Grein

Sigurður Sveinsson.
Sigurður Sveinsson.

Sigurður Sveinsson | 30.05.2005 | 13:55Hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar hefji störf að nýju

Það er afar dapurlegt að sjá ýmsa sérfræðinga bera saman hugsanlega snjóflóðahættu úr Kubba saman við mestu hamfaraflóð sem fallið hafa á Vestfjörðum. Ég sem leikmaður velti því óneitanlega fyrir mér hvernig fólki settur í hug að bera saman Hraunsgil, Búðargil og gilin ofan Flateyrar saman við hugsanlega snjóflóðahættu úr Kubba. Öllum má vera ljóst að þetta er fráleitur samanburður, því sem betur fer eru veðuraðstæður sem skapað geta hugsanlega hættu í Kubba mjög sjaldgæfar og ekki hefur í raun verið sýnt fram á að flóð geti orðið stærri en þegar hafa fallið.

Í umræðum um gerð hugsanlegra snjóflóðavarna í Kubba hafa komið fram staðhæfingar sem benda til þess að forsendur sem hættumatsnefnd vann eftir séu rangar. Meðal annars er rætt um kraftur eins flóðsins hafi orðið svo mikill að bifreið hafi borist tugi metra með flóðinu. Eftir að hafa rætt við íbúa á svæðinu hef ég komist að því að umrædd bifreið barst einungis nokkra metra.

Í ljósi þess sem fram hefur komið og þeirra miklu efasemda sem allur almenningur hefur við fyrirhugaðar framkvæmdir í Kubba skora ég hér með á yfirvöld að hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar fari gaumgæfilega yfir forsendur sem lágu til grundvallar því hættumati sem nú er í gildi í Holtahverfi. Á sínum tíma fór kynning á þessu hættumati fyrir ofan garð og neðan hjá fólki og það hlaut því litla umræðu og kynningu. Nú þegar skipulagðar hafa verið gríðarlegar framkvæmdir sem eiga eftir að valda meiri umhverfisspjöllum en dæmi eru um hér um slóðir á grundvelli þessa hættumats. Því verður ekki trúað öðru en bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hlutist til um að hættumatsnefnd verði þegar kölluð saman og hún fari að nýju yfir allar forsendur fyrir mati sínu.

Í framhaldi af því verði einnig skoðað vandlega hvort ekki megi með einhverju móti breyta vörnum á þann vega að einungis verði reistur varnargarður og með því losnað við þau miklu spjöll sem uppsetning stoðvirkja í Bröttuhlíð á eftir að valda.

Sigurður Sveinsson frá Góustöðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi