Vestfjarða 5 ára áætlun er sagt að stefnt sé að því að fimm sérfræðingar starfi við kennslu og rannsóknir til viðbótar við þá sem fyrir eru núna starfandi og starfa hjá þeim stofnunum sem eiga aðild að Háskólasetri en eyða hluta af tíma sínum í að kenna frá Háskólasetrinu til háskóla innan lands sem utan. Með tilliti til kennslueiningafjölda gætu þessir aðilar gætu kennt stóran hluta af grunn- og BA/BS-náminu.

Auk þeirra þriggja deilda sem fjallað er um hér að ofan er gert ráð fyrir fjarnámsdeild í skipuritinu hér að ofan. Í fjarnámsdeildinni verða þeir stúdentar sem stunda formlegt fjarnám í öðrum háskólum, en fá margþætta þjónustu í háskólasetrinu.

Loks er rétt að nefna að á íslenskum vinnumarkaði í dag eru gerðar sífellt meiri kröfur um að starfsmenn hafi meistaragráðu. Krafan um slíka gráðu verður mun meiri eftir fimm ár en hún er í dag. Því er rétt að gert sé ráð fyrir að meistaranám sé undirbúið ekki síðar en á þriðja kennsluári. Víða erlendis eru sérstakar deildir innan háskólanna sem hýsa slíkt nám. Rannsóknanámsdeild (Post-Graduate) ætti að hefja starfsemi sína á fjórða kennsluári ef eftirspurn er fyrir hendi.

V. Rannsóknir – teymisvinna

Nýjar háskólastofnanir, hvort sem að eru háskólasetur eða háskólar, hafa ekki þann orðstýr sem eldri samkeppnisaðilar þeirra hafa. Það er því afar mikilvægt fyrir samkeppnisstöðu hinna nýju stofnana að rannsóknarstarf sé vel skipulagt og skilvirkt allt frá upphafi starfseminnar. Leggja ber áherslu á rannsóknarviðfangsefni innan HSV og síðar Háskóla Vestfjarða sem erfitt eða útilokað er að vinna með annarsstaðar og virkja vísindamenn sem starfandi eru á Vestfjörðum. Rannsóknarstarfsemin mun því að miklu leiti verða í samstarfi við rannsóknarstofnanir á svæðinu, enda mun stofnunin sækja sér stundakennara í raðir starfsmanna þeirra.

Mikilvægt er að sköpuð séu skilyrði fyrir myndun rannsóknateyma við stofnunina. Grundvallaratriði er að byggja á þeirri þekkingu sem starfsmenn búa yfir og leita leiða til að þekking þeirra dýpki. Æskilegt er að skipuleggja reglulega ‘leitarfundi’ eins og gert er í háskólum nágrannalandanna, þar sem akademískir starfsmenn koma saman og ræða kerfisbundið rannsóknarhugmyndir og raunhæfi þeirra..

Stofnunin verður einnig að gæta að því að veita stuðning þeim starfsmönnum sem taka þátt í rannsóknarverkefnum sem skipulögð eru af öðrum háskólum eða rannsóknarstofnunum.

Ef vel tekst til ætti að vera hægt að stofna sérstakt rannsóknasetur við stofnunina innan þriggja ára.

Í tengslum við rannsóknarstarfið þarf að leggja áherslu á samfélagshlutverk kennara, en með því er átt við framlag þeirra til samfélagsumræðu og þátttöku í stefnumótun samfélagsins. Slíka vinnu þarf að taka inn í starfsmat og tengja mati á rannsóknarstörfum.

VI. Háskólaráð

Þekkingarfyrirtæki eins og HSV og síðar Háskóli Vestfjarða einkennast af virkri þekkingarstjórnun, miklu frumkvæði starfsmanna og öflugu upplýsingastreymi. Við stofnunina þarf að koma á fót háskólaráði með fulltrúum akademískra starfsmanna sem hafa þar vettvang til að hafa áhrif á faglega þróun setursins, bæði með tilliti til rannsókna og kennslu. Jafnframt þarf að tryggja skýra verkaskiptingu milli framkvæmdastjórnar og akademískrar fagstjórnar. Stúdentar ættu að eiga fulltrúa í háskólaráði.

VII. Starfsmannahald

Innri markaðssetningu á störfum kennara innan skólans og deildar þarf að vera öflug. Innra upplýsingaflæði um þróun og starfsemi stofnunarinnar þarf að vera öflugt með það fyrir augum að efla teymisandann.

Einnig er mikilvægt er auglýsa stöður þegar leitað er að nýjum starfsmönnum svo að fjöldi umsókna um störf sé í hámarki og komið sé í veg fyrir tortryggni vegna ráðninga.

VIII. Samskipti við stúdenta

Innri markaðssetning stofnunarinnar þarf að vera öflug. Starf kennara, rannsóknir og ritstörf þarf að kynna kerfisbundið innan hennar og með markvissum hætti. Gera þarf kennurum og nemendum kleift að vinna sameiginlega að rannsóknarverkefnum.

Leggja þarf áherslu á reglulega fundi deildarstjóra með stúdentum með það fyrir augum að fyrirbyggja að vandamál verði að átakamálum. Slíkir fundir auka upplýsingaflæði og eru vettvangur þar sem nýjar hugmyndir kvikna og þróast.

IX Alþjóðatengsl

Frá upphafi þarf að huga að mögulegum stúdenta og kennaraskiptum við aðra háskóla. Samstarfsskóla þarf að velja þegar ljóst verður hver samsetning námsframboðs við stofnunina verður, þannig að sérstaða setursins styrkist enn frekar.

X. Háskóli og þekkingarsamfélag

Háskólasetrið mun í framtíðinni verða mikilvægur hluti af þekkingarsköpun og nýsköpunarkerfi Vestfjarða. Slík staða kemur ekki af sjálfu sér og því þarf að koma á og viðhalda með virkum hætti samstarfi setursins við rannsóknarstofnanir, þekkingarfyrirtæki og stoðkerfi atvinnulífsins á svæðinu.

XI. Velunnarakerfi – þrýstihópur

Velunnarar skipta miklu máli fyrir stofnanir. Þetta á sérstaklega við um fyrstu ár þeirra. Saga Háskólans á Akureyri er gott dæmi um þetta, en velunnarar skólans voru öflugur þrýstihópur sem vörðu hann fyrir gagnrýni og þrýstu á ríkisstjórn og stjórnkerfi að veita skólanum brautargengi. Í þessum hópi var m.a. Tómas Ingi Olrich sem síðar varð menntamálaráðherra. Hópi velunnara HSV og Háskóla Vestfjarða þarf að koma á, en hann myndi verða þverpólitískt samsettur og innihalda einstaklinga sem virðing er borin fyrir bæði innan og utan Vestfjarða.


Dr. Ívar Jónsson
.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi