Grein

Samson Bjarnar Harðarson.
Samson Bjarnar Harðarson.
Teikning Jóns H. Björnssonar af Austurvelli frá 1954.
Teikning Jóns H. Björnssonar af Austurvelli frá 1954.

Samson Bjarnar Harðarson | 19.05.2005 | 17:09Skrúðgarðar eru menningarverðmæti

Síðastliðið sumar varð einn af mörgum skrúðgörðum Ísfirðinga Austurvöllur, 50 ára. Ísafjarðarbær er líklega það bæjarfélag sem á flesta af elstu og merkilegustu skrúðgörðum landsins. Þar er fyrstan að nefna Skrúð á Núpi í Dýrafirði frá 1909, Jónsgarð á Ísafirði frá 1923, Simsonsgarð frá árunum 1920- 1930 og svo Austurvöll frá 1954. Þetta eru menningarverðmæti sem Ísfirðingar verða að gæta vel og ómetanlegt bæði fyrir heimafólk og ferðamenn að hafa geta notið slíkra unaðsreita sem vel hirtir skrúðgarðar eru. Það má geta þess að mikil ferðamennska er tengd garða og náttúruskoðun t.d. í Englandi og mætti vel gera út á þann markað hérlendis.

Í fyrra á 50 ára afmæli Austurvallar þegar ég heimsótti garðinn var fátt sem minnti á þessi tímamót í sögu garðsins og þótti mér sárt að sjá þennan miðbæjargarð Ísfirðinga meira og minna í niðurníðslu.

Efalaust kann mörgum að þykja fátt um þennan garð, en ég vil benda á að Austurvöllur á Ísafirði ásamt Hallargarðinum í Reykjavík eru tveir heildstæðustu og upprunalegustu nútíma- (Móderníski) skrúðgarðar sem við Íslendingar eigum. Það var fyrsti faglærði íslenski landslagsarkitekt okkar íslendinga sem hannaði þessa garða, Jón H. Björnsson. Hallargarðinn í Reykjavík hannaði hann 1953 og Austurvöll 1954 og eru þeir einkennandi fyrir þann ameríska módernisma sem Jón var fulltrúi fyrir, enda menntaður í Bandaríkjunum. Einkenni þessa garðstíls eru einmitt m.a. bogmyndaðir stígar sem flæða eðlilega í gegn um garðinn og afmarka á einfaldan hátt gróðurbeð og grasflatir eins og einkennir Austurvöll.

Því miður hefur Austurvöllur verið rúinn mörgu því sem gerir garð áhugaverðan, fyrir utan slæma umgengni hefur eitt aðalaðdráttarafl garðsins tjörnin verið fjarlægð, það sama má reyndar segja um tjörnina í Hallargarðinum í Reykjavík. Í stað hefur fallegri myndastyttu Ásmundar Sveinssonar verið komið fyrir þar sem tjörnin var áður og stendur nú þar eins og illa gerður hlutur skökk á sýnum stalli. Áður var styttan innst í garðinum, þar sem hún naut sýn mun betur með sundhöllina og gróskumikinn gróður í bakgrunni.

Það er engu líkara en að garðurinn sé gleymdur, gróðurinn víða illa farin, grasflötin slitin og hálfkarað grindverk sem virðist hafa verið hætt við að setja um garðinn í miðjum klíðum var ekki til að auka reisn garðsins.

Það er athyglisvert í ljósi sögunnar að þegar Austurvöllur var hannaður var áætlað að reisa ráðhús Ísafjarðar á lóðinni þar sem Faktorshúsið í Hæstikaupstað stendur. Það verður að teljast mikið lán fyrir þau miklu menningarverðmæti og bæjarprýði sem Hæstikaupstaður er að ekki varð úr þeim áformum.Ég geri það að tillögu minni að ryki verði dustað af uppdrætti garðsins og hann endurgerður, jafnframt að tengja garðinn yfir að Fjarðarstræti svo að þar myndist áhugaverð gönguleið. Með tengingu við lóð Hæstakaupstaðar myndu auk þess starfsemin þar og garðurinn upphefja hvort annað.

Það væri mikið menningarslys ef þessi best varðveitta móderníski almenningsgarður landsins eyðilegðist og hvet ég Ísfirðinga eindregið til að hefja Austurvöll til vegs og virðingar sem aðlaðandi miðbæjargarð fyrir gesti og gangandi.

Samson Bjarnar Harðarson, landslagsarkitekt FÍLA.

Greinarhöfundur er landslagsarkitekt og er ásamt Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt að vinna að ritun Garðsögu Íslands. Jafnframt hafa þeir tekið að sér kennslu í íslenskri garðlistasögu við landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Að undanförnu hafa þeir skrifað 10 stuttar greinar fyrir Fasteignablað Morgunblaðsins um sögulega almenningsgarða á Íslandi. Greinarnar hafa fjallað um Alþingisgarðinn, Skrúð, Lystigarð Akureyrar, Hellisgerði, Hljómskálagarðinn, Skallagrímsgarð, en eftir eiga að birtast greinar um Hallargarðinn, Austurvöll á Ísafirði og Miklatún.

Í sumar, nánar tiltekið 29 júní kl. 20.00 mun greinarhöfundur ásamt garðyrkjuáhugafólki standa fyrir Garðagöngu á Ísafirði í samvinnu við Garðyrkjufélag Íslands, sjá nánar á www.gardurinn.is.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi