Grein

Skúli S. Ólafsson | 07.06.2005 | 14:02Evróvísir: Málþing og kynning á Ísafirði föstudaginn 10. júní

Það er kunnara en frá þurfi að segja að rétt aðgengi að upplýsingum skiptir höfuðmáli í nútímanum. Ekki skortir á magnið sem dynur yfir okkur á hverjum degi en vandinn felst í því að greina á milli þess sem gagnlegt er að vita og hins er það ekki. Á vegum ESB er rekin upplýsingaveita – Eurodesk eða Evróvísir – sem hefur þann tilgang að miðla tilkynningum um styrki, nám og störf erlendis til þeirra sem starfa að æskulýðsmálum í álfunni. Á vegum þessa verkefnis hefur miklu magni upplýsinga verið safnað saman í gagnagrunn og þær flokkaðar eftir því fyrir hvern þær eru ætlaðar.

Föstudaginn 10. júní fer fram í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði kynning á Evróvísi. Stjórnandi verkefnisins, Bob Payne, mætir við annan mann og ræðir um þau tækifæri sem upplýsingaveitan býður upp á. Fundur þessi markar upphafið að tveggja ára umsjón ungmennahússins Gamla apóteksins á Ísafirði með verkefninu. Í framhaldi verður unnið að því að þýða tilkynningar frá ESB um mál sem varða íslensk ungmenni. Þær verða hafðar aðgengilegar á heimasíðu hússins en einnig verður unnt að senda fyrirspurnir í tölvupósti eða á spjallrás sem opnuð verður síðar í sumar.

Í framhaldi af kynningunni verður efnt til málþings um sjónarmið ungs fólks á Íslandi á málefnum styrkja í ESB. Lára S. Baldursdóttir frá Ungu fólki í Evrópu mun kynna styrkjaáætlun ESB og Jón Sigfússon hjá Rannsóknum og greiningu mun fjalla um niðurstöður kannana sem fyrirtækið hefur gert á högum ungs fólks á Íslandi.

Allar frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi