Grein

Gunnbjörn Óli Jóhannsson.
Gunnbjörn Óli Jóhannsson.

Gunnbjörn Óli Jóhannsson | 11.05.2005 | 13:59Nýtt vegstæði milli Þorskafjarðar og Kollafjarðar

Fyrir skömmu birti Morgunblaðið grein sem bar yfirskriftina „Vestfjarðarvegur 60 – er slys í uppsiglingu?“ Þar er látið að því liggja að ef fara skuli eftir samþykktu skipulagi í lagningu Vestfjarðavegar með því að þvera veginn yfir Þorskafjörð og færa hann niður af Hjallahálsi; fara með hann í gegnum Teigsskóg og niður á Hallsteinsnes yfir Djúpafjörð og Gufufjörð yfir á Melanes sé verið að spilla náttúru svæðisins.

Það er ekki langt síðan náttúruverndarsinnar hömuðust hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir þverun Gilsfjarðar. Sú framkvæmd kostaði mikið en engan hef ég heyrt segja að hún hafi ekki borgað sig. Þá fékk maðurinn að njóta vafans og ekki veit ég betur en svo að lífríkið í firðinum hafi staðist breytingarnar. Örnin verpir þar enn þrátt fyrir fullyrðingar um að hún myndi hætta því þegar vegurinn kæmi.

Nú er vegurinn nánast alltaf fær, samvinna Dala og Reykhólasvæða hefur aukist og batnað. Hrakspárnar hafa ekki ræst og eðlilaga spyrjum við sem byggjum svæðið: Hvað ef við hefðum farið að ráðum náttúruverndarsinna og færum enn um Gilsfjörð með tilheyrandi ófærð á vetrum og stórhættu á aur- og snjóskriðum? Það sama á við um fyrirhugaða lagningu yfir Þorskafjörð í Melanes, nú byrjar sama kveinið um náttúruspjöll og mikinn kostnað.

Það var vandað til aðalskipulags þess sem nú er í gildi sem gerir ráð fyrir legu vegarins eins og að ofan er lýst. Formaður skipulagsnefndarinnar var þáverandi vegamálastjóri.

Teigsskógur

Teigsskógur er helsta bitbeinið en hann er á milli Grafar í Þorskafirði og Hallsteinsness, skógurinn er gríðarlega fallegur en rosalega þéttur, svo þéttur að erfitt er að ganga í gegnum hann. Símalínan vestur var lögð þar í gegn fyrir nokkrum áratugum og er mér sagt að símamenn hafi þurft að saga birkið árlega til þess að halda línustæðinu hreinu. Það er hægt að fara bæði fyrir ofan og neðan skóginn og munu þá allir sem keyra veginn sjá þessa paradís.

Það er gríðarlega mikilvægt að þessi leið sé farin, hún mun vera laus við snjó auk þess að vera styttri. Að lappa uppá Hjallaháls svo ekki sé talað um Ódrjúgsháls er óðs manns æði.

Það er með ólíkindum eða öllu heldur vernd að ofan að ekki skuli hafa orðið stórslys þar. Menn sem mæla með þessari leið eins og gert hefur verið að undanförnu í tveimur greinum í Morgunblaðinu hafa greinilega ekki verið að vetrarlagi á þessum slóðum og því ekki hæfir að dæma í þessu máli. Í Alþingiskosningum vorið 1995 neitaði Vegagerðin að ryðja veginn um Hjallaháls sökum snjóþyngsla svo fólkið í Gufsu fengi að kjósa. Þurfti þá fulltrúi sýslumans að fara á vélsleða með kjörgögn yfir í Gufsu. Ódrjúgsháls er skelfilegur í hálku og fóru flutningabílar nokkrum sinnum útaf þar í vetur enda veghallinn 16% og mér til efs að svo mikill veghalli sé annars staðar á þjóðvegi hérlendis.

Maðurinn á að njóta vafans

Ég hef reynt þær hættur sem felast í veginum um Hjallaháls og Ódrjúgsháls eða leiðum C og D samkvæmt skipulagstillögum sem nú er verið að ræða um. Það gildir sama hér og forðum um Gilsfjörð að maðurinn á að njóta vafans. Þverun Gilsfjarðar var í alla staði til bóta og olli ekki þeim náttúrspjöllum sem spáð var. Það sama munu þveranir Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar gera.

Skrifað í maí 2005 að Kinnarstöðum Þorskafirði.
Gunnbjörn Óli Jóhannsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi