Grein

Gísli Hjartarson.
Gísli Hjartarson.

Gísli Hjartarson | 04.05.2005 | 15:04Varhugaverð vinnubrögð

Eftir að áratugalangan klofning lýðræðissinnaðra vinstrimanna tókst loksins að mynda breiðfylkingu jafnaðarmanna: Samfylkinguna, sem er orðin stór og verður stærri. Með því að leggja til hliðar persónulegan meting, kreddur og klíkustarfsemi varð til samhentur stjórnmálaflokkur, sem keppir við Sjálfstæðisflokkinn um forystuhlutverkið í íslenskum stjórnmálum. En nú eru blikur á lofti. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, frambjóðandi í formannskjöri, hefur beinlínis látið að því liggja að klofningur sé yfirvofandi í Samfylkingunni, ef flokksmenn hafa ekki vit á því að láta hana fá formannsstólinn.

Hálfkveðnar vísur…

Á dögunum kom Ingibjörg Sólrún fram í Kastljósi Sjónvarpsins og kastaði þar fram hálfkveðnum vísum. Aðspurð um það hvernig hún myndi taka ósigri í formannskjörinu kvaðst hún vitaskuld ekki hætt þátttöku í stjórnmálum, en nokkrum setningum síðar þvertók hún fyrir að gegna öðrum embættum fyrir flokkinn. Með öðrum orðum vill hún ekki vera með nema hún sé aðal, en hún ætlar samt sem áður að vera að. Hvað þýðir það? Í besta falli er hér verið að beita kjósendur sams konar aðferðum og hún tíðkaði í Reykjavíkurlistanum, sumsé að næðist ekki meirihluti yrði hún hreint ekki með, annað hvort yrði hún borgarstjóri eða ekkert.

Undirritaður átti hins vegar erfitt með að verjast þeirri hugsun, að hér væri verið að láta skína í annað verra - ekki síst þegar Ingibjörg fór með langa ræðu um að flokkar væru aðeins „tæki“ til að ná ákveðnum markmiðum. Vel getur verið að Ingibjörg Sólrún líti á Samfylkinguna sem hvert annað „tæki“ til að efla völd hennar sjálfrar, en í margra hugum er Samfylkingin lifandi hreyfing mörg þúsund einstaklinga sem keppa að sama markmiði: Bættu mannlífi á Íslandi.

Klofningur boðaður?

Grein Elínar G. Ólafsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Kvennalistans og einnar nánustu samstarfskonu Ingibjargar Sólrúnar að fornu og nýju, í Morgunblaðinu á mánudag tók svo af öll tvímæli um hver hótunin er. Í grein þessari var raunar ráðist á formann Samfylkingarinnar á einkar ógeðfelldan hátt og honum borið á brýn að hafa afneitað Messíasi sínum líkt og Símon Pétur gerði í Getsemane forðum. Nú segir það e.t.v. sína sögu að dyggustu stuðningsmönnum Ingibjargar Sólrúnar skuli ekki duga minni samlíking en Mannssonurinn, en athyglisverðasta inntak greinar Elínar var þó öldungis ódulbúin hótun um klofning Samfylkingarinnar ef Ingibjörg Sólrún næði ekki kjöri. Þar var sagt berum orðum að stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar myndu yfirgefa Samfylkinguna ef hún yrði ekki formaður flokksins.

Vinnubrögð af þessu tagi eru óþolandi í lýðræðislegum, nútímalegum jafnaðarmannaflokki. Að reyna að hafa sitt fram með klofningshótunum og ámóta þvingunum er ekki til neins annars fallið en að eyðileggja allt okkar starf. En það má líka efast um þessa ofuráherslu á að Samfylkingin standi og falli með því að tiltekinn stjórnmálamaður sé valinn til forystu. Eða sýnist mönnum að leiðtogadýrkunin á hægri væng stjórnmálanna hafi orðið lýðræðinu til framdráttar, hvað þá að hún sé jafnaðarmönnum til eftirbreytni? Þá hafa menn heldur betur fjarlægst inntak jafnaðarstefnunnar.

Gísli Hjartarson. Höfundur er fv. ritstjóri SKUTULS, málgagns jafnaðarmanna á Vestfjörðum og flokkstjórnarmaður í Samfylkingunni.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi