Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi Hjálmarsson | 28.04.2005 | 09:25Um hverfi og umhverfi

Nú á að verja Holtahverfi á Ísafirði fyrir snjóflóðum með því að rústa Kubbanum. Ekki átti fjallið neina sök á því að hverfið var byggt við rætur þess. Samt á að refsa náttúru Kubbans. Hætta af snjóflóðum er fyrirsjáanleg. Með skynjurum í fjallshlíðinni og öðru nánast ósýnilegu eftirliti væri hægt að vita um hugsanlega snjóflóðahættu úr Kubbanum með töluverðum fyrirvara og rýma hverfið í tæka tíð, komi til hættuástands.

Sjóslys, bílslys og flugslys eru ófyrirsjáanlegar hættur. Flugslys eru fátíð en koma þó fyrir. Það hættulegasta sem viðkemur flugi eru annars vegar aðflug og lending og hins vegar flugtak, sem er hættumest. Hvort sem um aðflug eða flugtak er að ræða á Ísafirði fer það fram sem lágflug yfir Holtahverfinu. Í engu tilfelli er um rýmingu húsa að ræða, fari eitthvað úrskeiðis í aðflugi eða flugtaki í lítilli hæð yfir hverfinu. Á Ísafirði eru að meðaltali um 1.300 lendingar og flugtök árlega. Í hvert skipti er pínulítil hætta á ófyrirsjáanlegum hamförum.

Fram hefur komið, að á síðustu öld féllu í fimm skipti einhverjar snjóspýjur úr Kubbanum. Það er að meðaltali 0,05 sinnum á ári eða á tuttugu ára fresti að jafnaði. Í öllum tilfellum fyrirsjáanleg hætta, nenni fólk að ganga í takt við umhverfi sitt. Ýmis fræði koma við sögu vegna undirbúnings fyrirhugaðra framkvæmda við skemmdarverkin, auk skemmdarverkfræði. Þar má nefna allskyns aðra verkfræði, tæknifræði, veðurfræði, umhverfisfræði, bygginga- og burðarþolsfræði og hönnunar- og sköpunarfræði. Og landsbyggðaratvinnusköpunarfræði á grundvelli mörg hundruð milljóna króna framlags úr ríkissjóði.

En það er alveg sama hversu fínt og traustvekjandi þetta hljómar allt saman. Það getur ekki verið nema ein fræðigrein sem er undirrót fyrirhugaðra skemmdarverka: Fáfræði.

– Pétur Tryggvi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi