Grein

Ragnheiður Davíðsdóttir.
Ragnheiður Davíðsdóttir.

| 03.10.2001 | 16:39Eftir höfðinu dansa limirnir

Varla þarf að fara mörgum orðum um gildi þess að sýna gott fordæmi. Nærtækast er að nefna ábyrgð foreldra og annarra uppalenda í því sambandi sem sannarlega er óumdeild. En fyrirmyndirnar birtast víða í samfélaginu; fólk sem hefur akstur sem aðalatvinnugrein, virðir oft ekki þessi lög?, svo ekki sé talað um fólkið sem setur lög og reglur sem það ætlast til að aðrir hlýði. En máltækið segir að eftir höfðinu dansi limirnir og því hljótum við að gera þær kröfur til boðbera „fagnaðarerinda“ af ýmsum toga að þeir gangi á undan með góðu fordæmi - öðrum til eftirbreytni. En því miður virðist reyndin önnur í alltof mörgum tilfellum.
Atvinnubílstórar ekki undanskildir

Í starfi mínu sem forvarnafulltrúi fylgist ég eðlilega með notkun öryggisbúnaðar og jafnframt því fólki sem ég tel að eigi að vera fyrirmyndir annarra í þeim efnum. Þar ber fyrst að nefna foreldra og forráðamenn barna og ungmenna sem þráfaldlega sjást aka án bílbelta á sama tíma og þeir gera þær kröfur að börnin þeirra spenni beltin. Við sjáum líka fjölmarga atvinnubílstjóra aka um götur og vegi án bílbeltis; menn sem eiga að vera öðrum fyrirmynd, ekki síst þeim fjölmörgu ungu ökumönnum sem er hvað hættast í umferðinni. Margir atvinnubílstórar, t.d. leigubílstórar, sendiferðabílstórar, rútubílstórar, telja sig vera undanþegna notkun bílbeltis. Þetta er auðvitað mikill misskilningur.

Örfáar undantekningar

Í reglugerð, þar sem tilgreindir eru þeir sem undanþegnir eru notkun bílbeltis við akstur, stendur aðeins að leigubílstórar séu undanþegnir notkun þegar þeir eru að flytja farþegar í atvinnuskyni og hið sama gildir um lögreglumenn sem flytja handtekna menn. Þá þurfa atvinnubílstórar ekki að spenna beltið við aðstæður þar sem hraði er jafnan lítill og þeir verða að fara úr og í bifreiðina með stuttu millibili (t.d. þegar vörum er ekið út í hvert hús). Vert er einnig að geta þess að þeir sem aka við erfiðar aðstæður, s.s. þar sem búast má við skriðu- eða snjóflóðum og þeir sem framvísa læknisvottorði, eru undanþegnir notkun bílbeltisins. ÖLLUM öðrum er skylt að nota bílbelti. Einnig þeim sem setja lögin og bílstórum þeirra. En því miður hef ég þráfaldlega orðið vitni að því að alþingismenn, ráðherrar og bílstjórar þeirra síðarnefndu, aka án bílbeltis.

Umferðarslysin fara ekki í manngreinarálit

Umferðarslysin fara ekki í manngreinarálit og víst geta háir sem lágir örkumlast og dáið á vígvelli umferðarinnar. Við hljótum þó að gera þær kröfur til boðbera forvarna, laga og reglna að þeir sýni gott fordæmi og noti allan þann öryggisbúnað sem sannað er að kemur í veg fyrir alvarlega áverka í slysum. Að öðrum kosti hætta ungmenni að bera virðingu fyrir lögunum en sjálf skynja ég ákveðin teikn í þá veru þegar þau spyrja - eðlilega - hvort fyrirmyndir þeirra séu hafnar yfir lög. Sjötta umferðarheitið í Þjóðarátaki VÍS er heitstrenging um að nota bílbeltið.
ALLTAF.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi