Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 27.05.2005 | 09:36Austurvöllur

Ég vil byrja á að þakka þér Samson fyrir greinina þína, svo sannarlega orð í tíma töluð. Og mér finnst gott að vita að fleiri hafa áhyggjur af garðinum en ég. En þar sem ég hef séð um garðinn síðan 1978, langar mig til að benda á ýmislegt, sem skýrir kannski af hverju staðan er eins og hún er í dag. Þegar ég tók við garðinum að ósk þáverandi bæjarstjóra, Bolla Kjartansonar, þá hafði ekkert verið sinnt um hann í mörg ár. Allur gróður var sveltur af næringar- og umhirðuleysi.

Garðurinn var leikvöllur barnanna í hverfinu, þar voru stórir „bollar“ sem sýndu hvar fótboltamörkin voru. Það tók mig mörg ár að venja krakkana af því að vera í boltaleikjum í garðinum. Ég var vakin og sofin á kvöldin og um helgar, að fara niður eftir og tala við drengina, útskýra hvers vegna ekki væri æskilegt að vera í hasar- og boltaleikjum í skrúðgörðum. Loks bar það árangur, svo garðurinn fékk að mestu að vera í friði í mörg ár.

Svo fór ég í ársleyfi, og þeir blessaðir yfirmenn mínir, sem þá voru við völd, voru svo elskulegir að ráða gamlan garðyrkjumann úr Reykjavík til að sinna garðyrkjustörfum í bænum á meðan. Þessi maður hafði með sér keðjusög og sagaði og sagaði allt sumarið, enn má sjá birki og furur-stubbana bæði um Austurvöll og Jónsgarð. Og kann ég honum litlar þakkir fyrir. Þegar ég kvartaði við bæjarstjórann, og sagði að mér líkaði ekki þessi vinnubrögð, sagði hann mér hreinlega að mér kæmi það ekkert við, af því að ég væri í fríi.

Svo ákvað fræðslunefndin að best væri að taka garðinn undir skólalóð. Þetta var samþykkt með pompi og prakt. Og rann í gegnum kerfið eins og ekkert væri. Yfirmaður minn, þáverandi, bað mig að ganga með sér út í garðinn og segja til um, hvaða gróður ætti að fjarlægja. Ég hváði við. Jú, sagði hann, það er búið að ákveða að garðurinn verði gerður að skólalóð, og þú hefur ekkert með það að segja. Ég sagði honum þá, að ég þekkti nú ekki mikið til stjórnsýslulaga, en það vissi ég að ef um skipulagsbreytingar væri að ræða, þó minniháttar væru, þá yrði það að fara í ákveðið ferli. Grenndarkynningu, auglýsingar, og umsókn til Skipulagsstofnunar. Og vissulega væri það meiriháttar skipulagsbreyting, að taka aðalskúðgarð bæjarins, og gera hann að skólalóð.

Ekki er að orðlengja það meir, en miklar bókanir og bréfaskriftir gengu milli mín, fræðslunefndar og þáverandi yfirmanns. Sem lyktaði með því að ég hótaði þeim stjórnsýslukæru, ef þeir færu ekki löglega að þessu. Datt þá málið upp fyrir eða svo hélt ég. En þá byrjuðu þeir að beita börnunum á garðinn. Þau voru,og eru enn, send þangað í frímínútum. Að vísu með umsjónarmanni, en hvaða manneskja getur sinnt um tugi barna, sem er hleypt út í frímínútur til að fá útrás eftir kennslutíma?

Þau eru upp um allt, og út um allt. Á hverju vori er garðurinn rústir einar. Fyrir nú utan að þau læra það þarna, að skrúðgarðurinn Austurvöllur er leiksvæði þeirra. Þar fara jafnvel þjálfararnir inn með krakkana í takkaskóm í fótbolta, sem gengur gjörsamlega á skjön við baráttu mína hér fyrr á árum. Hvernig er þetta hægt? Í sambandi við gosbrunninn. Þegar á fyrstu árunum, sem ég sá um garðinn, þá gekkst ég í því að láta gera við dæluna í brunninum. Og kom honum í lag. Fyrsta kvöldið var búið að skemma dæluna. Ég lét gera við hana aftur, nokkrum sinnum, en sá svo að Ísfirðingar voru ekki tilbúnir fyrir slíkar gersemar. Þrautarráðið var að setja mold í hann og sumarblóm. Síðan var ákveðið að færa styttuna. Ekki veit ég hvers vegna, en það var gert. Og þá þangað sem hún er nú, í „moldarbrunninum“.

Hvað girðinguna varðar, þá er það svo, að sumir Ísfirðingar eru alltaf að stytta sér leið. Þeir fara allstaðar í gegnum gróður og hvað sem fyrir er, bara til að komast beinustu leið. Þess vegna gekkst ég í því fyrir nokkrum árum, að setja niður girðingu. En ekki vildi betur til en svo, að þáverandi yfirvöld urðu æf og heimtuðu að ég rifi niður girðinguna. Ég neitaði því, en það dró auðvitað úr mér að halda áfram að girða. Árangurinn sést mjög vel. En nú hef ég fengið leyfi sem betur fer til að ljúka þeirri vinnu.

Allir sem komið hafa og rætt við mig um umgengnina um garðinn, eru hneykslaðir á þessari umgengni. Og Ísfirðingar vilja flestir hafa garðana okkar áfram og í góðri hirðingu. En það er alltaf þetta brot, sem skemmir fyrir hinum því miður. Þess vegna fagna ég hverjum þeim sem skrifar eða tjáir sig um þessi mál. Jón H. Björnsson á miklu betra og meira skilið, en það að verka hans drabbist niður, og grotni vegna hugsunarleysis, og skammsýni þeirra sem ráða.

Með vinsemd og virðingu,
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi