Grein

Ásthildur Þórðardóttir.
Ásthildur Þórðardóttir.

Ásthildur Þórðardóttir | 10.05.2005 | 11:14Erum við föst í fordómahjólfari, eða hvað?

Vinkona mín frá Belgíu kom í heimsókn fyrir nokkru. Hún sagði mér frá því, að hún væri að hugsa um að kaupa sér hús á Þingeyri. Ég varð glöð við og hugsaði með mér, að það hún ætlaði að setjast hér að, væri gleðifregn. Þetta er gamalt hús í algjörri niðurníðslu, sagði hún, enginn hefur áhuga á að kaupa það, ég ætla að gera það upp, og setja upp litla kaffistofu og gallerí. Ég elska þetta hús, sagði hún og áhuginn og einbeitningin leyndi sér ekki. Hún ræddi mikið um hvað húsið væri yndislegt, og hve hana hlakkaði til að gera það fallegt, og opna það fyrir Þingeyringum.

Hún kom svo aftur um daginn. Hún var greinilega reið, en þó meira sár. Ég fæ sennilega ekki húsið, sagði hún döpur. Kona á Þingeyri frétti af þessum áhuga mínum á húsinu, og vill fá það. Og mér skilst að hún eigi meiri rétt en ég. Ég varð hvumsa, af hverju hélt hún það. Erum við virkilega svona forpokuð og heimarík. Að þeir sem til okkar vilja koma hafi ekki sama rétt?

Ég held að þetta sé allavega ekki spurning um peninga, því húsið sem um ræðir, er búið að standa óhirt í áraraðir, og enginn hefur sýnt minnsta áhuga á að kaupa það og gera upp. Ekki fyrr en einhver kemur að og fellur fyrir húsinu og vill gera það upp. Ég held meira að segja að það hafi staðið til að rífa það.

Vinkona mín er að hugsa sér til hreyfings. Hún vill búa á Íslandi, en hún ætlar að skoða fleiri möguleika. Er það svona sem við viljum taka á móti og hlú að fólki sem vill flytja til okkar. Og sem vill meira að segja kaupa sér hús til að vera um kyrrt.

Ég skrifa þetta til umhugsunar. Við verðum að breyta þessum hugsunarhætti, ef við viljum að fólk utan úr heimi vilji koma og setjast að hjá okkur. Og ég sem hélt að við tækjum fagnandi öllum sem vildu koma, vegna þess hve okkur fækkar hratt.

Ég aftur á móti, ætla mér að fylgjast með því, að hún geri það upp sómasamlega, ef hún fær húsið, konan sem fékk skyndilega svona mikinn áhuga, þegar hún vissi að einhver annar vildi fá það.

Með vorkveðjum,
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi