Grein

Ólafur Helgi Kjartansson.
Ólafur Helgi Kjartansson.

| 04.10.2001 | 10:09Hringtorgið og gangbrautir

Hið stórglæsilega hringtorg var opnað formlega til umferðar við hátíðlega athöfn síðasta föstudag. Ekki er ætlunin að ræða hversu vel til tókst við hönnunina. Torgið talar sínu máli um það um ókomna framtíð. Erindið að þessu sinni er breyttur veruleiki í umferðinni. Nú verður áherzlan lögð á gangandi vegfarendur.
Í umferðarlögum (4. gr. laga nr. 50/1987) er gert ráð fyrir því að öllum skuli sýna tillitssemi í umferðinni, einkum börnum, öldruðum og þeim, sem bera auðkenni fatlaðra eða eru sýnilega sjón- eða heyrnarskertir, fatlaðir eða sjúkir, þannig að hái þeim í umferðinni. Greininni lýkur með því að leggja þá skyldu á lögreglustjóra og veghaldara að gera í samráði við skólayfirvöld ráðstafanir gegn hættu á leið barna til og frá skóla.

Í samanburði við bíla mega gangandi vegfarendur sín lítils komi til áreksturs. Því er brýnt að taka ávallt fullt tillit til þeirra. Þessi áminning á við okkur öll þegar kemur að því að læra á umferðina við hringtorgið. Torgið er hluti af þjóðvegakerfi landsins og mikil umferð fer um það, þar með talin umferð stórra bifreiða með flutning til og frá þéttbýli á norðanverðum Vestfjörðum.

Lögreglan hefur í samvinnu við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hrundið af stað umferðarviku sem hófst við opnun hringtorgsins og stendur til loka næsta föstudags. Lögreglan mun fylgjast með því hvort ökumenn taka tillit til gangandi vegfarenda, sem mjög margir eru skólabörn á leið í skóla eða úr. Ekki er of oft ítrekað að fjarlægðarskyn þeirra er ekki hið sama og fullorðinna, heilbrigðra, einstaklinga, sem flestir kjósa að fara ferða sinna í bíl.

Ágæti ökumaður. Taktu tillit til barna og annarra gangandi vegfarenda meðan við erum öll að ná tökum á nýjum háttum, að aka um torgið. Gangandi vegfarendur munu líklega jafnt og ökumenn verða varir við lögregluna næstu daga. En hún mun leiðbeina og finna að ef þörf krefur. Látum svo umferðarvikuna margfaldast og endast allt árið. Ökum hægt og gætilega, ekkert liggur á þegar vegalengdir eru stuttar.

Góða og hæga ferð um Skutulsfjarðareyri.

Ólafur Helgi Kjartansson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi