Grein

Harpa Grímsdóttir og Oddur Pétursson.
Harpa Grímsdóttir og Oddur Pétursson.

Harpa Grímsdóttir - Oddur Pétursson | 18.05.2005 | 13:34Snjóflóð í Skutulsfirði

Vegna umræðna um snjóflóðavarnir og snjóflóð undanfarið í tengslum við gerð snjóflóðavarnarvirkja fyrir Holtahverfi viljum við koma á framfæri upplýsingum til íhugunar fyrir fólk, varðandi snjóflóð hér á Ísafirði. Frásagnir af snjóflóðum frá fyrri tíma ná aðeins til þeirra flóða sem ollu tjóni á mannvirkjum eða slysum á fólki. Mikið skortir á upplýsingar um aðdraganda margra þessara snjóflóða og stærð þeirra og gerð. Kerfisbundin skráning á snjóflóðum hófst ekki fyrr en 1984. Hér verða talin upp stærstu flóð sem valdið hafa tjóni á mönnum og mannvirkjum frá árinu 1910.

Árið 1910 féll flóð úr Búðargili í Búðarhyrnu í Hnífsdal og fórust 20 manns.

Árið 1984 voru byggð hesthús á þessu svæði og hafa snjóflóð fallið á þau og skemmt.

Árið 1947 féll flóð úr Steiniðjugili sem tók bæinn Sólgerði. Tveir fórust, en fjórum var bjargað. Sólgerði stóð skammt utan og ofan við Steiniðjuna.

Árið 1968 féll snjóflóð á trésmíðaverkstæði utan við Grænagarð og braut það mikið. Enginn var við störf á verkstæðinu þegar flóðið féll. Steiniðjan var síðar byggð á sömu lóð og hefur tvívegis fallið flóð á hana og valdið talsverðum skemmdum.

Árið 1947 tók flóð úr Karlsárgili af bæinn Karlsá og færði hann niður í fjöru. Húsmóðirin var ein heima og barst hún með brakinu en bjargaðist á lífi.

Árið 1947 féll snjóflóð úr Seljalandshlíð og fór á bæinn Seljaland, braut útihús og fór inn í húsið, en enginn var í húsinu þegar flóðið féll. Flóðið tók einnig þrjá sumarbústaði sem stóðu í hlíðinni ofan við Seljaland.

Árið 1947 féll einnig snjóflóð úr Traðargili i Búðarhyrnu í Hnífsdal. Flóðið tók stórt minkabú og eyðilagði það. Einnig fór flóðið á fjárhús sem stóð skammt innan við þar sem félagsheimilið stendur nú og drap þar nokkrar kindur. Flóðið fór niður í Hnífsdalsá. Á þessu svæði var síðar skipulagt og byggt íbúðarhverfi (Teigar og Árvellir) þrátt fyrir að snjóflóðið væri mörgum mönnum enn í fersku minni.

Flóð féll úr Traðargili á efstu húsin í Teigahverfi árið 1999, en búseta hafði verið lögð niður þar 1996-7 vegna snjóflóðahættu, og efstu húsin flutt á brott. Flóðið fór yfir grunna tveggja þessara húsa.

Þann 4. janúar 2005 féll snjóflóð úr Hraunsgili á Árvelli. Flóðið olli talsverðum skemmdum á mannvirkjum, en fólk hafði verið flutt brott af svæðinu vegna snjóflóðahættu. Sama flóð féll á bæinn Hraun, braut gamla íbúðarhúsið í spón og braut glugga á núverandi íbúðarhúsi. Ekki er vitað til að flóð hafi náð svo langt þarna áður.

Árið 1953 féll snjóflóð á skíðaskála Ísfirðinga á Seljalandsdal og mölbraut hann. Enginn var í skálanum þessa helgi. Í skálanum var rekinn skíðaskóli í nokkur ár, en skólinn var ekki hafinn þegar flóðið féll. Árið 1968 var byggð skíðalyfta á sama svæði og síðar var bætt við þremur lyftum, lyftuhúsi og skíðaskála á sama svæði.

Öll þessi mannvirki tók flóð sem féll 5. apríl 1994 og gjöreyðilagði þau, en sökum illviðris var enginn á svæðinu. Hluti af þessu flóði fór niður í Tungudal, tók þar 39 sumarbústaði og gjöreyðilagði þá. Fjórir einstaklingar dvöldu í sumarbústöðum á svæðinu og lést einn þeirra en þrír björguðust. Hafin var endurreisn sumarbústaðanna strax árið 1996 og hafa verið byggðir sumarbústaðir aftur á flestum lóðunum.

Árið 1995 var aftur byggð skíðalyfta á sama svæði á Seljalandsdal en hún og önnur lyfta sem var í byggingu fóru síðan í snjóflóði árið 1999. Litlu munaði að það snjóflóð færi niður í Tungudal.

Árið 1953 féll snjóflóð í Kirkjubólshlíð á útihús á Kirkjubóli og skemmdi þau. Í nágrenni við Kirkjuból höfðu áður fallið snjóflóð, og sagnir eru um stór snjóflóð sem féllu 1910-1920 og 1946-1947 og fóru þvert yfir fjarðarbotninn. Talið er að þessi flóð hafi komið af sama svæði og þau flóð sem fallið hafa á sorpbrennsluna Funa.

Lokið var við byggingu Funa árið 1994. Árið 1995 féll snjóflóð á Funa sem stórskemmdi stöðina, en starfsmann sem var þar við vinnu sakaði ekki. Á tímabilinu frá 1995-2001 féllu nokkur flóð sem náðu niður undir Funa.

Árið 2002 var lokið við byggingu varnarfleygs ofan við Funa. Árið 2004 og 2005 féllu stór snjóflóð á varnarfleyginn. Talið er að þessi flóð hefðu náð að fara á Funa ef fleygurinn hefði ekki verið til staðar. Varnarfleygurinn bægði flóðunum frá húsinu, en þau náðu töluvert niður fyrir Funa.Þessi saga sýnir ljóslega að snjóflóðahætta hefur í gegnum tíðina verið vanmetin með slæmum afleiðingum og stundum hefur litlu munað að ekki fór verr.

Þrátt fyrir hlýnandi veðurfar og snjólétta vetur geta fallið aftakasnjóflóð. Nærtæk dæmi eru snjóflóðin á síðastliðnum vetri á Hraun í Hnífsdal og óvenjustór flóð úr Eyrarhlíð, Seljalandshlíð, Kirkjubólshlíð og Funa. Á sama tíma féllu aðeins smáflóð á snjóflóða¬svæðunum í Súðavík og Flateyri, þetta sýnir hversu erfitt er að segja til um hvar snjóflóð koma til með að falla.
Fengin reynsla sem komin er á snjóflóðavarnarvirki sem gerð hafa verið á síðustu árum sýnir að þessi mannvirki eru síst of stór.

Við megum ekki bíða eftir því að slys verði. Það er ekki ásættanlegt að fólk búi við óöryggi í þessum málum. Við ættum að meta öryggi íbúanna meira en þau umhverfisáhrif sem bygging varnarvirkja í Kubba kann að hafa.

Oddur Pétursson, snjóathuganamaður Veðurstofu Íslands í Ísafjarðarbæ.
Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi