Grein

Rúnar Óli Karlsson.
Rúnar Óli Karlsson.

| 02.10.2001 | 08:17Umferðin og umhverfið

Nú er í gangi umferðarvika í Ísafjarðarbæ. Vikunni er ætlað að vekja athygli almennings á umferðarmálum í allri sinni mynd. Samstarfsaðilar verkefnisins eru Ísafjarðarbær, skólar, Vegagerðin, fjölmiðlar, lögreglan og tryggingafélög bæjarins. Þegar fólk hugsar um umferð er líklegt að því detti fyrst í hug bílar og malbik. En það er fleira sem tilheyrir umferðinni, eins og gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk sem eru alveg eins mikilvægir hlekkir í umferðinni eins og bílar. Svo mætti nefna búfénað á vegum úti og þá helst sauðfé.
Umgengni

En það eru annars konar sauðir líka í umferðinni. Það eru þeir sem aka um á „ruslabílum“ og henda sorpi, að því er virðist, í allar áttir. Nokkrir staðir í bænum eru sérstaklega slæmir. Er það m.a. fyrir framan Gamla bakaríið og niðri á höfn fyrir framan Fagranesið. Farþegar þessara bíla virðast engu skeyta um sóðaskapinn sem af því hlýst að tæma öskubakka og fleygja matarumbúðum út um gluggann á bílnum sínum.

Maður spyr sjálfan sig hvað býr að baki. Ég held að það sé ekkert annað en hugsunarleysi og kannski vottur af leti. Þetta fólk heldur kannski að starfsmenn bæjarins hafi ekkert annað að gera en sópa upp sóðaskapnum eftir sig, þ.e. þetta sé „atvinnuskapandi“. Það er mikill misskilningur. Næg eru verkefnin og starfsmenn bæjarins gætu örugglega vel hugsað sér að vinna frekar að uppbyggilegri störfum.

Bíllinn, börnin og ég

Það er mjög mismunandi hvernig fólk notar einkabílana sína. Sumir eru það heppnir að þurfa ekki að ferðast langa leið til vinnu og geta því gengið eða hjólað. Aðrir verða að keyra eða nýta sér almenningssamgöngur. Svo er það enn annar hópur sem fer allra sinna ferða á bíl, burtséð frá vegalengd. Þetta fólk hefur fjárfest í „úlpu á hjólum“ eins og Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi, ritaði í Morgunblaðinu fyrir tæpu ári síðan. Í stað þess að klæða sig í útiflík áður en haldið er á milli staða er stokkið beint í bílinn og keyrt af stað.

Þetta er líklega að meðaltali dýrasta útiflík sem hugsast getur. En hvers vegna að gera mál úr svona háttalagi? Er fólki ekki frjálst að nota bílinn sinn eins og það lystir? Vissulega er öllum frjálst að nýta ökutæki sín eins og þeir vilja en stundum verður almenn skynsemi að grípa í taumana. Töluverð umræða hefur verið um hve æska þessa lands sé sífellt að þyngjast. Ástæður þess eru m.a. aukin innivera við tölvuleiki og sjónvarpsgláp, breytt mataræði og síðast en ekki síst sofandi foreldrar. Það er mjög algengt að foreldrar keyri börn sín hvert sem er og skiptir litlu máli hver vegalengdin er.

Gerir það börnunum gott að keyra þau frá Grunnskólanum inn að íþróttahúsinu á Torfnesi og jafnvel til baka aftur eftir tíma? Leyfið börnunum að hreyfa sig, ganga í skólann, í íþróttir, á skátafund o.þ.h.

Bíllinn, buddan og umhverfið

Það er dýrt að reka bíl og kostnaðurinn eykst að sjálfsögðu eftir því sem meira er ekið. Samt hefur maður það á tilfinningunni að fáir séu tilbúnir að minnka bílnotkun sína þrátt fyrir að eiga von á að veskið þykkni. Það ætti að vera markmið bíleigenda að halda notkun bílsins í lágmarki og nýta aðra farkosti í staðinn, svo sem að fara ferða sinna fótgangandi, hjóla eða nýta almenningssamgöngur. Það er ódýrara, hollara og bætir umhverfið.

Umhverfismál í þessu sambandi eru kapítuli út af fyrir sig. Íslendingar hafa almennt litlar sem engar áhyggjur af bílmengun. Ástæðan er aðallega sú að hér á landi sjá vindar og mannfæð til þess að mengun nær sjaldnast hættumörkum. Staðreyndin er hins vegar sú, að bílar hérlendis menga að öllum líkindum meira en starfsbræður þeirra í nágrannalöndunum. Ástæðan er sú að hér er kaldara í veðri, sem eykur eldsneytisnotkun, og vegalengdir almennt styttri þannig að bíllinn nær sjaldnast að hitna.

Við verðum að temja okkur að hugsa hnattrænt og framkvæma heima fyrir – eða eins og segir á frummálinu: Think Globally? Act Locally!

Því hvet ég fólk að leggja bílum sínum endrum og eins. Kenna börnunum að ganga í annað sinn. Barnanna, buddunnar, heilsunnar og umhverfisins vegna.

Góða ferð.

– Rúnar Óli Karlsson, landfræðingur
fulltrúi atvinnu- og umhverfismála hjá ÍsafjarðarbæTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi