Grein

Gunnlaugur Pétursson
Gunnlaugur Pétursson
Leið B.
Leið B.

Gunnlaugur Pétursson | 09.06.2005 | 09:17Leið B og Hjallaháls

Þann 11. maí birtist pistill á „bb.is - vestfirskum fréttum“ eftir Gunnbjörn Óla Jóhannsson, sem bar titilinn „Nýtt vegstæði milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar“. Ég sé mig tilneyddan að leiðrétta ýmislegt sem Gunnbjörn segir, enda er hann að svara grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 23. mars síðastliðinn og hét: „Vestfjarðarvegur 60 – er slys í uppsiglingu?“. Henni svöruðu reyndar einnig þrír sveitarstjórar og sýslumaðurinn á Patreksfirði í grein í Mbl. þann 5. apríl. Önnur grein mín um þessi mál birtist síðan í Mbl. 27. apríl. Grein eftir Þórodd S. Skaptason kom í sama blaði 4. apríl.

Náttúra og svæðisskipulag

Gunnbjörn segir: „Þar [það er í grein minni] er látið að því liggja að ef fara skuli eftir samþykktu skipulagi í lagningu Vestfjarðavegar með því að þvera veginn yfir Þorskafjörð og færa hann niður af Hjallahálsi; fara með hann í gegnum Teigsskóg og niður á Hallsteinsnes yfir Djúpafjörð og Gufufjörð yfir á Melanes sé verið að spilla náttúru svæðisins“. Það er ekki rétt hjá Gunnbirni að ég hafi verið að mótmæla þverum Þorskafjarðar. Það kemur hvergi fram í grein minni. Ég var hins vegar að mómæla svokallaðri leið B, sem liggur frá Þórisstöðum, gegnum Teigsskóg, eftir Hallsteinsneshlíð, þverar Djúpafjörð, fer um enda Gróness og þverar Gufufjörð. Ég lét bara ekki „liggja að því“ að með þessum framkvæmdum væri verið að „spilla náttúru svæðisins“. Ég reyndar fullyrti hreinlega að um óafsakanleg og óafturkræf náttúruspjöll væri að ræða og sýndi fram á það með margvíslegum rökum.

Gunnbjörn skrifar einnig: „Það var vandað til aðalskipulags þess sem nú er í gildi sem gerir ráð fyrir legu vegarins eins og að ofan er lýst“. Ég vil minna Gunnbjörn á að ekkert aðalskipulag er í gildi fyrir Reykhólahrepp. Hins vegar er Landmótun ehf að vinna að því núna. Í gildi er svæðisskipulag fyrir Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu 1992-2012. Það má finna á heimasíðu Landmótunar ehf. Ef við skoðum það náið þá sést að þverun Þorskafjarðar og vegur út Hallsteinsneshlíð er stuttstrikaður og merktur „lega óviss“. Auk þess er sýndur vegur yfir Hjallaháls. Það er alveg ljóst á svæðisskipulaginu að ekki hefur verið ákveðið hvar vegurinn liggur, út hlíðina eða yfir Hjallaháls og Ódrjúsháls, enda eiga þessar framkvæmdir eftir að fá umsögn Skipulagsstofnunar eftir mat á umhverfisáhrifum. Það er því ekki verið að sniðganga svæðisskipulagið þótt vegur yrði áfram yfir Hjallaháls (leið C eða D). Ég vil benda Gunnbirni á að svæðisskipulagið gerir ekki ráð fyrir vegi um Arnkötludal! Ætti hann þá að vera úr myndinni, eða hvað?

Þverun fjarða

Enn skrifar Gunnbjörn: „Það er ekki langt síðan náttúruverndarsinnar hömuðust hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir þverun Gilsfjarðar“. Og einnig „Hvað ef við hefðum farið að ráðum náttúruverndarsinna og færum enn um Gilsfjörð með tilheyrandi ófærð á vetrum og stórhættu á aur- og snjóskriðum?“. Hér er nánast allt úr lagi fært. Ég man ekki betur en þessir náttúruverndarsinnar, sem Gunnbjörn kallar svo, hafi ekkert haft á móti þverun Gilsfjarðar, en vildu þvera nokkru innar en núverandi þverun er (eftir leið 2), til þess að vernda leirurnar í suðvestanverðum firðinum og fæðustöðvar þúsunda rauðbrystinga. Þetta kom skýrt fram í blaðagreinum á sínum tíma, t.d. í Morgunblaðinu 29. mars 1994 (í grein eftir Guðmund A. Guðmundsson og Kristin H. Skarphéðinsson).

Gunnbjörn segir einnig: „Ekki veit ég betur en svo að lífríkið í firðinum hafi staðist breytingarnar“. Þetta er ekki rétt, enda gætir nú ekki lengur sjávarfjalla í firðinum. Í nýútkominni skýrslu „Umhverfisrannsóknir í Gilsfirði. Þriðja rannsóknarlota: Ástand umhverfis og lífríkis fimm til sex árum eftir þverum fjarðarins“ (Líffræðistofnun háskólans, fjölrit nr. 74) segir í lokaorðum (á bls 25): „Margar spár, sem gerðar voru um afleiðingar þverunar Gilsfjarðar, hafa staðist vel eða allvel. Þær breytingar, sem komu mest á óvart, var þaradauði bæði utan vegar og innan, en með þaranum hurfu sumar dýrategundir, en öðrum fækkaði“.

Teigsskógur, örninn o.fl.

Um Teigsskóg skrifar Gunnbjörn: „Teigsskógur er helsta bitbeinið en hann er á milli Grafar í Þorskafirði og Hallsteinsness, skógurinn er gríðarlega fallegur en rosalega þéttur... Það er hægt að fara bæði fyrir ofan og neðan skóginn og munu þá allir sem keyra veginn sjá þessa paradís“. Ég er sammála Gunnbirni hvað vaðar lýsingu á Teigsskógi. Vegagerðin hefur þegar hafnað því að fara neðan skógarins, þ.e. í fjörunni, vegna náttúruspjalla. Fyrir ofan skóginn verður ekki komist með góðu móti, enda nær hann upp að brekkurótum. Þess vegna mælir Vegagerðin með millileið, ef leið B verður yfir höfuð fyrir valinu. Það voru ekki fagrar lýsingarnar á því sem gera þyrfti við skóginn, sem komu fram hjá Vegagerðinni á fundi með landeigendum og fleirum á fundi í Reykjavík 24. febrúar síðastliðinn. Þar var heldur ekki skafið utan af lýsingum á skemmdum á landi, svo sem í Gröf í Þorskafirði og fleiri stöðum.

Það er ekki bara Teigsskógur sem er helsta bitbeinið. Það er örninn líka. Með leið B eyðileggst örugglega eitt arnarsetur og annað er vægast sagt í stórhættu. Það er eitt arnarpar sem hefur notað þessi tvö setur á víxl og hefur þetta arnarpar framleitt flesta unga við norðanverðan Breiðafjörð í áratugi. Með leið B yrði því arnarstofninum greitt þungt högg.

Það er einnig mun fleira en skógur og örn sem leið B hefur áhrif á. Eins og mönnum er sjálfsagt kunnugt er fjölmargar fornleifar á leiðum B og C, sem ýmist eru í hættu, stórhættu eða hreinlega eyðileggjast. Þetta á ekki síst við á Grónesi og Hallsteinsneshlíð. Erfitt hefur reynst að kanna fornleifar í Teigsskógi, enda skógurinn þéttur og nánast orðinn ómanngengur. Á leið D eru hins vegar fáar fornminjar í hættu. – Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir a.m.k. þrefalt lengri brúm yfir Djúpafjörð og Gufufjörð en er yfir Gilsfjörð (talið nægja fyrir 100% fallaskipti), er þess að gæta að brúarlengdin á Djúpafirði er aðeins um 1/8 af breidd fjarðarmynnisins (og 1/5 í Gufufirði). Mér finnst því ljóst að setflutningar, fallaskipti og leirur innan og utan þverunar verða fyrir verulegum neikvæðum áhrifum, þar með talin skilyrði á uppeldistöðvum skarkola í firðinum og þaraskógar þar.

Áhrif leiðar B á atvinnuvegi á svæðinu verða veruleg. Þangnám hefur verið stundað í Djúpafirði. Með þverun fjarðarins mun þangnámið að öllum líkindum leggjast af, enda örðugt, ef ekki hreinlega ómögulegt, að draga þangballana innan úr firði og undir brúna. – Með leið B lengjast verulega heimreiðar að Djúpadal, Brekku og Gufudalsbæjunum. Það kæmi mér ekki á óvart að ferðaþjónusta í Djúpadal legðist hreinlega af. – Leið B mun einnig koma í veg fyrir nýtingu hlíðarinnar frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi sem útivistar og sumarbústaðasvæðis í framtíðinni, enda langar engan að hafa þjóðveg við húsdyrnar hjá sér.

Ef þetta er ekki nóg til að vekja menn til umhugsunar um ókosti leiðar B, þá skal einnig á það bent að Teigsskógur, Hallsteinsneshlíð og austanvert Grónes eru á náttúruminjaskrá. Þar að auki eru eyjar, sker, fjörur og leirur, sem leið B fer yfir, friðaðar samkvæmt lögum (nr. 53/1995). Í umsögn hreppsnefndar Reykhólahrepps frá 22. október 1999 um drög að verndaráætlun Breiðafjarðar segir meira að segja: „Rekstur verksmiðjunnar [þ.e. Þörungaverksmiðjunnar] ... byggir alfarið á því að standlengja Breiðafjarðar, þar með talið eyjar og sker haldist hreint og verði ekki spillt frá því sem nú er“. Og þar segir einnig: „... skal hér tekið undir þau sjónarmið að verndum svæðisins verði fólgin í varðveislu fágætra minja, náttúrulegs umhverfis, sérstaklega margbreytilegu dýralífi og öðrum sérkennum Breiðafjarðar“. Þetta er athyglisverð lesning í ljósi þess að fulltrúar Reykhólahrepps mæla nú með leið B, af einhverjum ástæðum, sem er þó algjörlega á skjön við ofangreind markmið.

Hjallaháls, Ódrjúgsháls og snjór

Gunnbjörn skrifar enn fremur í pistli sínum: „Það er gríðarlega mikilvægt að þessi leið [þ.e. leið B] sé farin, hún mun vera laus við snjó auk þess að vera styttri. Að lappa uppá Hjallaháls svo ekki sé talað um Ódrjúgsháls er óðs manns æði. ... Ég hef reynt þær hættur sem felast í veginum um Hjallaháls og Ódrjúgsháls eða leiðum C og D samkvæmt skipulagstillögum sem nú er verið að ræða um“. Mér finnst undarlegt að Gunnbjörn hafi þegar reynt hætturnar á Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, jafnvel áður en búið að leggja nýjan veg samkvæmt leiðum C og D. Það er eins og hann búist ekki við því að neitt verði gert til að endurbæta þessa vegi, ef leið B yrði hafnað. Ég er hins vegar algjörlega sammála Gunnbirni um að núverandi vegur yfir Ódrjúgsháls er ekki boðlegur nútímavegur í neinum skilningi og með 16% halla að austanverðu eins og Gunnbjörn bendir réttilega á. Enda áætlar Vegagerðin að gera gjörsamlega nýjan og nánast beinan veg (leið D) yfir Ódrjúgsháls með sáralitlum langhalla og gefur honum þessa einkunn: „Nýr vegur um Ódrjúgsháls ... yrði seint til vandræða hvað öryggi varðar og vart hvað greiðfærni varðar“. Það er því ekki verið að „lappa upp á veginn“ eins og Gunnbjörn telur.

Hver hefur verið skoðun Vegagerðarinnar á óbreyttum vegi yfir Hjallaháls? Um hann segir hún: „Þessi vegarkafli hefur þó reynst vel og ekki verið til trafala. Vegagerðin telur að vegurinn á þessum kafla um og yfir Hjallaháls, í ljósi umferðar, sé fullnægjandi“. Vegagerðin tekur sérstaklega fram að snjóavandamál séu undir Mýrlendisfjalli, enda hefur hún teiknað þar nýja veglínu til að leysa það vandamál. Vegagerðin hefur líkt nýjum vegi yfir Hjallaháls við Bröttubrekku: „Mesti halli yrði 9 % eða eins og á nýja veginum um Bröttubrekku. Öryggi, einkum í hálku að vetrarlagi, er mjög háð bratta og sveigju, þótt hraðinn sé yfirleitt ráðandi hvað öryggi varðar“. Ég spyr, hverjir eru ekki ánægðir með nýja veginn yfir Bröttubrekku?

Gunnbjörn minnist á ástandið á Hjallahálsi vorið 1995, þegar Vegagerðin neitaði að ryðja hann svo fólkið í Gufsu fengi að kjósa. En það kaus nú samt að sögn hans. Þetta vor var afar sérstætt og ég er hræddur um að sömu snjóþyngsli hefðu verið á leið B (Hallsteinsneshlíð) og á Hjallahálsi. Þetta vor sligaðist þakið á fjárhúsunum í Gröf í Þorskafirði, auk þess sem þar voru stórir snjóskaflar langt fram á haust. Voru ekki einmitt þetta vor margra metra há snjógöng á veginum vestan Geiradalsár sem menn kölluðu „smuguna“? Tengdafaðir minn, Guðmundur í Gröf, fylgdist á árum áður með símalínunni milli Grafar og Hallsteinsness og það kom fyrir að hann þurfti að moka sig niður á hana til að gera við skemmdir. Vegur eftir leið B yrði einmitt á svipuðum slóðum!

Á áðurnefndum fundi þann 24. febrúar kom fram að Vegagerðin telur snjó reyndar ekki vera sérstakt umferðarvandamál. Hann sé einfaldlega ruddur eða blásinn af vegum, ef þess er þörf. Það er hins vegar skafrenningur og hálka sem getur verið vandamál og þá jafnt á láglendi sem hálendi. Vegagerðin hefur talið Hjallaháls snjóléttan og ekkert í líkingu við Klettsháls nokkru vestar. Í matsáætluninni (á bls. 11) stendur þetta um Hjallháls: „Vegurinn hefur reynst vel með tilliti til snjóa, nema undir Mýrlendisfjalli“.

Arðsemi leiðar B miðað við leið D

Í skýrslu Vegagerðarinnar „Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, Leiðaval“ er fjallað um arðsemi mismunandi leiða. Þar kemur í ljós að arðsemi þverunar Þorskafjarðar miðað við veg inn fyrir fjörðinn annars vegar (í áfanga 1) og arðsemi leiðar B miðað við leið D (í áfanga 2) er mjög svipuð. Hvort tveggja sýnir enga arðsemi miðað við núverandi umferð (meðaltalsumferð á dag yfir allt árið, ÁDU=88). Þverun Þorskafjarðar (miðað við veg fyrir fjörðinn) þarf a.m.k. ÁDU=160 til að ná fram 5% afkastavöxtum (og mismunafjárfesting miðað við ÁDU=100 má ekki vera meiri en 413 Mkr). Hið sama gildir um leið B (miðað við leið D). Þar þarf a.m.k. ÁDU=125-150 til að ná hagkvæmni (og mismunafjárfesting miðað við ÁDU=100 má ekki vera meiri en 380 Mkr). Og hefur þá ekki verið tekið tillit til tengivega, sem lækka arðsemina um 2% (og hækkar nauðsynlegt ÁDU í 160-185) og heldur ekki þess að fjárfestingin fellur líklega til á allmörgum árum og að hlutfall þungra bíla lækkar úr 10% í 5% (lækkar arðsemisprósentuna um 1,0-1,5 % og hækkar ÁDU um ca 15 til viðbótar). Þetta kemur sæmilega heim og saman við grófa hagkvæmniútreikninga sem ég gerði sjálfur, þar sem ég fékk nauðsynlegt ÁDU=206 fyrir leið B miðað við leið D.

Það er ljóst á arðsemisútreikningunum í leiðavalskýrslunni að arðsemi þverunar Þorskafjarðar er engin miðað við núverandi umferð, enda stendur þar „Vegagerðin leggur til að ekki verði ráðist í þverun fjarðarins að sinni enda er engin arðsemi af þeirri framkvæmd miðað við núverandi umferð“. Hið sama á við um leið B, enda engin aðsemi af henni miðað við núverandi umferð heldur samkvæmt útreikningunum, þótt Vegagerðin fari þar eins mildum orðum um og hægt er með góðu móti, held ég, og segi einungis: „Leið þessi er að vísu tæpast arðsöm í samanburði við leið D miðað við núverandi umferð“.

Að lokum

Ég held að enginn mótmæli því að leið B er vegtæknilega nokkru betri kostur en leið D, auk þess sem hún er styttri. Hins vegar er það einnig óumdeilt að leið B mun valda verulegum náttúruspjöllum af margvíslegu tagi, en leið D tiltölulega litlum. Þetta hvort tveggja kemur skýrt fram í matsáætlun Vegagerðarinnar. Auk þess er leið B a.m.k 560 milljónum króna dýrari en leið D. Þegar þetta þrennt er vegið og metið, tel ég einfaldlega alls ekki verjandi að leggja leið B. Fjölmargir aðrir eru mér sammála um þetta. Náttúruspjöll og kostnaður eru einfaldlega allt of mikil til að réttlæta leið B. Menn skulu líka hafa í huga að leið D lokar ekki á þann möguleika (sem leið B gerir hins vegar) að gerð verði veggöng milli Gufufjarðar og Kollafjarðar og undir Hjallaháls í framtíðinni, með mun meiri styttingu vegarins milli Þórisstaða í Þorskafirði og Eyrar í Kollafirði, en núverandi hugmyndir um veglínur gera ráð fyrir.

Gunnlaugur Pétursson, verkfræðingur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi