Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 23.06.2005 | 11:54Ég er að springa úr reiði!

Þess vegna ákvað ég að festa þessa hugleiðingu mína niður á blað. Ástæðan er framkvæmdir við nýjan göngustíg inn með Skutulsfjarðarbraut. Ég vissi að það stæði til að leggja göngubraut inn með Skutulsfjarðarbrautinni, sem er í sjálfu sér hið besta mál. Fyrir bara nokkrum dögum síðan, var ég á yfirferð með yfirmanni mínum á tæknideildinni, þá sagði hann mér, að þetta stæði til, og sennilega þyrfti að taka nokkur tré neðst við veginn. Hvað við gætum gert við þau. Ég taldi það ekki mikið mál að koma þeim einhvers staðar fyrir á góðum stað. Við ákveðum þetta, þegar þeir hafa mælt fyrir stígnum, sagði hann.

Svo sé ég að það eru komnir rauðir staurar. Þetta getur ekki verið rétt hugsaði ég. Þetta hlýtur að vera mæling fyrir einhvers konar lögn sem þarna er. Var samt búin að hugsa mér að tala við yfirmanninn eftir helgina. En klukkan var ekki orðin hálf átta á mánudagsmorguninn þegar verktakinn var kominn inn á gólfið til mín á skrifstofunni og spurðu: Hvað eigum við að gera við trén?

Ég var orðlaus, jú það átti ekki að taka bara einhver tré neðst, þá átti að rífa mest allan lundinn. Ég sætti mig ekki við þetta sagði ég, við skulum tala við yfirmennina. Við fórum til bæjarstjórans. Hann tók okkur ljúflega og viðurkenndi að hann hefði ekki gert sér grein fyrir hve mikil röskun þetta yrði. Og hann hringdi í þá sem stjórna verkinu, en allt kom fyrir ekki, svona skyldi þetta framkvæmt.En út úr því kom þá að hann leyfði mér að reyna að bjarga trjánum. Þetta er samt hábölvaður tími til að færa tré.

En mér er ekki skemmt, og ég er reyndar öskureið. Allt þetta jarðrask fyrir einn fjandans göngustíg. Og staðsetningin alveg út úr kú, að mínu mati. Loksins þegar þetta svæði var orðið fallegt og uppgróið. Ekki bara trén að taka vel við sér og stækka, heldur líka lággróðurinn, sem var að koma upp sjálfsáinn. Lyngið; krækilyng, aðalbláberjalyng og bláberjalyng, beitilyng, hrafnaklukka og ýmis skríðandi víðir. Allt svo fallegt og í jafnvægi.

En nei, manneskjan skal endalaust ganga fyrir, og það ekkert smá. Nýbúið að setja upp skilti „Varúð fuglar á ferð“. Á sama tíma og verið er að taka pollinn af þeim. Og það sárasta er að bara nokkrum metrum ofar, er Seljandlandsvegurinn, flottur göngustígur, sem ekkert þurfti að gera fyrir nema leggja slitlag á. Maður hefði nú haldið að rúttið væri nóg. Verið að grafa upp alla Kirkjubólshlíðina, og að því er Guðni Geir segir, algörlega að tilefnislausu. Svo ekki sé minnst á snjóvarnargarðinn á Seljalandsdal, og væntanlegt hryðjuverk á Kubbanum. Og svo er ekki einu sinni búið að laga vegkantinn sem þeir ruddu niður vegna skápagerðar á Hnífsdalsvegi. Kannski búnir að gleyma að ganga frá eftir sig þar.

Sá maður sem stendur aðallega fyrir þessu sem ég kalla nýðingsverki er fyrrverandi formaður umhverfisnefndar, Kristján Kristjánsson og honum til aðstoðar var Árni Traustason. Þið skuluð hugsa til þeirra þegar þið akið þarna framhjá. Og spá aðeins í hvort ekki hefði mátt standa öðruvísi að þessari stígagerð, en að eyðileggja margra ára vinnu áhugafólks.

Það er ekki lengra síðan en í fyrra, að ég gat með naumindum komið í veg fyrir að þeir hreinsuðu upp öll grenitrén neðan við Sætúnið, fyrir göngustíginn þar. Þá tókst að fá þessa menn til að færa hann aðeins ofar svo stígurinn lenti ofan við þau. Og hafa margir þakkað fyrir þá lausn.

Ég er farin að halda, að það sé vonlaust að reyna að setja niður gróður á Ísafirði, ekki vegna náttúrulegra skilyrða, heldur vegna hryðjuverkamanna, sem engu eyra, og eru helst mættir með gröfu, um leið og reynt er að græða einhver svæði upp. Þetta er orðin skelfilega leiðinleg barátta við fólk sem ætti að fagna hverju tré í okkar nakta landi. En það er nú öðru nær.

Ekki veit ég hvort tekst að bjarga trjánum, en þau munu lúta höfði í sumar, og taka mörg ár að fara aftur af stað, ef þau þola þessa meðferð. Á meðan, eru þessir kújónar örugglega að velta fyrir sér hvar skuli bera niður næst. Þetta segi ég í reiði, vonandi fyrirgefst mér það. En í alvöru, hér virðast sitja menn í ráðastöðum, sem hafa ekkert skynbragð á náttúrna og umhverfið. Við eigum fallegt bæjarstæði, en aldrei hefur það verið í jafn mikilli útrýmingarhættu og núna, með sárin allstaðar. Við skulum láta þessa menn finna að við viljum hafa sem mest af því náttúrulega umhverfi sem við eigum hér, og að okkur er ekki sama um nánasta umhverfi okkar. Svona nú Ísfirðingar vakna upp og láta í sér heyra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi